Smjaðrað fyrir austrænum trúarleiðtoga

Voðalegir asnar erum við Íslendingar. Af hverjum ættum við endilega að smjaðra sérstaklega fyrir útlaganum frá Tíbet? Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Er ekki ýmislegt annað sem stendur okkur nær? Auðvitað er sjálfsagt að fá hingað trúboða, heimspekinga, hagfræðinga, rokkara, kvikmyndastjörnur, rithöfunda og annað misjafnlega frægt og merkilegt fólk og vonandi fær almenningur að ráða eigin viðbrögðum við slíkum heimsóknum. Ég held að útlaginn þurfi ekkert að kvarta yfir aðsókn á fyrirlestra hans og þar sem þetta er ekki opinber heimsókn skil ég ekki alveg nöldrið í niðurrifsöflunum.

Það er með ólíkindum að fylgjast með fjölmiðlaumræðunni og öllum ekki-fréttunum sem dunið hafa á saklausum landsmönnum að undanförnu. Gert hefur verið stórmál úr því að þessi og hinn ráðamaðurinn hafi ekki ætlað að halda fund með þessum austræna trúarleiðtoga og jafnvel hefur verið látið í það skína að það sé álitshekkir fyrir ríkisstjórnina að hafa ekki dúkað öll borð og blásið til veislu. Hvaða bévítans máli skiptir þessi heimsókn fyrir íslenskt stjórnmálalíf? Og til að missa endanlega allt niðrum sig hefur Mogginn snuprað forseta Íslands í forystugrein fyrir að hafa farið með íslenska íþróttafólkinu á smáþjóðaleikana á Möltu í stað þess að bjóða trúarleiðtoganum í snittur á Bessastöðum! Hvernig er eiginlega hægt að láta svona í leiðara stórblaðsins? Jæja, ætli forsetinn hefði ekki líka verið skammaður á þeim bæ fyrir óábyrgt daður við austræna friðarpostula ef hann hefði setið heima og haldið veislu með útlaganum í stað þess að styðja íþróttafólkið okkar.

Boðskapur friðar, sáttar, hófsemi, sanngirni og umhyggju á alltaf erindi við okkur Íslendinga. Vonandi fáum við áfram marga góða gesti í heimsókn og fólki hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða fyrirlestra, námskeið eða tónleika það sækir. Ofstækisfull fjölmiðlaumræða er ekki það sem við þurfum á að halda um þessar mundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil ekki þessa vitleysu alla saman, og allt þetta fjaðrarok. Svo hitti Ömmi rauði manninn líka, er ekki nóg að hitta verðandi forsætisráðherrann?

Siggeir (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 12:22

2 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Ég gleymdi að leiðrétta landafræðina. Smáþjóðaleikarnir eru víst á Kýpur núna en ekki Möltu. En já, þetta var meira fjaðrafokið en nú er fuglinn floginn og við getum snúið okkur að öðru.

Stefán Þór Sæmundsson, 6.6.2009 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband