Djörfung og dugur á Mogganum

Nú er gósentíð hjá hýenum og hælbítum sem öfundast út í Morgunblaðið, máttarstólpa íslenskrar blaðamennsku, fyrir þá snjöllu og kjarkmiklu ákvörðun að ráða einn stórbrotnasta persónuleika þjóðarinnar sem ritstjóra blaðsins. Já, nú hefur Mogginn sannarlega sýnt djörfung og dug og tæki ég ofan hattinn ef ég ætti hann. Netheimar loga og símalínur blaðsins munu glóa en eftir stendur að brotið hefur verið blað með aðdáunarverðum hætti og mun ég sem tryggur áskrifandi fylgjast gagntekinn með framhaldinu.

Það var löngu orðið tímabært að grípa til róttækra og faglegra aðgerða á fjölmiðli sem margir hafa álitið steingerða stofnun. Burt með alla þessa gömlu og reyndu (þreyttu) blaðamenn, sem voru orðnir allt of dýrir í rekstri. Stundum þarf að lofta út og til allrar hamingju höfðu eigendur blaðsins áræði til þess. Ég sé ekki betur en að fylgt hafi verið faglegum sjónarmiðum í hvívetna og framtíð blaðsins sé nú bjartari en mörg undangengin ár. Nýi ritstjórinn skín sem perla á sorphaug íslenskrar blaðamennsku.

Ég var blaðamaður á smáblaðinu Degi í 8 ár og fór síðan í almennar fréttir á Morgunblaðinu eitt sumar og var síðan íþróttafréttaritari blaðsins á Akureyri næstu 12 árin eða svo. Líklegast hef ég verið áskrifandi að blaðinu í aldarfjórðung svo taugar mínar til þess eru sterkar. Það kæmi mér ekki á óvart þótt nýi ritstjórinn hefði samband við mig því aldrei hef ég mælt styggðaryrði um hann, öfugt við meginþorra þjóðarinnar. Að vísu gæti það háð mér að vera orðinn nokkuð roskinn og reyndur.

Ráðning ritstjórans er tvímælalaust öflugur leikur og sömuleiðis aðrar faglegar og ígrundaðar breytingar sem kynntar voru í dag. Ég verð samt að viðurkenna að það runnu á mig tvær grímur síðustu daga þegar bloggararnir hömuðust sem mest og um hríð var ég kominn á fremst hlunn með að segja skilið við blaðið. Þegar uppsláttarfrétt um að stjörnulögfræðingur, sem ég hef aldrei haft neinar mætur á, hefði ákveðið að segja blaðinu upp þá bakkaði ég, enda vildi ég ekki feta í fótspor hans. Svo kom reyndar fram í Kastljósinu í kvöld að umræddur lögfræðingur hefði ekki verið áskrifandi að blaðinu svo allt var þetta stormur í vatnsglasi.

Nei, ég mun halda áfram að kaupa Morgunblaðið. Það er blað sem hefur rödd og nú er hún orðin sterkari en áður. Fréttamennskan verður sjálfsagt traustari, faglegri og víðsýnni en nokkru sinn fyrr og ekki veitir af að hafa dagblað með skoðanir og áhrif, dagblað sem hefur völd. Á Fréttablaðinu hafa menn bara verið gjammandi hver í sínu horni meðan samhljómur, festa og óhlutdrægni hafa einkennt ásýnd Morgunblaðsins. Framtíð okkar er undir fréttamennsku Moggans komin og með Davíð Oddsson sem ritstjóra og Agnesi Bragadóttur þétt við hlið hans hlýtur framtíðin að vera björt. Þar eru samankomnir stórbrotnir hæfileikar, stílsnilld, áræði, víðsýni, heiðarleiki, umburðarlyndi, kurteisi, auðmýkt og ýmsar dygðir aðrar sem nýtast munu þjóðinni til að rétta úr kútnum.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson

Sæll Stefan Þór

Þetta er sko rétt hjá þér að það þarf dug og þor að ráða suma menn en Óskar okkar klikkaði ekki.

Enda fáum við núna umfjöllun sem er í lagi og frá innsta koppi,áður fyrir hrun þar sem Davíð var kennt um allt sem Seðlabankastjóra,en hvað nú.Nú þurfum við að losna við þessa nýju Seðlabankastjórn og sérstaklega Seðlabankastjóra.

Og tala nú ekki um ríkisstjórnina sem bara sefur og vísar málum bara á milli flokka.

Takk Stefán.

Jón Guðbjörn Guðjónsson, 24.9.2009 kl. 21:56

2 identicon

Ég er ekki fra því að einhverjir hafi tekið lofgjörðina í pistlinum helst til bókstaflega, og þá sérstaklega oflofið í restina :)

Valur (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband