Saftmeistarinn

Ég hef aldrei búið til sultu eða hlaup. Fyrr en nú. Réttara sagt, ég reyndi að búa til hlaup. Úr varð þessi fína rifsberjasaft. Þrátt fyrir vísindalega nákvæmni og natni vildi saftin ekki hlaupa. Konan mín prófaði svo að gera hlaup eftir frumstæðri uppskrift og það tókst ljómandi vel án nokkurrar fyrirhafnar. Gott hjá henni en sjálfsmynd mín var í molum.

Til að bæta úr þessu ákvað ég að búa til hlaup ársins. Ég notaði bláber, aðalbláber, krækiber, græn epli, rifsber, sítrónusafa og sykur. Ég vandaði mig óskaplega og gætti þess að nota ekki óþarflega mikið vatn eins og í rifsberjasaftinni. Jæja, þetta bláa glundur er komið í nokkrar krukkur, alveg lapþunnt en afskaplega bragðgott.

Ég gef mig nú út fyrir að vera mikill saftmeistari, til að bjarga andlitinu af því að ég get ekki búið til hlaup. Þetta hefur verið álíka misheppnað og tilraunir mínar til gerbaksturs. Ætli ég verði ekki bara að viðurkenna vanmátt minn. Ég er ekki nógu snjall í þessum kvenlegu dygðum þótt ég kunni að elda, strauja og festa tölur í skyrtu.

 


Nýjar myndir

Jæja, loksins er ég búinn að setja inn nokkur ný myndaalbúm fyrir ættingja og vini. Að sjálfsögðu eru þetta mest myndir af Silju en einnig frá Tenerife. Myndirnar má finna hér til vinstri undir Tenglar-Myndir-Myndasafnið mitt.

 


Silja sæta

DSC03278 Það var nú aldeilis gaman að sjá Silju aftur eftir heilan mánuð. Hún hefur stækkað mikið og breyst. Gaman að fylgjast með því hvernig augun eru að breytast úr því að vera grá eða ljósblá yfir í það að vera móleit eða brún.

 

 

 

 

DSC03281Hér er afinn að sprella með Silju litlu og ekki annað að sjá en hún sé hin kátasta.


Aldarafmæli

Picture 176 Amma mín, Irene Gook, fagnaði 100 ára afmæli sínu 11. ágúst. Hún er að vanda fjallhress og skýr og veit sínu viti. Hér eru þrjár sprækar, Auður móðir mín, Silja Marín dótturdóttir mín og Renie, eins og við höfum kallað hana frá örófi alda.


Í bili

Jæja, þetta er orðið gott í bili. Flestir komnir á fésbók eða hættir að blogga og best að taka sér pásu. Það er búið að vera yndislegt að hafa Silju litlu (og foreldra hennar að sjálfsögðu líka) og einnig frábært að fá Hemma og fjölskyldu heim frá Danmörku. Sumsé, fjölskyldusumar, fjör og sól. Ekki nokkur ástæða til að hanga í tölvunni. Adios.

 


Áfram veginn

Þá er 17. júní liðinn og skólaárið í MA þar með á enda. Enn er svo sem eitthvað við að vera í skólanum, s.s. uppgjör og tiltekt og áður en langt um líður verður maður kominn aftur til starfa við undirbúning í ágústmánuði. Mér telst til að þetta hafi verið fimmtánda árið mitt við kennslu en fyrst var ég reyndar stundakennari og var jafnframt í námi í uppeldis- og kennslufræði við Háskólann á Akureyri. Kennslan greip mig strax og þótt blaðamennskan 8 árin þar á undan hafi oft verið fjölbreytt og skemmtileg hefur kennslan verið mun gjöfulla starf. Kannski ekki í peningum, sérstaklega ekki framan af. En mikið hefur tíminn liðið hratt.

Meðfram kennslunni í MA hef ég gripið í ýmis aukastörf, s.s. fjarkennslu við VMA, stundakennslu við Háskólann og Myndlistaskólann, þýðingar og blaðamennsku. Raunar var ég íþróttafréttaritari á Mogganum fyrstu 12 kennsluárin mín. Þá var ég forvarnafulltrúi MA í 10 ár, auk þess að vera íslenskukennari í fullu starfi. Síðasta haust hóf ég síðan meistaranám samhliða kennslunni þannig að í rauninni hef ég aldrei prófað að vera bara kennari í MA, að fullu og öllu leyti. Ætli ég haldi ekki áfram í náminu næsta vetur og þá hef ég lofað mér í dálitla aukavinnu á öðrum stað.

Það er af og frá að ég ætli að kvarta yfir því að hafa of mikið að gera. Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna. Líka við innréttingasmíði, vegagerð, handlang í byggingavinnu, ræstingar og fleira. En auðvitað væri gaman að hafa tíma fyrir ýmis hugðarefni, s.s. að klára skáldsöguna, klífa fleiri fjöll eða gerast ættrækinn mjög og félagsmálatröll. Ah, þarna datt ég niður á lausnina. Best að ég klári skáldsöguna í sumar og slái í gegn um jólin. Þá verð ég keyptur og seldur og kannski þýddur og mala gull og hef nægan tíma til að vera bara kennari. Og þó. Ætli komi ekki fram krafa um fleiri bækur og raunar var ég eitthvað byrjaður að hugsa um næsta sögu. Best að klára þessa fyrst.

 


Röfl

Birtingarmyndir neysluhyggjunnar og samkeppnissýkinnar sem lengi hefur gegnsýrt Íslendinga hafa oft farið í taugarnar á mér. Þegar litið er um öxl er margt af þessu svo ótrúlegt að það jaðrar við að vera hlálegt og nægir að nefna sögurnar um gullflöguátið, steikurnar af bjórþyrstu nautunum, þyrluferðir í pylsusjoppu, innflutning á rándýrum skemmtikröftum og samkvæmisferðir í einkaþotum. En auðvitað var þetta löngu byrjað og vitleysan heldur áfram hjá vestrænum markaðsþjóðum.

Hvaða vit er í því að kaupa knattspyrnumann á 17 milljarða og borga honum 2 milljarða í árslaun? Er ekki enn verið að borga stórleikurum upp í 1-2 milljarða fyrir að leika í kvikmynd? Verðlaun á golf- og tennismótum eru kannski 50-100 milljónir fyrir sigur. Gisting á snobbhótelum getur kostað 1 milljón nóttin. Ríku stelpurnar geta líka keypt sér kjól fyrir ámóta upphæð. Listaverk og alls kyns glingur er verðlagt á við einbýlishús. Öll sóunin sem fer í gegnum ríka og fræga fólgið er hrikaleg og þegar maður fer að hugsa um hernaðarbrölt, geimvísindi og annað ámóta fínt verða upphæðirnar stjarnfræðilegar. Ofurlaun, snobb, dómgreindarleysi, sóun, heimska, eigingirni, græðgi; taumlaus markaðshyggja.

Mér þætti Ronaldo fullsæmdur af 200 milljónum á ári eða bara 20. Þetta er komið út í algjörar ógöngur. 2 milljarðar í árslaun. Þótt slíkar upphæðir hafi ekki þekkst hér vorum við svo sannarlega komin út á hinn hála ofurlaunaís og því ber að fagna launaþakinu sem á að setja á stjórnendur ríkisstofnana. Það hefði mátt setja þak á svo ótal margt í stað þess að lofa og prísa taumleysið og óhófið.

Auðvitað snarbrá manni í brún þegar pasturslitlar húsmæður voru allt í einu farnar að streyma í stórmarkaðina á risastórum, bensínsvelgjandi pallbílum og barnungir bissnessmenn fengu sér 20 milljóna Range Rover eða jafnvel 50 milljóna Benz, helst á 90% lánum. Allir þurftu að eignast fellihýsi eða sumarbústað og nýjustu og flottustu græjurnar. Sumir keyptu nýleg hús til þess eins að rífa þau og byggja annað í staðinn eftir sínu höfði. Svona mætti lengi halda áfram en nú er komið að skuldadögum og auðvitað verður hver að líta í eigin barm.

Ef við getum ekki sett okkur leikreglur er líklegt að Evrópusambandið, Norðurlöndin, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eða jafnvel Eva Joly verði að hafa vit fyrir okkur. Við settum okkur á hausinn en í stað þess að viðurkenna vandann og sameinast um lausnir höldum við ótrauð áfram í samkeppninni og henni er stjórnað á Alþingi og blásin út í fjölmiðlum. Stundum er eins og maður sé staddur í farsa eftir Dario Fo. Við borgum ekki. Og svo verður allt vitlaust ef verð hækkar á brýnustu nauðsynjum eins og áfengi, tóbaki og bensíni. Markaðssleikjur froðufella þegar minnst er á sykurskatt og ekki má hækka skatt á hæstu laun. Jahérna. Maður hefði haldið að það gæti myndast samstaða um það að skattleggja frekar óþarfa og hæstu laun í stað þess að koma strax með flatan niðurskurð og almennar hækkanir. En ég hef aldrei skilið íslenska landsmálapólitík og sumir virðast heldur ekki skilja hugtak á borð við skuldadaga.

Nú er ég búinn að brjóta eigin bloggreglur. Ekkert röfl um pólítík og efnahagsmál var stefnan, aðeins fréttir af mér og mínum og örlitlar háðsádeilur eða gamansögur handa vinum og ættingjum. Jákvæðni og bjartsýni. Jú, ég er bara þokkalega bjartsýnn. Mér líður betur en oft áður. Brjósklosið er eitthvað að skána og uppskurði var frestað. Og svo eru Auður, Styrmir og Silja Marín að koma á morgun og hætt við að maður missi sig í afalátum. Bara muna að passa bakið.

 


Hýr á brá

Bros og bjartsýni lífga sannarlega upp á tilveruna og því var kærkomið að sjá Margréti Blöndal bregða fyrir í sjónvarpsfréttum á dögunum. Alltaf svo hýr á brá, þessi elska, og fréttin og viðtölin um garðrækt Akureyringa var létt og skemmtileg og laus við þjáningar og þrautir. Það væri gaman að fá meira frá Möggu í sjónvarpi allra landsmanna. Það var ekki síst henni að þakka að Akureyringum tókst að breyta ásýnd fjölskylduhátíðarinnar um síðustu verslunarmannahelgi og frosin ásjóna sumra fréttamanna, þurrar upplýsingar og bölsýnistal þarfnast líka yfirhalningar.

Mér finnst Möggu takast að vera ljúf og góð, ljóshærð og broshýr án þess að virka væmin eða veruleikafirrt. Kannski er ég bara farinn að mildast með aldrinum. Ekki þoldi ég ónefnda útvarpskonu sem var annáluð fyrir væmni og rómantík hér áður fyrr og var sögð hafa flutt Valentínusardaginn til landsins. Nú á ég hins vegar orðið bágt með að þola þegar fjölmiðlarnir reyna að búa til ágreining úr öllu og blása upp allt hið neikvæða í kringum okkur. Brosum með hjartanu!


Smjaðrað fyrir austrænum trúarleiðtoga

Voðalegir asnar erum við Íslendingar. Af hverjum ættum við endilega að smjaðra sérstaklega fyrir útlaganum frá Tíbet? Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Er ekki ýmislegt annað sem stendur okkur nær? Auðvitað er sjálfsagt að fá hingað trúboða, heimspekinga, hagfræðinga, rokkara, kvikmyndastjörnur, rithöfunda og annað misjafnlega frægt og merkilegt fólk og vonandi fær almenningur að ráða eigin viðbrögðum við slíkum heimsóknum. Ég held að útlaginn þurfi ekkert að kvarta yfir aðsókn á fyrirlestra hans og þar sem þetta er ekki opinber heimsókn skil ég ekki alveg nöldrið í niðurrifsöflunum.

Það er með ólíkindum að fylgjast með fjölmiðlaumræðunni og öllum ekki-fréttunum sem dunið hafa á saklausum landsmönnum að undanförnu. Gert hefur verið stórmál úr því að þessi og hinn ráðamaðurinn hafi ekki ætlað að halda fund með þessum austræna trúarleiðtoga og jafnvel hefur verið látið í það skína að það sé álitshekkir fyrir ríkisstjórnina að hafa ekki dúkað öll borð og blásið til veislu. Hvaða bévítans máli skiptir þessi heimsókn fyrir íslenskt stjórnmálalíf? Og til að missa endanlega allt niðrum sig hefur Mogginn snuprað forseta Íslands í forystugrein fyrir að hafa farið með íslenska íþróttafólkinu á smáþjóðaleikana á Möltu í stað þess að bjóða trúarleiðtoganum í snittur á Bessastöðum! Hvernig er eiginlega hægt að láta svona í leiðara stórblaðsins? Jæja, ætli forsetinn hefði ekki líka verið skammaður á þeim bæ fyrir óábyrgt daður við austræna friðarpostula ef hann hefði setið heima og haldið veislu með útlaganum í stað þess að styðja íþróttafólkið okkar.

Boðskapur friðar, sáttar, hófsemi, sanngirni og umhyggju á alltaf erindi við okkur Íslendinga. Vonandi fáum við áfram marga góða gesti í heimsókn og fólki hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða fyrirlestra, námskeið eða tónleika það sækir. Ofstækisfull fjölmiðlaumræða er ekki það sem við þurfum á að halda um þessar mundir.

 


Jordan og Andre um hvítasunnuna

Mikið er ég þakklátur Morgunblaðinu fyrir að birta vandaða fréttaskýringu um listafólkið góðkunna Jordan og Andre í sunnudagsblaðinu núna um hvítasunnuna. Ég hef öðru hverju rekist á stutta pistla, kannski 5-10 dálksentimetra, um þessi mikilsverðu hjón og mannvini en nú bætir Mogginn sannarlega um betur með nánast heilli opnu. Með þessu lofsamlega framtaki lýkst upp fyrir mér nýr heimur og ég fæ aðra og dýpri sýn á fólk sem var mér annars framandi.

Jú, ég er að tala í alvöru. Oftlega hef ég séð fyrirsagnir og fréttapunga um Jordan og Andre en einhvern veginn hefur efnið ekki höfðað til mín. Ég þekkti þessar manneskjur ekki neitt, hafði ekki vísvitandi séð kvikmyndir með þeim eða lesið bækur eftir þær og raunar vissi ég aldrei fyrir víst við hvað þetta ágæta fólk starfaði. Ég veit það varla ennþá en hjónin hljóta að vera fræg fyrst þau voru alltaf í fréttum. Nöfnin sögðu mér ekkert. Jordan minnti mig á tannbursta, körfubolta eða kappakstur og eftir að hafa séð myndir af stúlkunni er minningin um körfuboltann kannski efst í huga.

Jæja, ég skal viðurkenna að ég nennti heldur ekki að lesa þessa vönduðu grein í sunnudagsblaðinu, rétt renndi svona yfir myndir og millifyrirsagnir. Jordan og Andre, eða Jórunn og Andrés, koma mér ekkert við en reyndar heitir konan víst Katrín en ekki Jórunn. Ég náði því þó. Sjálfsagt eru þetta miklir listamenn og eiga það skilið að mikið og oft sé um þá fjallað því allt hlýtur þetta jú að snúast um framboð og eftirspurn. Og ekki dettur mér í hug að efast um gildi frétta af ríka og fræga fólkinu. Fyrstu verkefnin sem ég fékk þegar ég byrjaði sem blaðamaður á Degi voru einmitt í því fólgin að fletta erlendum slúðurblöðum og snara nokkrum áhugaverðum greinum. Slíkri blaðamennsku hefur æ síðan vaxið fiskur um hrygg og með frásögninni af Jórunni og Andrési hefur nýjum hæðum verið náð. Við erum ekki lengur að tala um stutta eindálka aftarlega i blaðinu heldur opnugrein. 

Mig minnir að Jesús hafi birst lærisveinum sínum á hvítasunnu en nú er það Jórunn hin júgurmikla sem birtist íslenskum lesendum. Fagnaðarerindið fór hins vegar fram hjá mér. Kannski er boðskapurinn sá að hamingjan sé fólgin í lýtaaðgerðum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband