Víðsýni og samstaða

Mikið er nú alltaf traustvekjandi að lesa Moggann, heyra glefsur úr skoðanakönnunum, renna yfir vefmiðla og fá þannig innlit í þjóðarsálina. Ég hafði verið sleginn þeirri blindu að þjóðin vildi gefa þeim mönnum og flokkum frí sem hefðu verið í forsvari í hruninu mikla. Jafnvel setja flokkapólítík í salt. Talað var um aukið siðferði, nýja hugsun, önnur gildi, meiri samstöðu, endurmat á lýðræðinu og annað í þeim dúr en auðvitað var það bara stundarbrjálæði. Í þessum hamagangi fór fylgi einkavina- og frjálshyggjuflokksins aðeins niður í 20-25% en er til allrar hamingju komið aftur yfir 30%.

Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega fórnarlamb aðstæðna og alls ekki gerandi í því að framfylgja eftirlitslausum kapítalisma eða ábyrgur fyrir stöðu þjóðarinnar í dag. Hann hefur nánast ekkert verið við völd undanfarin ár - eða hvað? Samfylkingin var vond við hann og svo voru ytri aðstæður óheppilegar. Þjóðin skilur þetta og vitaskuld mun þriðjungur, ef ekki helmingur, landsmanna fylkja sér um flokk sem heitir svona fallegu nafni og hefur ávallt átt svo föðurlega foringja. Íslendingar eru skynsamir og láta ekki vinstri-eitthvað eða félagshyggju-eitthvað blekkja sig enda vill hver sinn hag sem mestan og bestan.

Hlutlaus blaðamennska, persónuleg bloggskrif, hatur á einstaka mönnum eða hópum, sleggjudómar og þröngir flokkshagsmunir munu að sjálfsögðu ekki blandast neitt í skrifum manna, sérstaklega ekki í Mogganum. Þar hefur frá upphafi verið tekið fagnandi í þá fórnarlund Flokksins að draga sig í hlé um stundarsakir til þess að sýna þjóðinni hvað allir hinir flokkarnir eru dæmalaust miklir kjánar og alveg foringjalausir. Víðsýnum og jákvæðum fyrirsögnum og pistlum hefur verið dembt yfir þjóðina og enginn hefur reynt að kenna öðrum um eitt eða neitt eða dregið umræðuna niður á plan bókstafstrúar, sérhyggju og eiginhagsmuna. Það er af og frá að reynt hafi verið að ýta undir ágreining eða niðurbrot af öðru tagi.

Til allrar hamingju ætla ráðamenn og þjóðin öll að standa saman, bera klæði á vopnin og vinna sig út úr vandanum. Landið er auðugt og tækifærin mýmörg. Við stöndum frammi fyrir tímabundnum vanda en með víðsýni og samstöðu tekst okkur að rétta úr kútnum. Þjóðin hefur þroskast og fer ekki að láta flokkapólitík eyðileggja uppbyggingarstarf. Svo eru þetta bara örfáir mánuðir - síðan getum við kosið Flokkinn okkar aftur og skriðið heim í öryggið og hlýjuna. Já, höldum nú áfram að svífa á vængjum umburðarlyndis og víðsýni, samstöðu og náungakærleiks. Sýnum alheiminum hvað við höfum lært mikið og þroskast. Áfram Ísland!


Ung, gröð og rík

Ung, gröð og rík. Ég veit ekki af hverju þessi dægurlagatexti rifjaðist upp fyrir mér. Kannski þegar ég sá enn eina auglýsinguna frá ónefndum tölvuskóla á næstöftustu síðu Fréttablaðsins í gær. Þar er æsku- og útlitsdýrkunin sannarlega í öndvegi. Sextán einstaklingar glenna sig þvert yfir efsta hluta heilsíðunnar. Þeir virðast eiga það sammerkt að vera í kringum tvítugt, fjallmyndarlegt fólk af báðum kynjum, 170-185 sentimetrar á hæð og allir eru þessir einstaklingar í kjörþyngd eða rétt undir henni. Það er engu líkara en rjóminn úr víðfrægum, erlendum stúlkna- og drengjahljómsveitum sé þarna gleiðbrosandi samankominn enda skín víða í bert hold og sexý sveigjur.

Nú veit ég ekki hvort þessir nemendur eiga að vera að hefja nám eða ljúka námi við skólann. Í fyrra tilvikinu gætu skilaboðin verið þau að aðeins ungt og fallegt fólk í kjörþyngd fái inngöngu í skólann en í seinna tilvikinu er málið flóknara. Er hugsanlegt að með því að ganga í þennan skóla verði allir grannir og myndarlegir? Er þetta svona fyrir-eftir dæmi? Kannski hófu sumir nám sem bólugrafnar fitubollur en útskrifast með fyrirsætuútlit. Eða heltast hinir ómyndarlegu úr lestinni vegna þess að aðeins fólk af viðurkenndum fegurðarstaðli er fært um að komast í gegnum krefjandi tölvunám?

Bitur? Nei, nei. Þótt ég sé hvorki ungur né myndarlegur þá er þetta ekkert persónulegt. Mér finnst auglýsingin bara argasta tímaskekkja og skilaboðin röng. Lengi vel hefur ekki verið hægt að auglýsa bíla, ferðalög, mat eða nokkurn skapaðan hlut án þess að flagga ungu og myndarlegu fólki, helst fáklæddu kvenfólki. Ég hélt að neytendur væru löngu búnir að sjá í gegnum svona skrum og æsku- og útlitsdýrkun væri á undanhaldi, nú þegar rík þörf er fyrir skynsemi og gagnrýna hugsun, borgaravitund og samstöðu.

Í ljósi þessa finnst mér það falleg tilhugsun að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra þjóðarinnar.

Þá vona ég svo sannarlega að pólitískur rétttrúnaður, sem mér finnst jafn vondur og bókstafstrú og ámóta öfgar, spilli ekki björgunaraðgerðum stjórnvalda. Menn verða að hafa þroska til að hverfa frá svarthvíta veruleikanum og leika saman á litróf samfélagsins. Sættast við þjóðina og fylkja henni á bak við sig. Ekki ásaka, spilla, baktala, öfunda, svekkja sig og einblína á þrönga flokkshagsmuni.

En gott og vel, ég ætla ekki að fjasa um pólitík frekar en fyrri daginn. Í sambandi við aldurinn get ég hins vegar sagt, án nokkurrar beiskju þó, að það kom mér á óvart að uppgötva að í vinnuhópi sem skipaður var um nýjan og betri skóla er ég aldursforsetinn. Já, gamla brýnið, refurinn, reynsluboltinn, afi gamli. Jahérna. Mér finnst svo stutt síðan ég var einn af ungu kennurunum í skólanum en sjálfsagt er liðinn áratugur eða meira síðan það var. Ég er fyllilega sáttur við þetta en varð bara dálítið hissa. Alltaf gaman þegar eitthvað kemur manni þægilega á óvart.


Mjöðr ok slátr

Sjálfstæðið, þjóðtungan, samskipti kynjanna, hófsemi, sanngirni, frelsi og fleira hefur mér oft verið hugleikið. Ég rakst á smáleikrit sem ég samdi fyrir átta árum og fjallar það um pör á fjórum mismunandi skeiðum Íslandssögunnar. Það væri gaman að bera saman málfarið hjá þeim sem ég kalla nútímaparið 2001 og málfarið í dag. Kannski er nútímamálið gjörbreytt. Ég skoða það við tækifæri.

Þetta örleikrit er að finna á eftirfarandi slóð http://old.ma.is/kenn/stefan/leikrit2.htm en hér kemur smá bútur með samtali elsta parsins. Mér finnst upplagt að birta þetta á bóndadegi. Say no more. Gefum Hræreki og Járngerði orðið:

Hrærekur (hvass): Hvárt ertu ær orðin ok örvita, Járngerður Örgumleiðadóttir? Ek em maðr hungraðr ok þorstlátr. Í Óðins nafni, ek vil snimmhendis fá mjöð ok slátr.

Járngerður (auðmjúk): Hrærekur minn góðr. Slátrið er uppetið ok mjöðr sá es í keri folginn vas hefr ok drukkinn verit.

Hrærekur (vígalegur): Heiti ek á Þór til hefnda. Hjer hefr oss enum göruga drukk ok slátri öllu stolið verit. Hvar es vargur sá es þetta hefr gjört? Skal ek hann sundr slíta.

Járngerður (vandræðaleg): Sjáumk öngvan varg í húsum várum en hitt veit ek at húsbóndi minn góðr drakk upp allan mjöðinn undr aftan í gær. Hina sömu leið fór allr matr ok heiti ek nú á Freyju at fylla hér aska og ker öll.

Hrærekur: Kerling! Segir þú at sökin sé mín? Ert þú hið mesta forað og mun ek eigi vilja deila rekkju meðr þér lengr - nema í mjök bráðu hallæri.

Járngerður (snúðugt): Far þú þá til frillu þinnar svá sem þú ert vanr en svá segir mér hugr at hún taki þér eigi örmum mjök opnum.

Hrærekur (snýr sér að salnum og fórnar höndum): Harabanar! Svá sýnisk mér at í óefni sé komit ok sannask at köld eru kvenna ráð. Allnóg mun af kvinnum hjer í heimi ok nefni ek Frey til vættis.


Litið út um ljóra

p1160006.jpg Ég leit út um stofugluggann síðastliðinn föstudagsmorgun og aldrei þessu vant var ég með myndavél í grennd við hægra augað og ýtti því á þar til gerðan takka. Útkomuna má kalla síðbúna jólamynd en það fór heldur lítið fyrir jólasnjónum eins og flestir vita. Nú er hins vegar norðlenskur vetur eins og hann gerist bestur og snjórinn fegrar allt og lýsir upp umhverfið. Meira að segja aspirnar í nágrenninu voru næstum fallegar svona hrímhvítar.

Yfirleitt er ég mótfallinn öspum í íbúðahverfum og get haft allt á hornum mér út af þessum reisulegu trjám. Þetta gildir ekki síst síðsumars þegar skrímslin skyggja mjög á sólina og á haustin þegar maður þarf að raka laufin. Sú ösp sem stendur næst minni lóð er rétt sunnan lóðarmarka og að sjálfsögðu fjúka öll laufin inn í garðinn hjá mér. Laufin falla víst aðallega í sunnan átt.

Við Akureyringar búum svo vel að geta á fimm mínútum skroppið upp í Hlíðarfjall og skellt okkur á skíði. Nægur er snjórinn. Drengurinn skemmti sér vel á bretti á laugardaginn. Helgina áður fórum við feðgar en þá var slæmt skyggni ég vissi aldrei hvort ég var að koma eða fara eða renna upp eða niður. Endaði þetta með tveimur byltum eða svo, sem er frekar sjaldgæft í seinni tíð eftir að maður hætti að mestu að eltast við hengjur og fara í loftköstum. Heljarstökk aftur fyrir mig hef ég t.a.m. ekki tekið viljandi í mörg herrans ár.

Þorrinn nálgast og allt lítur þetta vel út. Ég er að sjálfsögðu búinn að þjófstarta og hef verið að stelast í súrmetið. Eftirrétturinn í kvöld var hápunkturinn til þessa. Þá bauð ég upp á hræring með súru slátri og betri mat hef ég ekki fengið á þessu ári. Yfirleitt hef ég setið einn að kræsingunum en sonur minn lét slag standa og fékk sér slettu og var bara hrifinn. Hólmgeir heitinn langafi hefði aldeilis verið ánægður með drenginn en þennan ágæta spónamat borðaði ég oft með honum þegar ég var pjakkur. Það er varla til hollari matur en svona hræringur úr köldum hafragraut og skyri og ætti að markaðssetja þetta sem prótínbombu. Og ekki er slátrið heldur neitt slor, svona líka gallsúrt og mátulega hvítt af mör. Já, það eru sæludagar framundan í mat þótt reyndar hafi verið nóg af kræsingum í skólanum núna í próftíðinni en það hafa aðallega verið saumaklúbbstertur og annað sætmeti sem telst varla hollt til lengdar.

En mikið vorkenni ég ættingjum og vinum erlendis. Varla er mikið um súrt slátur hjá bróður mínum í Danmörku eða móðursystur minni í Svíþjóð eða Brynju og fjölskyldu. Og hvað með matargatið Arnar Má á Spáni? Nei, ekki vildi ég búa erlendis á þorranum.


Lottó lífsafkomunnar

Félagi minn keypti bíl fyrir rúmu ári og tók lán upp á 2 milljónir. Afborganir voru viðráðanlegar í heimilisbókhaldinu og svo sem ekkert bogið við þetta ferli sem fjölmargir landsmenn tóku þátt í. Nú stendur lánið hins vegar í 3,7 milljónum og síhækkandi afborganir fara í það að greiða... tja, út í tómið. Félaginn er ekki beinlínis að greiða af bílnum enda er virði hans mun nær upphaflegri lánsfjárhæð en núverandi stöðu og raunar botna ég ekki alveg í því hvert peningarnir renna eða hvers vegna dæmið lítur svona skuggalega út en mér skilst að þetta heiti myntkörfulán.

Sjálfur tók ég svipað bílalán fyrir rúmur tveimur árum en það hefur þó lækkað örlítið enda venjulegt lán í íslenskum krónum. Afborganir hafa á hinn bóginn hækkað grimmt og greiði ég nú talsvert meira af farartækinu í mánuði hverjum en af húsnæðisláninu. Nógu þykir manni það blóðugt en hitt er ótrúlegt að það skuli vera einhvers konar happdrætti eða lottó lífsafkomunnar að fjármagna jafn hversdagslegan hlut og venjulegan fjölskyldubíl. Ég hef reyndar aldrei skilið þessi æðri fjármál.

Það er ekki eins og maður hafi sífellt verið að spenna bogann í bílakaupum og ekið um á drossíum. Þetta var í annað sinn á ævinni sem ég keypti nýjan bíl. Hið fyrra var haustið 1986 þegar ég keypti rauða Lödu, glænýja úr kassanum með láni frá Alþýðubankanum. Það var sannkölluð gleðistund í lífi fjölskyldunnar og mér fannst Ladan fegurst fararskjóta á gjörvallri Akureyri. Mig minnir að hún hafi kostað 197 þúsund krónur og 9 árum síðar seldi ég hana fyrir 50 þúsund kall og tvo lambskrokka. Var þá búinn að eiga hana skuldlaust í mörg herrans ár.

Reynslan af notuðum bílum næstu ár var misjöfn og eftir að hafa lent í ærnum viðgerðarkostnaði var ráðist í kaup á nýjum og traustum fólksbíl síðsumars 2006 og það er vissulega gott að aka um á bilanafríum bíl og ég er ánægður með gripinn. Mér finnst samt út í hött hve stór hluti af tekjum fjölskyldunnar fer í það að greiða af bílaláninu og reka blessaðan bílinn.

Íslendingar eru náttúrulega heimsmeistarar í bílasukki eins og annarri óráðsíu og magn bíla og tegundafjöldi með eindæmum í þessu litla landi. Ég viðraði þá skoðun fyrir mörgum árum að við ættum að setja okkur mörk en á slíkt mátti ekki minnast í allri frelsisumræðunni. Þá var ég að tala um að nóg væri fyrir Íslendinga að vera með umboð fyrir Toyota, Subaru, Ford, Volkswagen og Benz (eða Volvo) og kannski eina ódýrari tegund á borð við Hyundai. Þar með fengju allir eitthvað við sitt hæfi í fólksbílum og jeppum og stórfé sparaðist við magnkaup og afmarkaðri varahlutalager. Þeir sem endilega vildu aka um á svörtum BMW eða silfurgráum Range Rover eða öllum hinum tegundum gæti flutt slíka bíla inn sjálfir. Jafnframt vildi ég efla almenningssamgöngur en þær þóttu hallærislegar og helst fyrir börn og gamalmenni.

Sennilega er viðhorfið að breytast núna og æ fleiri ganga, hjóla eða taka strætó. Fleiri bílar eru fluttir út en inn og það er sannarlega tímabært að losa okkur við eitthvað af þessum umframbílum og spara stórfé þegar fram í sækir. Eflaust lærum við eitthvað af þessari lexíu allri en eftir standa þó bílalánin og hjá mörgum er þetta hið mesta ólán.


Sjitt, maður

Tæma kúkableiur og leggja þær í bleyti. Þvo kúka- og pissubleiur. Líka ælubleiur. Hengja upp hreinar og blautar bleiur. Taka niður þurrar bleiur. Strauja bleiur. Brjóta saman bleiur. Ganga frá bleium. Þess á milli að skipta um bleiu á barninu. Og bleiuplast. Blessaðar taubleiurnar. Er virkilega svona langt síðan? Þá skrifaði maður líka bleyjur með ufsiloni og joði en það er svo annað mál. Íslenskt mál.

Nú þegar dóttir mín er sjálf búin að eignast dóttur hvarflar hugurinn ósjálfrátt aldarfjórðung aftur í tímann. Stórt orð, aldarfjórðungur. Segjum frekar 25 ár. Eða ríflega tuttugu ár. Hljómar betur. Mér finnst að minnsta kosti ekkert svo langt síðan ég var í þessum sporum í kjallaraholunni í Norðurmýrinni. Liðlega tvítugur verkamaður í byggingavinnu og væntanlegur íslenskunemi við HÍ. Unnustan á síðasta ári í Fósturskólanum. Lítil stúlka komin í heiminn snjóþyngsta vetur í manna minnum í höfuðborginni.

Fæðingarorlofið var samtals 3 mánuðir og nú var tekin upp sú nýlunda að faðirinn mátti taka einn mánuð af því. Ég nýtti mér það, mínum ágæta vinnuveitanda til mikillar furðu. Aldeilis breyttir tímar. Þessi mánuður var dýrmætur og gaf mér mikla innsýn í meðferð á taubleium. Vissulega voru komnar til sögunnar einnota bleiur en þær voru býsna dýrar og auk þess höfðum við ákveðið að halda í þetta gamla og góða. Ég gjörðist býsna lipur með straujárnið og hef varla sleppt því síðan. En stúlkan þurfti líka sína næringu og þá var brunað með hana í Fósturskólann til að móðirin gæti gefið brjóst. Allt þetta þætti sennilega talsvert umstang í dag.

Ekki minnist ég þess að talað hafi verið um kreppu 1983 eða næstu árin en mikið óskaplega var maður nú fátækur þarna og frumstæðir búskaparhættirnir. Um nokkurt skeið fórum við á milli húsa með þvottabala og heimasíma eignuðumst við ekki fyrstu árin. Lifur, slátur og kjötfars í matinn og fiskur þrisvar í viku eða oftar enda var hann frekar ódýr þá. Stundum sauð maður súpu eða graut úr nánast engu. Ég man eftir kindahálsbitum sem sunnudagssteik. Oft var skrapað saman tómum flöskum eða sparibaukar brotnir upp til að geta keypt mat. Við vorum í reikningi hjá kaupmanninum á horninu og erfitt var að standa í skilum. Stundum fékk ég fyrirframgreiðslu í vinnunni þegar við sáum fram á að svelta. Svo þegar ég byrjaði ég Háskólanum reyndi ég að vinna með námi, bæði í byggingavinnu og síðan við ræstingar á leikskóla. Það skerti svo námslánin sem voru þó hálfgerð hungurlús. Allt var nýtt og maður stagaði í sokkana og rimpaði saman rifnum buxum. Einhvern veginn blessaðist þetta fjögur mögur Reykjavíkurár og þótt skömm sé frá að segja fannst mér ég hættast kominn í einhverju verkfallinu á þessum árum þegar tóbak fékkst ekki lengur í búðum!

Þær eru svo sem gæfulegri aðstæðurnar sem blasa við dótturdóttur minni í Reykjavík í dag og ætti ekki að væsa um hana. Það er samt langt frá því að vera einfalt mál að lifa á námslánum í dýrtíðinni og reyna að stunda námið. Kröfur eru líka allt aðrar og meiri en í þá daga og gjörbreytt lífsgildi sem fólk hefur tamið sér. Grunnþarfirnar kosta sitt og eins og svo oft áður hér á landi kreppir helst að þeim sem litla tekjumöguleika hafa. En jæja, það hefur margt breyst til hins betra og nú þarf ekki lengur að þvo og strauja kúkableiur.

 


Gull

Ég er soddan gikkur að ég tími ekki að kaupa úlpu á 55 þúsund, gallabuxur á 23 þúsund eða skó á 21 þúsund. Sonur minn var á sama máli. Að vísu var 30% afsláttur af úlpunni og ég hefði því grætt heilan helling á því að kaupa gripinn. Við vorum eiginlega að leita að einhverju á drenginn í Kringlunni því hann hafði fengið fatapening í jólagjöf. Frúnni tókst betur upp en okkur feðgum en við fundum síðan ágætis skó á drenginn fyrir norðan á skikkanlegu verði.

Eflaust mætti rita argvítuga háðsádeilu um það sem fram fór þarna í Kringlunni í upphafi árs og nógu mikið fussaði ég og sveiaði yfir þessum tískuklæddu konum og stelputrippum sem æddu á milli verslana með sífellt fleiri poka af fötum sem þær höfðu enga sérstaka þörf fyrir. En síðan fór ég að hugsa um þjóðarhag. Við lifum jú hvert á öðru og þessi gullgröftur í Kringlunni er eflaust nauðsynlegur fyrir hagkerfið þannig að ég tek bara ofan fyrir þeim ágætu konum sem láta þessi blessuðu hjól efnahagslífsins snúast.

Ég lauk við skáldsöguna Gull eftir Einar H. Kvaran og varð fyrir dálitlum vonbrigðum með það hvernig hún þróaðist. Raunsæisleg ádeilan leystist að mestu upp í andlega þanka, sem ku endurspegla þróun höfundarins. Ég get þó tekið undir eftirfarandi orð, sem túlka má sem niðurstöðu:

- Og þau fundu bæði, að í sól sálarfriðarins verður allt að gulli - líka reykjarsvæla mannlífsins... Og að alt annað gull er mannsálinni fánýtt til frambúðar. - (bls. 257)

Þetta afturhvarf frá íslenskum krimmum og öðrum jólabókunum til gamalla raunsæissagna í bókaskápnum heima spratt eiginlega af bókaþurrð. Nú er ég hins vegar að lesa Afleggjarann eftir Auði A. Ólafsdóttur og líst alveg ljómandi vel á. Virkilega heillandi stíll.

Annars stendur yfir próftíð í skólanum þannig að ég hef nóg að lesa en það er kærkomin hvíld frá misgóðum prófsvörum að smjatta á hnossgæti eða renna í gegnum spennandi reyfara. Þar má finna marga gullmola. Ég vil samt ekki gera lítið úr svörum nemenda minna. Það leynast líka mörg gullkornin!

 


Ofurefli

Slúður hefur lengi verið þjóðaríþrótt hér á landi, ekki síst meðal kvenna, og lýsti Gestur Pálsson þessum fjára meistaralega í fyrirlestrinum Lífinu í Reykjavík. Sjálf Gróa á Leiti fæddist í fyrstu alvöru íslensku skáldsögunni, Pilti og stúlku, og hefur kerlingin sú lifað góðu lífi í meira en eina og hálfa öld. Gömlu raunsæiskarlarnir deildu mikið á slúðurbera og ég var einmitt að enda við skáldsöguna Ofurefli eftir Einar H. Kvaran en hún kom út árið 1908. Þar smýgur slúðrið með regninu inn í hvert hús í Reykjavík og blásaklaus dómkirkjuprestur missir hempuna. Hann má ekki við ofurefli almannaróms.

Almannarómurinn hefur náð nýjum hæðum í netheimum og þar er auðvelt að týna ærunni og sæta einelti og útskúfun. Sjálfsagt mun umræðan verða gáfulegri þegar fésbækur og bloggsíður hafa dafnað dálítið og höfundar og lesendur þroskast eitthvað. Sjálfur hef ég bloggað í ansi mörg ár á http://ss.hexia.net og um nýliðin áramót leit ég um öxl og aðgætti hvort ég hefði ausið skít yfir einhvern á árinu. Svo reyndist ekki vera. Mér leið betur á eftir.

Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna stjórnvöld, hestamenn, hundaeigendur, útrásarvíkinga, letingja, heimskingja og ýmsa aðra hópa eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Oftast hæðist ég frekar að breytni mannfólksins í stað þess að drulla yfir nafngreinda einstaklinga. Ég held ég megi segja að ég hafi ekki talað illa um nokkurn mann á blogginu mínu þótt einhvern tíma kunni ég að hafa nafngreint nokkra. Föstustu skotin eru yfirleitt á sjálfan mig og ýkjur og úrdráttur falla mér betur í geð en skammir, svívirðingar og nöldur. Fólk ætti að láta það eiga sig að blogga þegar heiftin skyggir á skynsemina og reyna frekar að fá útrás í lokaðri dagbók eða drífa sig í ræktina.

Nú er ég byrjaður á skáldsögu sem heitir Gull og er hún framhald Ofureflis, kom út 1911. Mér sýnist á öllu að ádeilan þar eigi ekki síður við í dag. Ríki kaupmaðurinn, sem gjarnan er skotspónninn í sögum raunsæismanna, fær veður af því að gull sé að finna í jörðu í Reykjavík og hann er hvattur til að tryggja sér sem flestar lóðir og húseignir á góðum kjörum áður en fréttirnar berast víðar. En almannarómur er fljótur að renna á hringlið í gullinu:

- Og innstreyminu fylgdi líka mikil atvinna. Smiðirnir höfðu ekki undan að koma upp húsum handa fólkinu. Viðskifti öll uxu svo, að undrum sætti. Og bankarnir sendu út frá sér skæðadrífu af seðlum og hlóðu hirzlur sínar fullar af alls konar skuldaviðurkenningum. - bls. 81

Þannig er því lýst þegar æðið hefst án þess að nokkurt gull hafi fundist. Hlutirnir eru kjaftaðir upp og höndlað er með skuldaviðurkenningar og gróðavonir sem byggja ekki á neinum áþreifanlegum verðmætum. Afskaplega hljómar þetta kunnuglega. Ég hlakka til að lesa áfram.

 


Með pípu og staf

Í einu vetfangi var mér kippt áratugi aftur í tímann en um leið eltist ég um mörg ár. Þessi þversögn er ekkert tengd því að ég skuli prófa moggabloggið á ný en vissulega gefur sú staðreynd tilefni til að efast um geðheilsu mína. Tímaflakk reynir líka ansi mikið á sálartetrið. Hugsanlega er ég einhver annar en ég er. Hver getur svo sem verið viss um að vera staddur á einum stað á ákveðnum tíma? Og hver þekkir sjálfan sig?

Nú, þetta gerðist allt saman á laugardaginn. Ég fann hvernig bak mitt bognaði, hnén gáfu eftir og allir liðir stirðnuðu. Ég dró fram gamlan staf til að geta staulast um. Mér óx grátt skegg og skyndilega var ég kominn í flókainniskó. Síðan var spurning hvort ég ætti reykja pípu eða taka í nefið. Ég valdi pípuna. Samt fannst mér nauðsynlegt að hafa vasaklút í brjóstvasanum á köflóttu skyrtunni. Þegar ég leitaði að Degi og Tímanum voru blöðin hvergi sjáanleg en ég kættist þegar ég sá að það voru svið í matinn og hræringur með súru slátri á eftir. Gott ef ég lumaði ekki á bolsíu í krukku uppi í skáp til að gefa litlu...

Já, ég breyttist sumsé í afa á laugardaginn og er það mér óskaplega hugleikið um þessar mundir og mætti jafnvel tala um hamskipti. Ég er auðvitað ekkert of ungur til að verða afi en samt er titillinn eitthvað svo bundinn gömlum minningum að ég hrekk ósjálfrátt í bakkgírinn.

Litla dótturdóttir mín er dúlla, bolla og krútt og spurning hvað maður á að kalla hana. Ég vona að fólk fari ekki að þvaðra um litlu prinsessuna því hún er ekki af kóngafólki komin og þetta er raunveruleiki en ekki ævintýri. Að sjálfsögðu verður spennandi þegar hún fær nafn. Ég er þegar kominn með þrjár uppástungur og eru það hljómfögur nöfn og stuðla við nafn föðurins.

Tillaga 1: Stella Blómkvist Styrmisdóttir. Rök: Stella Styrmis er töff nafn og ég gat ekki stillt mig um að hafa Blómkvist með.

Tillaga 2: Ívalda Storm Styrmisdóttir. Rök: Ívalda er nógu flott til að vera nútímalegt og Storm gæti verið tilbúið ættarnafn og stuðlar við Styrmi.

Tillaga 3: Stefanía Björg Styrmisdóttir. Rök: Hér þarf engin rök!

 


Saurinn burt!

Eins og ég hef áður sagt er ég hættur við að blogga hér með hálfri þjóðinni og held bara áfram á http://ss.hexia.net. Þar er nýjasta færslan svona: 

Fátt veit ég aumkunarverðara um þessar mundir en íslenska knattspyrnulandsliðið nema ef vera skyldu hross og áhangendur þeirra. Hvenær ætlar þjóðin að skilja að hross eru burðardýr og búfénaður og eiga að vera í sveitinni til slíks brúks en ekki sem gæludýr í þéttbýli? Mér finnst að þetta eigi að gilda um ferfætlinga almennt. Í þéttbýli eiga þessar skepnur ekki að sjást nema þá hlutaðar sundur og vakúmpakkaðar í kjörbúðum.

Lítum bara á ástandið hér á Akureyri. Þetta er fallegur bær, umhverfið kjörið til útivistar, veðurblíða oft allnokkur eins og síðustu daga. Þá er gaman að ganga um í útjaðri bæjarins. Kjarnaskógur, Gömlu brýrnar, Naustaborgir, svæðið í kringum golfvöllinn, Lögmannshlíð o.s.frv. Um daginn fór ég upp í Naustaborgir sem oftar og veðrið var dásamlegt. Því miður gat ég lítið notið útsýnis og umhverfis því ég þurfti stöðugt að stara niður á stíginn til að vaða ekki í hrossaskít. Í dag fór ég síðan upp fyrir golfvöllinn og þar var ég í stórhættu því trylltir hestar voru þar á flenniskeiði. Og alls staðar var skítur. Fleiri dæmi mætti nefna en í stuttu máli sagt þá eru nánast allar útivistarperlur Akureyringa undirlagðar af hestamönnum og úrgangi.

Félagi minn sagði mér frá því um daginn að hann væri hættur að fara í Hrísalund í hádeginu. Þar væri allt löðrandi í klepróttu og illa þefjandi hestaliði sem strunsaði þarna inn í heita matinn svo verslunin fylltist af ólykt. Hvað er eiginlega í gangi? Ég meina, þetta er fólk sem hefur náið samneyti við skítugar skepnur, við erum að tala um graddasvita, merarhland, saur, úrgang, flugur og ógeð. Hvernig vogar það sér að vaða inn í matvöruverslun með stækan hrossadauninn sem mengunarský í kringum sig?

Nú, ef maður sleppur við hross, eins og í Kjarnaskógi, þá er varla þverfótað fyrir glefsandi hundum og hundaskít. Sömuleiðis innanbæjar. Það er hending að mæta hundlausri manneskju á gangi eða hjóli. Og heima í görðunum skíta kettirnir sem aldregi fyrr, enda hefur þeim fjölgað óþyrmilega. Fyrr má nú sakna sveitarinnar og skepnuhalds en að flytja þetta í þéttbýlið. 

Æ, getum við ekki hreinsað Akureyri og nánasta umhverfi af þessum ósóma? Skepnur eiga heima í sveitinni með allan sinn úrgang, sem getur nýst þar sem áburður. Malbik og malarstígar eru ekki rétti vettvangurinn fyrir skít. Hættum að liggja flöt fyrir hestamönnum. Ég meina, er ekki búið að skipta um bæjarstjóra? Saurinn burt!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband