Að rifna úr þjóðarstolti

Ég er stoltur af því að tilheyra þessari dugmiklu þjóð sem ætlar að standa saman í mestu þrengingum sem dunið hafa yfir í manna minnum. Það er sama hvað menn heita, hvaða flokkum eða samtökum þeir tilheyra eða hvaða atvinnu þeir stunda, allir virðast ætla að leggjast á eitt í uppbyggingunni. Þótt erfiðleikarnir séu auðvitað öðrum að kenna skiptir það ekki máli, við greiðum úr vandanum í sátt og samlyndi. Má vera að það sé ósanngjarnt að fall húsnæðislánasjóða í Bandaríkjunum, kostnaður við að halda uppi lög og reglu í Írak, fiðrildablak í Ástralíu, fýlukast breskra ráðamanna eða bara einhver spilling í útlöndum hafi sett Ísland á hausinn eftir ýmsum krókaleiðum. Hvers á þjóðin að gjalda, þetta einhuga fólk með óspillt stjórnkerfi, harðduglegt og óeigingjarnt, víðsýnt og fordómalaust? Nei, við spyrjum ekki svona heldur tökumst á við vandann á þeim trausta grunni sem við sköpuðum okkur í góðærinu.

Hér hefur í mörg ár ríkt meiri velmegun en annars staðar í heiminum og ég sé ekki að nokkurt lát þurfi að vera á því ástandi. Við höfum löngum átt fallegustu konur heims og sterkustu mennina, flottustu bílana og flinkustu fjármálaspekúlantana. Við erum næstum því bestir í handbolta og júróvisjón og eigum nóg af fiski, vatni, orku, áli og náttúrufegurð. Við vinnum mest og eyðum mestu og erum draumaþjóð hvers hagkerfis. Raunar eigum við allt til alls og enginn hefur þurft að líða skort. Nei, þessi fámenna þjóð hefur staðið saman á aðdáunarverðan hátt og enginn skarað eld að eigin köku og fallið í fúlan pytt óhófs og græðgi.

Góðærisárin nýttum við af hreinni skynsemi. Við höfum eflt menntakerfið til muna og heilbrigðiskerfið einnig, ekki síst tannlæknaþjónustu fyrir börn og erum þar engir eftirbátar frænda okkar í Skandinavíu. Aldraða og öryrkja höfum við borið á höndum okkar og stuðningur við barnafjölskyldur er rómaður. Foreldrum hefur verið auðveldað að stytta vinnuvikuna til að geta verið meira með börnunum og meðfram því að byggja upp velferðarkerfið og jafna kjör fólks með góðærisgróðanum höfum við lagt fyrir í drjúga sjóði og eigum líka sterka lífeyrissjóði sem munu tryggja okkur áhyggjulaust ævikvöld.

Til þess að standa vörð um lífsgæðin og vinna okkur út úr þessum tímabundna vanda munu stjórnvöld, hinir svokölluðu aðilar atvinnulífsins, launafólk, fjölmiðlar og almenningur allur sameina krafta sína í baráttunni. Menntakerfið verður að sjálfsögðu eflt enn frekar og hlúð að æsku landsins. Alþingi mun starfa sem órofa heild með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og vinna með evrópskum vinaþjóðum ef íslenski frumkrafturinn nægir ekki einn og sér. Við erum þroskuð þjóð og vitaskuld vinna stjórn og stjórnarandstaða saman, þingmenn láta ekki blinda flokkshagsmuni ráða eða eyða tímanum í að rifja upp hvað einhver sagði einhvern tíma og missa sig í skítkast og flokkadrætti. Gagnrýni fjölmiðla er og verður að vanda uppbyggileg og jákvæð og það er eftirtektarvert, ekki síst í dagblöðum, vefmiðlum og bloggsíðum, hvað fólk er málefnalegt og viljugt að koma fram undir nafni og tilbúið að styðja öll þjóðþrifamál án þess að vera með persónulegt skítkast eða gamaldags vinstri-hægri komplexa.

Já, það er yndislegt að búa á Íslandi. Ég treysti því að almenningur haldi vöku sinni og fjölmiðlar, rithöfundar, tónlistarmenn, pólítískir pennar og aðrir sem gjarnan setja mark sitt á samfélagið haldi áfram á sínum málefnalegu nótum og stjórnvöld verði sömuleiðis áfram samstiga í baráttunni. Það væri nefnilega ansi niðurdrepandi ef maður þyrfti dag eftir dag að lesa nafnlaust nöldur og níð í fjölmiðlum eða hlusta á landsþekktan tónlistarmann halda því fram að ríkisstjórnin væri vísvitandi að vinna gegn launafólki eða verða vitni að bókstafstrúarátökum á Alþingi, svo nokkur fráleit dæmi séu tekin.

 


Keppni í skrækjum eða fegurð?

Eftir að hafa horft á býsna skondna breska bíómynd í sjónvarpinu á föstudagskvöldið skipti ég snöggvast yfir á Skjá 1 og snarbrá í brún. Óhljóðin voru slík að ég taldi víst að þar væri verið að sýna hryllingsmynd um keðjusagarmorðingja í stúlknaskóla. Skrækir, vein, öskur og ýlfur ruddust með offorsi úr sjónvarpstækinu en á skjánum var ekkert blóðbað heldur brosandi stúlkur í hrönnum. Ég botnaði ekkert í þessu. Einhver kynnir nefndi kvenmannsnafn og þá byrjuðu skrækirnir aftur og þannig gekk þetta nokkrum sinnum þar til ég áttaði mig. Fegurðarsamkeppni. Alveg rétt. Fegurð stúlkna er víst mæld eftir því hversu hátt er öskrað þegar viðkomandi stúlka er kynnt. Ég heyrði aldrei klapp eða ámóta fagnaðarlæti, aðeins gól og vein og sumir í salnum virtust gjörsamlega standa á orginu allan tímann. Ekki voru það fögur hljóð en sjálfsagt hafa fljóðin verið fögur þótt keppni í fegurð hljóti að orka tvímælis.

 


Drukknir Akureyringar

Æ, nú skil ég hvernig aumingja drukknu utanbæjarmönnunum hefur liðið. Ég var blaðamaður á Degi í gamla daga og náði í skottið á þeirri fréttamennsku að ef eitthvað gerðist miður gott á Akureyri, brotist var inn, bílstjóri stöðvaður fyrir gáleysislegan akstur, kona beit mann eða maður lamdi annan þá var því gjarnan hnýtt aftan við fréttina að talið væri að um utanbæjarmann hefði verið að ræða. Til að bæta um betur var þetta yfirleitt drukkinn utanbæjarmaður. - Nú er hins vegar hamrað á því að drukknir Akureyringar hafi hagað sér eins og asnar í annarri sýslu með uppstoppaðan ísbjörn og það er sárt að sitja undir því að vera Akureyringur þegar þessu er slegið upp. Þarna hafa þeir svo sannarlega hagað sér eins og drukknir utanbæjarmenn og er það varla til eftirbreytni.

Aspirnar felldar

P5100007 P5100012Það var stór dagur í gær þegar þrjár tröllvaxnar aspir við Hrafnagilsstræti voru felldar og fjarlægðar. Nú mun sólin skína glatt á okkur í Vanabyggðinni. Þá verður allt annað mál að hirða lóðina, laus við óhræsið í næsta húsi.

P5100017 P5100016 Auðvitað skilur maður ekkert í því að fólk skuli hafa gróðursett aspir í íbúðahverfum á sínum tíma en sennilega vissi það ekki betur. Nú er spurning hvort maður fer ekki bara í matjurta- eða blómarækt.                  


Harðhausar klikka

Þegar maður þarf að hafa ofan af fyrir sjálfum sér getur verið gott að leita í hreinræktað afþreyingarefni. Þar má nefna kvikmyndir með harðahausum, gamlar B-hryllingsmyndir og vitlausar gamanmyndir. Harðhausarnir klikka sjaldnast. Ég hef t.d. horft á Bruce Willis, Clint Eastwood, Jean Claude van Damme og nú síðast Jason Statham mér til upplyftingar. En þá varð líka mælirinn fullur.

Transporter myndirnar með hinum eitursvala og massaða Jason Statham eru hraðar, flottar, fyndnar og töff á margan hátt. Flottast finnst mér kannski hvernig er hægt að búa til nákvæmlega sömu kvikmyndina þrisvar sinnum. Ertu ekki að grínast? stundi ég í þriðju myndinni þegar félaginn var enn og aftur mættur í bardagasenu umkringdur fjölda manns og notaði bardagatækni, nærtæk áhöld og fötin sín til að ráða niðurlögum óvinanna á sama hátt og í fyrri myndunum.

Jæja, þetta var þó hátíð miðað við það hræðilega fyrirbæri sem Crank nefnist, þar sem Statham er líka í aðalhlutverki. Við feðgarnir horfðum á fyrri myndina og hafi Transporter boðið upp á ólíkindasenur í teiknimyndastíl þá var Crank hálfu verri og vitlausari. Endirinn gat hugsanlega gefið fyrirheit um framhald en ég vildi ekkert af því vita enda stangaðist slíkt á við öll lögmál. Sonurinn nálgaðist samt myndina með niðurhali og ég reyndi að horfa með honum en gafst upp. Crank - High Voltage er sennilega lélegasta og ömurlegasta kvikmynd sem fyrir augu mín hefur borið og maður á ekki að láta bjóða sér upp á svona lagað. Þá er nú betra að leggjast og lesa bók.

Fyrst minnst er á bækur hef ég lesið þær allmargar að undanförnu. Síðast var það bókin Þar sem sólin skín eftir Lizu Marklund og hún hélt mér vel, sérstaklega fyrstu 400 blaðsíðurnar en svo fór þetta að verða dálítið hasarmyndalegt. Sögusviðið þekkja margir og maður var iðulega kominn til Costa del Sol í huganum. Fléttan er ansi margþætt og mögnuð og vísar í fyrri bækur höfundar, sem eru misgóðar. Oft hefur það farið í taugarnar á mér hvað bækur Lizu eru stirðlega þýddar og stafsetningarvillur algengar en sennilega voru ekki nema ca 10 dæmi núna sem ég kveinkaði mér yfir.


Sárabætur

P5010119

Við skruppum niður í bæ í ágætis veðri til að sjá Sindra og fleiri spila á gítar og lentum þá í kröfugöngunni. Allt fór þetta ljómandi vel fram og fjölmargir á ferð. Upp kom gamall baráttuandi og maður var farinn að humma Nallann en svo var líka gaman að hitta fólk eftir þá hálfgerðu einangrun sem maður hefur verið í svona á köflum.

 

Hér má sá Sindra og fleiri munda slaggígjur sínar og einnig er mynd af okkur Eyrúnu með tengdapabba í baksýn. Við hjónin fórum svo með tengdapabba á Bláu könnuna. Smá sárabót fyrir Stokkhólmsferðina sem við neyddumst til að aflýsa vegna veikinda minna. Okkur langaði reyndar afskaplega mikið á tónleika á Græna hattinum í kvöld en það hefði verið full mikið af því góða. Hins vegar skruppum við hjónin á Rub 23 í gærkvöld og fengum frábæran mat. Eins og ég segi, smá sárabót er alltaf vel þegin. 

P5010123 Já og um að gera að brosa dálítið í sólinni. Þetta hlýtur allt saman að vera á uppleið. Við hljótum að komast upp úr farinu, hvaða leið sem verður valin. Frá lýðveldisstofnun höfum við Íslendingar á allan hátt verið Kanamellur og sleikt upp ameríska hagfræði og lífsstíl. Nú er annað hvort að treysta böndin við önnur Evrópulönd eða reyna að endurheimta sjálfstæði okkar og sérstöðu og lifa af landsins gæðum. Sennilega er það fjarlæg og rómantísk sýn og staða okkar þannig að líklega er best að skoða hvað ESB hefur upp á að bjóða.


Tortryggni

Ég varð æði tortrygginn þegar ég sá að afborgunin á bílaláninu reyndist lægri núna en síðast. Maður er ekki vanur svona trakteringum. Svo virðist gengi erlendra gjaldmiðla hafa lækkað eitthvað. Hvað er eiginlega að gerast? Skyldi þetta var svínaflensan eða sagði Obama eitthvað gáfulegt? Ég skil ekki alveg hvað ræður hinum æðri fjármálum en stundum virðist nóg að einhver segi eitthvað eða tilkynningar berist frá kauphöllum.

Svo er sólin farin að skína og hitastigið alveg bærilegt þannig að maður verður sífellt gáttaðri á duttlungum náttúrunnar. Gott ef heilsan hefur ekki bara skánað aðeins síðustu tvo daga. Kannski er dálítil glæta í tilverunni þrátt fyrir allt.

Og þó. Spáir hann ekki norðan þræsingi eftir helgi? 


Fyrirmyndarkjördæmi

Ég er eiginlega dálítið stoltur af kjósendum í Norðausturkjördæmi og mér finnst notalegt að tilheyra samfélagi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er minnstur fjórflokkanna. Hér endurspeglast rödd almennings í lýðræðislegum kosningum. Fólki var misboðið og löngu orðið óglatt af þeirri græðgi, frjálshyggju, mannfyrirlitningu, spillingu og sérhagsmunagæslu sem endurspeglast hafði í ásjónu og stefnu flokksins með fallega nafnið.

Flokkurinn hefði mátt fá svipað fylgi á landsvísu og í Norðausturkjördæmi en til allrar hamingju fékk hann þó ekki yfir fjórðung atkvæða því þá hefði ég þurft að flytja af landi brott, hefði ég staðið við tuldur mitt og muldur síðustu dagana fyrir kosningar. Skemmtilegt hefði verið að sjá Sjálfstæðisflokkinn minni en Vinstri græn en engu að síður er mesta fylgistap Íslandssögunnar staðreynd og er það verðskuldað í ljósi aðstæðna.

Svo vona ég bara að allir, já allir alþingismenn geri sitt besta í framhaldinu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.


Bræðsluvélin

P4130109 Það var óskaplega indælt að vera í afahlutverkinu í páskaleyfinu þótt maður væri gamall og boginn - og ætti síðan eftir að bogna meira og bresta en það er nú önnur saga. Silja Marín var oft hin kátasta og hér er engu líkara en að hún sé að syngja Sjá dagar koma. Hún undi sér yfirleitt vel hjá afa sínum og ömmu og ef ekki... þá var alltaf hægt að skila blessuðu barninu til foreldranna!

Á neðri myndinni skríkir sú stutta enda verið að leika við hana og nóg af skemmtilegu dóti í kring. Þegar hún brosir fer bræðsluvélin í gang, eins og pabbi hennar segir. Já, henni tekst að bræða mörg hjörtu og jafnvel gamlir ljósastaurar syngja.

 

P4110070


Skattar og frelsi

Burtséð frá því hvort Sjálfstæðismenn eru með hræðsluáróður eða ekki og hvort þeir eru vísvitandi að snúa út úr orðum og stefnu ýmissa andstæðinga sinna þá finnst mér tónninn á bak við skattaumræðu þeirra kolrangur og algjör tímaskekkja. Á bak við þá orðræðu að slæmt sé að hækka skatta liggur sú grunnhugmynd að skattar séu áþján, höft á einstaklingsfrelsið. Enda eru skattar samneysla og hornsteinn samfélagsins, velferðarkerfisins.

Sumsé, ég skynja enn þann ömurlega hugsunarhátt tiltekinnar stjórnmálahreyfingar að skattar séu ekki fyrir hina útvöldu. Nei, þeir eiga að fá skattaskjól, niðurfellingar, minni skatt á hærri tekjur, undanskot með hjálp endurskoðenda, lítinn fjármagnstekjuskatt, lægri skatta á fyrirtæki, alls engan stóreignaskatt; altsvo, þeir sem hafa löngum grætt mest mega alls ekki borga eins mikla skatta og meðaljónarnir. Þetta er sú hugsun sem ég skynja hjá þeim sem enn prísa frjálshyggjuna og einstaklingsfrelsið. Kúnstin við það að komast hjá því að borga réttláta skatta virðist enn í hávegum höfð.

Í alvöru talað, sérgæsluflokkur á borð við Sjálfstæðisflokkinn ætti ekki að vera með nema 10% fylgi í mesta lagi. Þetta er flokkur auðmanna og valdaklíku. Það er margt gott í stefnu flokksins og hér áður fyrr var kannski skiljanlegt að venjulegar fjölskyldur, láglaunafólk og ellilífeyrisþegar fylgdu flokknum að málum en ég trúi ekki öðru en Sjálfstæðisflokkurinn fái frí núna. Auðvitað er grábölvað ef hækka þarf skatta, lækka laun og þar fram eftir götunum en einhver kom okkur í þessa stöðu og í þeim efnum getur áðurnefndur flokkur ekki hvítþvegið sig.

Þegar flokkurinn hefur stokkað upp hugsjónir sínar og sett fram hófstilltari stefnu; er t.d. reiðubúinn að styðja við einstaklingsframtak og frumkvæði sem bitnar ekki á öðrum, einstaklingsfrelsi sem skaðar ekki aðra, viðurkenna að frelsi fylgir ábyrgð og agi og sýna samstöðu og samhug í verki þá má fara að ræða málin. En núna verðum við að gefa flokknum frí. Þjóðin á það skilið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband