Fótspor fjöldans

Ég hef aldrei farið í ljós, ég sá ekki Titanic í bíó, ég kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn, held hvorki með Liverpool né Manchester United, horfi ekki á Idol eða sambærilega þætti, greiði ekki atkvæði í Eurovision, hef aldrei lesið erótískt blogg Ellýjar Ármanns, á ekki farsíma með myndavél, ekki heldur flatsjónvarp, ég kaupi ekki lottómiða, ég á ekki gasgrill, ég hef ekki skuldbreytt láninu frá Íbúðalánasjóði, ég les ekki Sjónvarpsdagskrána frá Ásprenti/Stíl og ég hef enga lyst á því að blogga hér þar sem hálf þjóðin hefur hreiðrað um sig.

Tíminn vill ekki tengja sig við mig - eða er það öfugt? Að minnsta kosti er ljóst að ég fer sjaldan í fótspor fjöldans. Einhverjir verða jú að vera í minnihluta, annars væri hann ekki til. Ekki það að ég gangi viljandi á afturfótum tíðarandans eða hjarta mitt sé klökkt af samúð með hinu litla og smáa í veröldinni. Ég er bara ég.

 Far vel.


Myndrænt og vænt

Mikið svakalega eru sjálfstæðismenn flottir og miklir yfirburðamenn á flestum sviðum. Þetta er göldrum líkast. Sjáið bara hvernig þeir hafa saltað Samfylkinguna eftir landsfundahelgina. Ég veit svo sem ekki mikið um málefnin sem þar voru rædd og kynnt, enda iðulega orðagjálfur og trúarjátningar, en myndirnar, kynningin og umfjöllunin er svo sannarlega á bandi sjallanna. Að hjartarótum okkar seytla tilfinningar eins og traust, aðdáun, lotning, virðing, hlýja, vinsemd, öryggi, ást og fleira í sama dúr þegar við sjáum myndir frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Myndir af landsfundi Samfylkingar endurspegla hins vegar eitthvað smátt og sundurlaust, tæting og glundroða.

Hví slæ ég þessu fram? Jú, með því að lesa í myndirnar. Flettið nú í gegnum blöðin og sjáið allar ljósmyndarnar frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega Moggamyndirnar. Þær eru teknar með músarsjónarhorni, þ.e. fyrir neðan viðfangsefnið. Við horfum upp til Geirs Haarde og Þorgerðar Katrínar. Annað hvort er hann einn eða þau standa þétt saman. Þau fylla vel út í gullinsniðið í myndrammanum. Þau eru stór, við lítum upp til þeirra. Þau er traustvekjandi. Bakgrunnurinn er landið  okkar hreina, grænt og fagurblátt. Þetta eru fullkomnar áróðursmyndir og mann dauðlangar að dansa með og vera í sigurliðinu.

Í Mogganum var svo sýnt frá Samfylkingarfundinum. Sjónarhornið var nú jafnræðissjónarhorn eða jafnvel fuglssjónarhorn. Litið var niður á samfylkingarfólk sem sat dreift um salinn með alls konar svip og í alls konar stellingum. Greinilega sundurleit hjörð. Enginn bakgrunnur, bara litlir einstaklingar á víð og dreif. Hver treystir svona liði?

Djöfull er þetta snjallt! 


mbl.is Geir: Fer fram á endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurmafían

Merkilegt hvað kaupmönnum er umhugað um að troða í mann sykri. Gjarnan er sælgæti og sykurkex á tilboði í matvöruverslunum (og svo lækkuðu þessar vörur meira en aðrar á dögunum) og þótt maður komist óbrenglaður fram hjá hraukuðum hillum vandast málið þegar að afgreiðslukassanum kemur. Þar er búið að hrúga sætindum allt í kringum kassann þannig að nánast ómögulegt er að greiða fyrir matvöruna án þess að súkkulaðistykki fljóti með eða brjóstsykurspoki hreinlega detti niður á færibandið hjá manni. Sælgætissalar kaupa sér auðvitað hillupláss í verslunum til að egna fyrir fólki (koma vöru sinni á framfæri, gera hana sýnilega, eins og það heitir sjálfsagt) enda markmiðið að sýna sem mesta söluaukningu. Þannig hafa gosdrykkjaframleiðendur t.d. blekkt okkur til þess að kaupa ávallt meira gos en við þurfum á að halda því mun hagstæðara er að kaupa 2 lítra en hálfan lítra, miðað við lítraverð. Mér segir svo hugur um að vínsalar muni beita svipuðum aðferðum þegar þeir fá loks inni hjá kaupmanninum. Ég hvet alla til að hætta að taka þátt í þessari vitleysu. Þegar mig langar í kók með laugardagsnamminu kaupi ég litla kók í gleri. Það er alveg nóg - og auk þess miklu betra.


Skál í boðinu!

Kæru gestir, við skulum skála fyrir brúðhjónunum, hinum 19 ára gamla brúðguma og 18 ára brúði hans. Þau mega reyndar ekki skála í kampavíni með okkur því samkvæmt lögum má ekki selja, afhenda eða veita ungmennum undir 20 ára áfengi. Brúðguminn hefur valið að skála í sykurlausum kóladrykk en brúðurin er með gulrótarsafa. Skál!

Þessi ímyndaða uppákoma er gjarnan notuð sem rök fyrir því að lækka áfengiskaupaaldur hér á landi úr 20 árum í 18. Ég hef verið nokkuð fylgjandi slíkri lækkun, með öðrum rökum þó. Allir vita að 20 ára markið heldur ekki. Margir komast í ríkið fyrir tvítugt, 18 ára og jafnvel yngri fara inn á suma skemmtistaði og kaupa sér athugasemdalaust áfengi á barnum, foreldrar samþykkja langflestir áfengisneyslu 18 ára ungmenna og þannig mætti áfram telja. Þegar yfirvöld dómsmála, lögreglan, foreldrar og almenningur gefur skít í lög þá hljóta þau að vera gagnslaus. Mér fannst því freistandi að kaupa þau rök að betra væri að hafa reglur sem sátt ríkti um og að samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs yrði farið í þjóðarátak gegn barna- og unglingadrykkju og að Íslendingar myndu sameinast um að standa við 18 ára markið.

Edrú til 18. Þetta hefur verið undirliggjandi kjörorð hjá mér, bæði sem foreldri og forvarnafulltrúa. Að komast vímulaus gegnum viðkvæmt félagsmótunarskeið og leyfa heilanum að ná meiri þroska er afar mikilvægt upp á velferð og framtíð einstaklingsins. Já, 18 er ágæt tala. Bílprófið í höfn, sjálfræðið, gifting möguleg; viðkomandi er fullorðinn og barnaskapur að banna honum að meðhöndla áfengi. Eða hvað? Undanfarið hafa verið að renna á mig tvær grímur. Þessari þjóð er nefnilega ekki treystandi.

Ég treysti Íslendingum ekki til þess að leggja aukna rækt við forvarnir samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs. Þessi lög verða sett í nafni frelsis með undirliggjandi gróðahyggju. Afskiptaleysi foreldra mun ekkert minnka. Mörkin færast neðar og auðveldara verður fyrir 14-15 ára krakka að redda sér búsi því þeir þekkja 18 ára ungmenni, líkt og nú þegar 16-17 ára krakkar fá tvítugt fólk til að fara í ríkið fyrir sig. Reynslan frá ýmsum ríkjum Bandaríkjanna er á þessa lund. Neyslan mun aukast, 18-20 ára ungmenni verða virkari neytendur en ella og neyslan mun einnig færast neðar. Æska okkar má ekki við frekari skakkaföllum. Unglingur af tættri tölvuleikjakynslóð plús áfengi er ávísun á geðraskanir, önnur vímuefni, afbrot og óhamingju.

Nei, ég get því miður ekki treyst þessari þjóð. Þar af leiðandi gæti ég heldur ekki greitt því atkvæði að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum því þar snýst allt um markaðshyggju. Gott hillupláss, tilboð, flöskur í hrönnum við kassann; allt til þess að ná hinni eftirsóttu söluaukningu. Sumir kaupmenn myndu kinnroðalaust hækka verðið á einhverjum nauðsynjavörum, sem fólk kaupir hvort eð er alltaf, til þess að lækka verðið á bjórkippunni í grimmilegri samkeppni við aðra kaupmenn.

Já, ég er að snúast. Ég held að lækkun áfengiskaupaaldurs hafi ekkert með raunverulegt frelsi að gera, hvað þá skynsemi. Þetta er frekar einskær markaðshyggja í bland við eftirlátssemi og uppgjöf. Það mun taka einhverja mannsaldra gegnum félagslegar og jafnvel genetískar breytingar að bæta drykkjusiði Íslendinga. Allt tal um að lækkun áfengiskaupaaldurs, verðlækkun og afnám ríkiseinkasölu muni skapa hér andrúmsloft suðrænnar menningarþjóðar er marklaus fagurgali. Vissulega væri þægilegt fyrir 18 ára sælkera að geta keypt sér ódýrt og gott rauðvín í Bónus um leið og læri á tilboðsverði en staðreyndin er sú að ákaflega fá ungmenni drekka léttvín og enn drekka flestir til að verða fullir.

Tillaga mín er sú að í stað þess að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum í 18 þá skulum við hækka giftingaraldur úr 18 árum í 20. Þá geta blessuð brúðhjónin skálað kinnroðalaust í kampavíni. Að auki er fólk löngu hætt að gifta sig svona ungt þannig að rökin hér í byrjun eru hjóm eitt.


Hverjir mega pissa bak við hurð?

Í ágætu dægurlagi segir að það megi hvorki pissa bak við hurð né henda ketti ofan í skurð. En er þetta algilt? Mig grunar að sumir komist upp með slíkt athæfi við vissar aðstæður og jafnvel að yfirvöld horfi í gegnum fingur sér þegar svo ber undir, enda eru þetta bara reglur úr dægurlagatexta en ekki lög samþykkt á Alþingi. Svo virðist það líka vera eðli laga og reglna að hljóta mismunandi vægi og túlkun og stundum er nóg að telja einhver lög vera lítt gáfuleg til að leyfa sér að brjóta þau.

Útvarpið hafði samband við mig út af bloggi mínu um meint aðgerðarleysi sýslumannsembættisins hér á Akureyri í málefnum öldurhúsa sem glenna sig upp á gátt fyrir villuráfandi unglingum og dæla í þá áfengi og það jafnvel ókeypis. Þarna er verið að brjóta ýmis lög, sem af einhverjum ástæðum virðast ekki þykja nógu fín til að framfylgja. Jú, lögreglan hefur vissulega skilað skýrslum og athugasemdum til sýslumanns og það býsna mörgum í sambandi við nokkur öldurhús. En hvað svo? ZZZ

Sem almennum borgara og uppalanda þætti mér hentugt að fá að vita hvaða lög eru marklaus, hvaða lög eru hlægileg og hvaða lög er nánast skylda að brjóta. Ég veit að það má sekta mig um tugi þúsunda fyrir að missa bílinn á 50-60 km hraða niður Eyrarlandsveg þar sem hámarkshraðinn er 30. Ég reyni að fara eftir umferðarlögum en mörgum finnst það ástæðulaust. Sumir telja það jafn eftirsóknarverða íþrótt að brjóta umferðarlögin eins og að svíkja undan skatti. Nú, ekki má ég stela úr verslunum heldur mega þær bara stela af mér, ekki er löglegt að berja leiðinlega menn og sennilega er illa séð að afhausa kött nágrannans.

Ég hef hins vegar á tilfinningunni að í eftirtöldum tilvikum sé það undir hælinn lagt hvort nokkuð sé gert með brot á lögum og reglum: Að hleypa ungmennum undir 18 ára inn á vínveitingastað, að selja ungmenni undir 20 ára áfengi, að hafa undir höndum fölsuð skilríki, að vera ölvaður á almannafæri, að vera með lítilræði af hassi á sér, að raska næturró í fjölbýlishúsi og yfirhöfuð að haga sér eins og íslensk ungmenni hafa gert undanfarna áratugi.

Þarna grunar mig að merg málsins sé að finna. Ráðamenn hafa sjálfir alist upp við hið íslenska stjórnleysi, taumleysi og agaleysi. Það var manndómsmerki að detta í það eftir fermingu og auðvitað frábært ef maður komst í Ríkið eða Sjallann 16 ára. Götufyllerí 14-16 ára barna voru ekki óalgeng og hvað með það þótt einhverjir menntskælingar væru að fikta við hassreykingar? Já, þeir sem komust nokkuð klakklaust í gegnum þetta fara nú með völd í þjóðfélaginu og sjá ekkert athugavert þótt næstu kynslóðir gangi í gegnum það sama. Ég er bara ekki alveg sammála þessu viðhorfi því það sem mín kynslóð iðkaði á unglingsárum var bara alls ekkert sniðugt á köflum eða til eftirbreytni. Nær væri að Íslendingar lærðu af reynslunni og þroskuðust og reyndu að líkjast meira suðrænum menningarþjóðum eða að minnsta kosti að tileinka sér meiri aga og skynsemi.

Ég hélt að lög og reglur væru ákveðin agastjórnunartæki en verð sennilega að endurskoða afstöðu mína. Í þeirri stöðugu lífsleikni, forvarnafræðslu og umræðu um siðerðileg álitamál sem fléttast inn í alla kennslu væri gott að fá skýrari línur frá yfirvöldum um það hverjir mega pissa bak við hurð og hvenær því það er aldrei að vita hvenær manni verður mál.

- Tekið af hinu blogginu mínu http://ss.hexia.net í tilraunaskyni - 


Er ég fluttur?

Hola! Me llamo Esteban. Yo soy bloggari. Reyndar veit ég ekki alveg hvað ég er að gera hér í hinum sjálfhverfa heimi Moggabloggsins því ég hef verið á http://ss.hexia.net undanfarin tvö ár rúm og gengið í gegnum súrt og sætt með Hexíu blessaðri. Þó er hugsanlegt að ég skipti en það verður þá á eigin forsendum, ekki til að blogga um fréttir Moggans og hlaða hér inn Moggavinum. Ekki misskilja mig samt, ég elska Moggann og hef unnið hjá honum í lausamennsku og íþróttafréttaritari alveg frá haustinu 1994. Reyndar hefur verið fátt um fína drætti að undanförnu enda engar almennilegar íþróttir í gangi hérna norðan heiða.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband