22.4.2009 | 13:40
Leikur
Ég geri mér ekki oft ferð til að góna á knattspyrnu í áskriftarsjónvarpi en gerði það í gær og hitti á góðan leik í. Gaman að sjá Arshawin skora fjögur á móti Liverpool. Og skrambi er nú Torres alltaf góður. Það er mesti munur að sjá góðan sóknarbolta og helling af mörkum. Skítt með það hvað liðin heita.
Annars er högum mínum háttað þannig þessa dagana að ég leita mikið í afþreyingarefni. Núna var ég t.d. að horfa á Naked gun og hlæja eins og fífl þótt ég hafi séð myndina mörgum sinnum. Í morgun lauk ég við Land tækifæranna sem ég byrjaði á í gær. Ágætasti reyfari eftir Ævar Örn og hittir í mark. Það eina sem skemmdi fyrir var að ég sá alltaf fyrir mér lúðann með lóna í andlitinu þegar persónan Árni kom við sögu og því miður er hinn stæðilegi rumur, Guðni, orðinn að kettinum Kela fyrir augum mér. Hræðilegt að það skuli vera búið að færa þessar persónur yfir í sjónvarpsþætti. Það á að banna mönnum að taka ímyndunaraflið og innlifunina frá manni. Búið til ykkar eigin handrit að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Látið skáldsögurnar í friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2009 | 21:21
Ellibelgir á hrukkudýrasafni
Mér var bent á auglýsingu í dagskrársnepli. Einhverjir gamlingjar ætluðu að hittast í diskóstuði að kveldi föstudagsins langa á skemmtistað sem heitir víst Vélsmiðjan en gengur undir ýmsum nöfnum eins og Endurvinnslan, Hrukkudýrasafnið, Gránufélagið og Elliheimilið. Þangað hef ég sennilega aldrei komið en hef heyrt hinar ferlegustu sögur af því sem þarna fer fram enda nokkuð ljóst að áfengi og eldgamalt fólk á varla samleið - nema í algjöru hófi (sérrístaup á laugardögum eða koníakssjúss fyrir svefninn).
Sumum finnst voðalega sniðugt að hóa saman einhverjum árgangi og halda upp á... eitthvað. Stundum kallað reunion. Æ, mér fannst þetta frekar sveitt og hallærislegt og sá fyrir mér sparslaðar kerlingar í þreföldum aðhaldsbrókum skjögra um dansgólfið í ímyndaðri diskósveiflu meðan snarsköllóttir fituhjassar eða markeraðar beinagrindur með gráar hárlufsur hér og þar um líkamann slefuðu yfir barborðið og heimtuðu meiri bjór og viskí. Svo færu allir að tala um gömlu og góðu dagana, stríðsárin, skömmtunarseðla, frostavetur eða einhvern fjandann; jafnvel rifja upp hetjudáðir í samskiptum við hitt kynið meðan enn kraumaði eldur í þessum úrsérgengnu líkömum.
Ég gat ekki annað en glott út í annað þegar ég sá ósköpin fyrir mér og prísaði mig sælan yfir því að tilheyra ekki svona söfnuði. Síðan gleymdi ég þessu í nokkra daga eða allt þar til jafnaldra mín rakst á mig á förnum vegi og spurði mig hvers vegna ég hefði ekki mætt í Vélsmiðjuna á föstudaginn langa.
Ég? Ehemm. Já, þetta hafði víst verið minn árgangur að blása til gleðinnar. Aldrei hefur pína Krists verið mér hugstæðari en einmitt þarna þegar rann upp fyrir mér ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2009 | 13:27
Sæla í segulómun
Margir fara í líkamsrækt, aðrir í ljós, einhverjir í sund en ég hef sérstakt dálæti á því að fara í segulómun. Huggulegri vistarverur en þennan þrönga sívalning sem manni er troðið inn í er vart hægt að hugsa sér. Sérstaklega er þetta notalegt eftir að hafa horft á fjölda sakamálamynda þar sem sífellt er verið að loka fólk inni í farangursgeymslum bifreiða, grafa það lifandi eða renna líkum inn og út um þar til gerð hólf í líkgeymslunum.
Svo skemmtilega vildi til að mér gafst kostur á því að skreppa í segulómun um daginn. Í ljósi fenginnar reynslu ákvað ég að hafa með mér disk til að hlusta á svo ég gæti notið þessarar sælustundar sem best. Ég var lagður til á rennibekk, leggur settur í handleginn og skuggaefni dælt inn, hendur þétt á brjósti og stóru heyrnartólin, sem þrýsta á hálsslagæðarnar, greypt um höfuð mér. Til frekari þæginda var blautur klútur lagður yfir augu mér. Tónlistin fór í gang. Þetta var diskur með Strawbs og David vinur minn Cousins byrjaði að kyrja: The jailor binds his hands and puts á blindfold to his eyes... Æ, það var ekkert svo þægilegt að vera með klútinn þannig að ég afþakkaði hann áður en mér var rennt inn í þröngan hólkinn. Það væri líka synd að skemma útsýnið.
Hægt og bítandi seig ég inn í sívalninginn. Upphandleggirnir rákust utan í þannig að ég varð að gera mig enn mjórri. Stóru heyrnartólin sigu lengra niður á hálsinn og þægileg köfnunartilfinning fór um mig. Ég gat mig hvergi hrært. Er ég opnaði augun blasti ekkert við nema hólkurinn, tommu frá augum mér. Síðan byrjaði segullinn að snúast með ærandi hávaða og Cousins öskraði sig hásan í heyrnartólunum: Forgive me God, we hang him in thy name!
Þannig mallaði segullinn í hálftíma og ég efast um að nokkuð hefði þýtt að hrópa á hjálp, ef ég hefði skyndilega orðið ær. Stjórnandi tækisins hafði einfaldlega rennt mér inn, kveikt á græjunum og forðað sér út. Sennilega hafði hann bara skroppið í kaffi á meðan. Að minnsta kosti var enginn í herberginu. Reyndar minnir mig að tónlistin hafi einu sinni verið rofin og einhver kallað og spurt hvort allt væri í lagi. Auðvitað var allt í himnalagi. Fráleit spurning. Þægindin voru slík að maður var farinn að dotta þrátt fyrir hávaðann.
Að vísu þótti mér einkennilegt að hávaðinn minnkaði ekkert eftir að mér var loks rennt út úr sívalningnum. Þá varð mér ljóst að þetta var hjartað sem sló svona harkalega. Það hljóta að hafa verið einhver frumstæð og ósjálfráð viðbrögð því eins og ég segi er fátt unaðslegra en að slaka á í segulómun. Ég hvet alla til að prófa. Ég hef sjálfur aldrei farið í ljós en get ímyndað mér að þetta sé enn þægilegra. Reyndar örlítið dýrara, hálftíminn losar ellefu þúsund kallinn nettó. En maður er nýr og betri maður eftir á. Alveg segulmagnaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2009 | 13:34
Engin vandræði í Árbænum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2009 | 20:53
Allir eru að gera það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.3.2009 | 20:38
Was ist los?
Los?
Brjósk.
Sex nætur án svefns. Sex parkódínpirraðar vökur. Sex byltur í keng og kvölum.
Ekki það að ég sé með sex á heilanum.
6-6-6.
Djöfullinn!
Hvernig verður sú sjöunda?
Kannski heilög.
Jó!
Hann.
A.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2009 | 15:55
Í Ævintýralandi
Allir vildu fá að stjórna í Ævintýralandi, landi hinna glötuðu tækifæra þar sem frelsið og manndáðin voru mest og fiskurinn borinn fram í álpappír. Rauðgræni og Sammi krull fengu nú að prófa að stjórna saman eftir að Bláskeggur skipstjóri hafði verið leystur tímabundið frá störfum vegna rannsóknar á skipsskaða. Maddaman úr sveitinni gekk hins vegar í endurnýjun lífdaga, flutti á mölina og veitti Rauðgræna og Samma móralskan stuðning til góðra verka. Samt var hún dálítið tvístígandi, eiginlega opin í báða enda.
Nú var það að Rauðgræni fékk einróma stuðning frá sínu fólki til að halda áfram. Hann hafði ekki gert neitt af sér í Ævintýralandi og þurfti því ekki að biðjast fyrirgefningar enda hafði hann aldrei fengið að ráða neinu, bara verið messagutti á skipinu. Kannski eins gott því þá hefði tuttugu og fimm höfða skrímslið örugglega ekki fengið bankana á silfurfati og mergsogið þjóðina og helstu vini okkar erlendis. Þá værum við bara á einhverjum lygnum sjó og ekkert fjör í ævintýrinu en til að fá nýtt skip þarf auðvitað að sökkva hinu gamla eins og Bláskeggur vissi svo vel. Maður þarf að taka áhættu og komast á botninn til að geta spyrnt sér upp.
Já, Bláskeggur karlinn. Hann var eitthvað að biðjast afsökunar á því að hafa sökkt þjóðarskútu Ævintýralandsins en aðallega fannst mér hann þó vera fúll yfir því að hafa hlustað á Maddömuna. Sennilega var það Maddaman og lánagleði hennar sem sökkti skútunni; það fengu of margir að koma um borð og mistök Bláskeggs voru þau að halda ekki sínum kúrsi og láta Maddömuna róa. En það var eiginlega með Samma krull sem Bláskeggur maskaði skipið og ég heyrði Samma krull lýsa því um helgina að sennilega hefðu það verið mistök að stjórna með Bláskeggi og baðst Sammi afsökunar á því. Afsakanir Bláskeggs og Samma krull eru þannig í því fólgnar að benda á aðra, sem er hugsanlega gild aðferð til að iðrast. Svo má auðvitað geta þess að guð er í liði með Bláskeggi og munar um minna.
Rauðgræni og Bláskeggur vilja halda í fullveldi Ævintýralandsins en vilja samt leyfa þjóðinni að kjósa um samkrull með öðrum þjóðum ef því er að skipta. Sammi krull vill auðvitað samkrull og sennilega Maddaman líka, þessi endurnýjaða sko, og þó, það fer sennilega eftir því með hverjum hún kemst í stjórn. En Rauðgræni vill ekki stjórna með Bláskeggi og Sammi krull er frekar á móti því líka og vill frekar vera með Rauðgræna þótt Rauðgræni sé lítið fyrir samkrull og Maddaman verður að bíða við landganginn eins og vanalega, brosa til hægri og vinstri, og allir þessir litlu er ekkert með frekar en fyrri daginn, enda algjörar aukapersónur.
Við fáum svo auðvitað að ráða þessu öllu þegar þar að kemur. Fólkið fær að kjósa. Eða fær fólkið kannski ekki að kjósa um neitt nema Rauðgræna, Samma krull, Bláskegg og Maddömu? Jæja, þetta hlýtur þó að enda vel eins og alltaf í Ævintýralandi. Allir hafa iðrast, endurnýjast, breyst og batnað og hamingjan mun hellast yfir þjóðina - eina og sér eða í samkrulli með öðrum. Alvaldur blessi Ævintýraland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2009 | 14:57
Indíánagufa á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2009 | 11:47
Ratað í háska í Reykjavík
Alltaf sama sagan með þetta veður í Reykjavík. Litlu mátti muna að það yrði mér að fjörtjóni þegar vindhviða og brjálaður éljabakki steyptu sér yfir vélina í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli seinni partinn í gær og flugstjórinn varð að hætta við á síðustu stundu enda ekki alveg ljóst hvert vélin stefndi. Fyrr um daginn hafði verið ágætis veður, svo þegar ég gekk út á flugvöll var stórbrotin slydda sem gerði mig gegndrepa og síðan þessi ákafi éljagangur með ofsa og hviðum.
Best að taka saman í stuttu máli upplifun mína í vélinni. Kallað var út á réttum tíma en eitthvað þurfti að bíða eftir seinum farþega eins og stundum gerist. Síðan var hafist handa við afísingu vélarinnar og brottför dróst um tíu mínútur eða svo. Á brautarenda virtist sem flugstjórinn væri á báðum áttum. Hann gaf í og vélin hristist en fór ekki af stað. Dimm él voru úti. Ég leit glottandi á sessunaut minn og sagði að nú væri það tvísýnt og flugmaðurinn sæti sveittur við að reikna út lífslíkur okkar.
Skyndilega rauk vélin af stað. Vatnið frussaðist undan hjólunum og rétt áður en mesta hraða var náð reif vindhviða í vélina og svipti henni áþreifanlega til á blautri brautinni og flugstjórinn tók þá hárréttu ákvörðun að hemla og hætta við flugtak. Það var því bremsað með rykkjum og skrykkjum og öskrandi élin hristu allt og skóku. Ég leit á sessunaut minn og... hætti við að segja eitthvað sniðugt.
Allt gekk vel í annarri tilraun og flugið var fínt. Maður fékk svo yl í kaldan kroppinn þegar vélin steypti sér niður í Eyjafjörðinn og síðdegissólin tók brosandi á móti okkur og Akureyri að vanda fögur og kyrr sem aldregi fyrr. Heima er bezt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 21:51
Fótboltatrúin
Bókstafstrúin birtist víða og í boltanum er hún að verða frekar þreytandi. Menn eru dregnir í dilka eftir því hvaða liði þeir halda með í enska boltanum og átrúnaðurinn er svo heitur að þröngsýnin verður nánast hlægileg ef ekki sorgleg. Þannig hitti ég tvo karla á laugardagsvöldið og bað annar mig um að votta hinum samúð mína og varð mér ansi hverft við og klappaði gaurnum ósjálfrátt á öxlina en fljótlega kom í ljós að þarna var fylgismaður Liverpool að spila með aðdáanda Manchester United. Ekkert var hægt að ræða við þessa náunga því að liðin höfðu víst mæst fyrr um daginn og annað skipti ekki máli.
Þetta er svo sem ekkert í fyrsta sinn sem ég tala við karla með tuðru á heilanum. Raunar hitti ég svoleiðis hóp í alltaf hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum í þrektíma og þar byggist umræðan á yfirdrulli, einelti, háðsglósum og skotum í tengslum við trúfélögin þeirra. Sumir trúa á Liverpool, aðrir á Manchester United, fáeinir á Arsenal og Chelsea og jafnvel heyrist mér einhver tala um Tottenham. Menn erum með rörsýn á sitt lið, sjá aldrei ljósa punkta hjá öðrum liðum, bera ekki lof á aðra leikmenn, sigur andstæðinga er aldrei verðskuldaður og það er annað hvort grís eða dómarahneyksli ef liðið manns tapar.
Þetta hljómar óskaplega líkt íslenskri flokkspólitík, liðshollustan er algjör, bókstafstrúin yfirþyrmandi. Ekki þýðir að rökræða við svona trúarofstækismenn enda kasta menn óspart glósum og hnútum á milli sín og spyrða saman liðið og áhangendur þannig að sá sem heldur með tapliðinu er aumingi. Æ, þetta hljómar ekkert voðalega þroskað eða uppbyggilegt en sjálfur hef ég samt lengi haft gaman af fótbolta. Um eða upp úr 1970 ákvað ég að halda með Leeds, Wolves og West Ham (í þessari forgangsröð) og fljótlega fékk ég líka taugar til Manchester United. Verst líkaði mér við Liverpool, WBA og Birmingham ef ég man rétt.
Nú til dags horfi ég sjaldan á leiki en nýt þess að horfa á flottan bolta og spennandi viðureignir. Skiptir ekki öllu hvað liðin heita því þetta eru engin trúarbrögð fyrir mér. Auðvitað tekur hjartað smá kipp þegar gömlu liðin mín standa sig vel og ég viðurkenni að mér leiðist ekki þegar Liverpool tapar. Til allrar hamingju hef ég ekki aðgang að sjónvarpsstöðvum sem sýna alla þessa leiki því þá yrði kannski lítið úr helgunum. Ég kíki hins vegar stundum á gamla leiki á ESPN og í kvöld var t.d. leikur Leeds og AC Milan frá 1973 þar sem Leeds beið óverðskuldað lægri hlut í meistarakeppninni. Um daginn sá ég Leeds einmitt tapa fyrir Bayern Munchen í úrslitum UEFA keppninnar sama ár þótt mínir menn væru miklu betri. Peter Lorimer var uppáhaldið, alveg frábært að sjá hann. Norman Hunter, Johnny Giles, Allan Clarke, Eddie Gray og Joe Jordan voru líka svakalega góðir og fleiri mætti nefna. Fótboltinn var villtari og frjálslegri en í dag. Ekkert ofskipulag, ekkert gel, ekkert væl, engin ofurlaun. Bara karlmannleg átök og sannur íþróttaandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)