Röfl

Birtingarmyndir neysluhyggjunnar og samkeppnissýkinnar sem lengi hefur gegnsýrt Íslendinga hafa oft farið í taugarnar á mér. Þegar litið er um öxl er margt af þessu svo ótrúlegt að það jaðrar við að vera hlálegt og nægir að nefna sögurnar um gullflöguátið, steikurnar af bjórþyrstu nautunum, þyrluferðir í pylsusjoppu, innflutning á rándýrum skemmtikröftum og samkvæmisferðir í einkaþotum. En auðvitað var þetta löngu byrjað og vitleysan heldur áfram hjá vestrænum markaðsþjóðum.

Hvaða vit er í því að kaupa knattspyrnumann á 17 milljarða og borga honum 2 milljarða í árslaun? Er ekki enn verið að borga stórleikurum upp í 1-2 milljarða fyrir að leika í kvikmynd? Verðlaun á golf- og tennismótum eru kannski 50-100 milljónir fyrir sigur. Gisting á snobbhótelum getur kostað 1 milljón nóttin. Ríku stelpurnar geta líka keypt sér kjól fyrir ámóta upphæð. Listaverk og alls kyns glingur er verðlagt á við einbýlishús. Öll sóunin sem fer í gegnum ríka og fræga fólgið er hrikaleg og þegar maður fer að hugsa um hernaðarbrölt, geimvísindi og annað ámóta fínt verða upphæðirnar stjarnfræðilegar. Ofurlaun, snobb, dómgreindarleysi, sóun, heimska, eigingirni, græðgi; taumlaus markaðshyggja.

Mér þætti Ronaldo fullsæmdur af 200 milljónum á ári eða bara 20. Þetta er komið út í algjörar ógöngur. 2 milljarðar í árslaun. Þótt slíkar upphæðir hafi ekki þekkst hér vorum við svo sannarlega komin út á hinn hála ofurlaunaís og því ber að fagna launaþakinu sem á að setja á stjórnendur ríkisstofnana. Það hefði mátt setja þak á svo ótal margt í stað þess að lofa og prísa taumleysið og óhófið.

Auðvitað snarbrá manni í brún þegar pasturslitlar húsmæður voru allt í einu farnar að streyma í stórmarkaðina á risastórum, bensínsvelgjandi pallbílum og barnungir bissnessmenn fengu sér 20 milljóna Range Rover eða jafnvel 50 milljóna Benz, helst á 90% lánum. Allir þurftu að eignast fellihýsi eða sumarbústað og nýjustu og flottustu græjurnar. Sumir keyptu nýleg hús til þess eins að rífa þau og byggja annað í staðinn eftir sínu höfði. Svona mætti lengi halda áfram en nú er komið að skuldadögum og auðvitað verður hver að líta í eigin barm.

Ef við getum ekki sett okkur leikreglur er líklegt að Evrópusambandið, Norðurlöndin, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eða jafnvel Eva Joly verði að hafa vit fyrir okkur. Við settum okkur á hausinn en í stað þess að viðurkenna vandann og sameinast um lausnir höldum við ótrauð áfram í samkeppninni og henni er stjórnað á Alþingi og blásin út í fjölmiðlum. Stundum er eins og maður sé staddur í farsa eftir Dario Fo. Við borgum ekki. Og svo verður allt vitlaust ef verð hækkar á brýnustu nauðsynjum eins og áfengi, tóbaki og bensíni. Markaðssleikjur froðufella þegar minnst er á sykurskatt og ekki má hækka skatt á hæstu laun. Jahérna. Maður hefði haldið að það gæti myndast samstaða um það að skattleggja frekar óþarfa og hæstu laun í stað þess að koma strax með flatan niðurskurð og almennar hækkanir. En ég hef aldrei skilið íslenska landsmálapólitík og sumir virðast heldur ekki skilja hugtak á borð við skuldadaga.

Nú er ég búinn að brjóta eigin bloggreglur. Ekkert röfl um pólítík og efnahagsmál var stefnan, aðeins fréttir af mér og mínum og örlitlar háðsádeilur eða gamansögur handa vinum og ættingjum. Jákvæðni og bjartsýni. Jú, ég er bara þokkalega bjartsýnn. Mér líður betur en oft áður. Brjósklosið er eitthvað að skána og uppskurði var frestað. Og svo eru Auður, Styrmir og Silja Marín að koma á morgun og hætt við að maður missi sig í afalátum. Bara muna að passa bakið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband