1.6.2009 | 10:58
Jordan og Andre um hvítasunnuna
Mikið er ég þakklátur Morgunblaðinu fyrir að birta vandaða fréttaskýringu um listafólkið góðkunna Jordan og Andre í sunnudagsblaðinu núna um hvítasunnuna. Ég hef öðru hverju rekist á stutta pistla, kannski 5-10 dálksentimetra, um þessi mikilsverðu hjón og mannvini en nú bætir Mogginn sannarlega um betur með nánast heilli opnu. Með þessu lofsamlega framtaki lýkst upp fyrir mér nýr heimur og ég fæ aðra og dýpri sýn á fólk sem var mér annars framandi.
Jú, ég er að tala í alvöru. Oftlega hef ég séð fyrirsagnir og fréttapunga um Jordan og Andre en einhvern veginn hefur efnið ekki höfðað til mín. Ég þekkti þessar manneskjur ekki neitt, hafði ekki vísvitandi séð kvikmyndir með þeim eða lesið bækur eftir þær og raunar vissi ég aldrei fyrir víst við hvað þetta ágæta fólk starfaði. Ég veit það varla ennþá en hjónin hljóta að vera fræg fyrst þau voru alltaf í fréttum. Nöfnin sögðu mér ekkert. Jordan minnti mig á tannbursta, körfubolta eða kappakstur og eftir að hafa séð myndir af stúlkunni er minningin um körfuboltann kannski efst í huga.
Jæja, ég skal viðurkenna að ég nennti heldur ekki að lesa þessa vönduðu grein í sunnudagsblaðinu, rétt renndi svona yfir myndir og millifyrirsagnir. Jordan og Andre, eða Jórunn og Andrés, koma mér ekkert við en reyndar heitir konan víst Katrín en ekki Jórunn. Ég náði því þó. Sjálfsagt eru þetta miklir listamenn og eiga það skilið að mikið og oft sé um þá fjallað því allt hlýtur þetta jú að snúast um framboð og eftirspurn. Og ekki dettur mér í hug að efast um gildi frétta af ríka og fræga fólkinu. Fyrstu verkefnin sem ég fékk þegar ég byrjaði sem blaðamaður á Degi voru einmitt í því fólgin að fletta erlendum slúðurblöðum og snara nokkrum áhugaverðum greinum. Slíkri blaðamennsku hefur æ síðan vaxið fiskur um hrygg og með frásögninni af Jórunni og Andrési hefur nýjum hæðum verið náð. Við erum ekki lengur að tala um stutta eindálka aftarlega i blaðinu heldur opnugrein.
Mig minnir að Jesús hafi birst lærisveinum sínum á hvítasunnu en nú er það Jórunn hin júgurmikla sem birtist íslenskum lesendum. Fagnaðarerindið fór hins vegar fram hjá mér. Kannski er boðskapurinn sá að hamingjan sé fólgin í lýtaaðgerðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.