Okur og aulatilboð

Er forsvaranlegt að greiða 2.000 krónur fyrir hamborgara á veitingastað? Eða 1.150 krónur fyrir eina sneið af skyrtertu? Þetta stóð mér til boða á ónefndu vertshúsi við höfnina á Húsavík. Til að vera fullkomlega heiðarlegur verð ég þó að taka fram að hægt var að fá svokallaðan kreppuborgara á 1.750 krónur. Af einhverjum ástæðum fúlsaði ég við þessum okri og þótti meira en nóg að greiða 990 krónur fyrir brimsalt súpugutl og sneið af snittubrauði.

Þetta með tertusneiðina þótti mér eiginlega hlægilegt. Við vorum í Mývatnssveit daginn áður og fengum okkur kaffi og kökusneið í nýlegum skúr við Dimmuborgir. Vissulega hafði ég óttast hefðbundna túristarányrkju þar en skyrtertan var þó á venjulegu verði, 650 eða 700 krónur, og ekki yfir neinu að kvarta þar. Þá fengum við ágætan mat á sanngjörnu verði á Sölku á Húsavík en okrið á ónefnda staðnum er fáheyrt.

Ég skrapp í búðina í dag og lét freistast eins og stundum. Hinn ágæti ostur sem kenndur er við höfðingja var merktur með grænum límmiða og á honum stóð tilboð. Við kassann var mér hins vegar gert að greiða 434 krónur fyrir þessa agnarsmáu öskju. Ég spurði hæðnislega hvað osturinn hefði eiginlega kostað hjá þeim fyrir tilboðið en fékk þá það svar að osturinn kæmi með þessum tilboðsmiða frá framleiðanda en verslunin væri ekki með neitt tilboð. Aha, þetta var sumsé bara ódýrt auglýsingatrikk. Maður hefur svo sem séð það áður. Áberandi miði með töfraorðinu tilboð - og maður aulast til að gleypa við þessu.

Í sömu verslun keypti ég flösku af kolsýrðu vatni án bragðefna. Fyrir hana bar mér að greiða 339 krónur. Æ, af hverju stendur maður í þessari vitleysu? Nú fer maður bara í kranavatnið, hestabrauðið, hakkaðar vambir, kjötfars og svið. Rop.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Ég get huggað þig með því að ég borgaði 4000 (20 evrur) fyrir hamborgara á Spáni - (okur þrátt fyrir gengishrun - og það á Spáni!). Og ég hef oft hlaupið með svokallaðar ,,tilboðsvörur,, að kassanum með bros á vör. En efast síðan ávallt stórlega um greindarvísitölu mína um leið og ég labba út og lít á verðmiðann... !

Gunnhildur Ólafsdóttir, 21.9.2009 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband