Að rifna úr þjóðarstolti

Ég er stoltur af því að tilheyra þessari dugmiklu þjóð sem ætlar að standa saman í mestu þrengingum sem dunið hafa yfir í manna minnum. Það er sama hvað menn heita, hvaða flokkum eða samtökum þeir tilheyra eða hvaða atvinnu þeir stunda, allir virðast ætla að leggjast á eitt í uppbyggingunni. Þótt erfiðleikarnir séu auðvitað öðrum að kenna skiptir það ekki máli, við greiðum úr vandanum í sátt og samlyndi. Má vera að það sé ósanngjarnt að fall húsnæðislánasjóða í Bandaríkjunum, kostnaður við að halda uppi lög og reglu í Írak, fiðrildablak í Ástralíu, fýlukast breskra ráðamanna eða bara einhver spilling í útlöndum hafi sett Ísland á hausinn eftir ýmsum krókaleiðum. Hvers á þjóðin að gjalda, þetta einhuga fólk með óspillt stjórnkerfi, harðduglegt og óeigingjarnt, víðsýnt og fordómalaust? Nei, við spyrjum ekki svona heldur tökumst á við vandann á þeim trausta grunni sem við sköpuðum okkur í góðærinu.

Hér hefur í mörg ár ríkt meiri velmegun en annars staðar í heiminum og ég sé ekki að nokkurt lát þurfi að vera á því ástandi. Við höfum löngum átt fallegustu konur heims og sterkustu mennina, flottustu bílana og flinkustu fjármálaspekúlantana. Við erum næstum því bestir í handbolta og júróvisjón og eigum nóg af fiski, vatni, orku, áli og náttúrufegurð. Við vinnum mest og eyðum mestu og erum draumaþjóð hvers hagkerfis. Raunar eigum við allt til alls og enginn hefur þurft að líða skort. Nei, þessi fámenna þjóð hefur staðið saman á aðdáunarverðan hátt og enginn skarað eld að eigin köku og fallið í fúlan pytt óhófs og græðgi.

Góðærisárin nýttum við af hreinni skynsemi. Við höfum eflt menntakerfið til muna og heilbrigðiskerfið einnig, ekki síst tannlæknaþjónustu fyrir börn og erum þar engir eftirbátar frænda okkar í Skandinavíu. Aldraða og öryrkja höfum við borið á höndum okkar og stuðningur við barnafjölskyldur er rómaður. Foreldrum hefur verið auðveldað að stytta vinnuvikuna til að geta verið meira með börnunum og meðfram því að byggja upp velferðarkerfið og jafna kjör fólks með góðærisgróðanum höfum við lagt fyrir í drjúga sjóði og eigum líka sterka lífeyrissjóði sem munu tryggja okkur áhyggjulaust ævikvöld.

Til þess að standa vörð um lífsgæðin og vinna okkur út úr þessum tímabundna vanda munu stjórnvöld, hinir svokölluðu aðilar atvinnulífsins, launafólk, fjölmiðlar og almenningur allur sameina krafta sína í baráttunni. Menntakerfið verður að sjálfsögðu eflt enn frekar og hlúð að æsku landsins. Alþingi mun starfa sem órofa heild með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og vinna með evrópskum vinaþjóðum ef íslenski frumkrafturinn nægir ekki einn og sér. Við erum þroskuð þjóð og vitaskuld vinna stjórn og stjórnarandstaða saman, þingmenn láta ekki blinda flokkshagsmuni ráða eða eyða tímanum í að rifja upp hvað einhver sagði einhvern tíma og missa sig í skítkast og flokkadrætti. Gagnrýni fjölmiðla er og verður að vanda uppbyggileg og jákvæð og það er eftirtektarvert, ekki síst í dagblöðum, vefmiðlum og bloggsíðum, hvað fólk er málefnalegt og viljugt að koma fram undir nafni og tilbúið að styðja öll þjóðþrifamál án þess að vera með persónulegt skítkast eða gamaldags vinstri-hægri komplexa.

Já, það er yndislegt að búa á Íslandi. Ég treysti því að almenningur haldi vöku sinni og fjölmiðlar, rithöfundar, tónlistarmenn, pólítískir pennar og aðrir sem gjarnan setja mark sitt á samfélagið haldi áfram á sínum málefnalegu nótum og stjórnvöld verði sömuleiðis áfram samstiga í baráttunni. Það væri nefnilega ansi niðurdrepandi ef maður þyrfti dag eftir dag að lesa nafnlaust nöldur og níð í fjölmiðlum eða hlusta á landsþekktan tónlistarmann halda því fram að ríkisstjórnin væri vísvitandi að vinna gegn launafólki eða verða vitni að bókstafstrúarátökum á Alþingi, svo nokkur fráleit dæmi séu tekin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

La dolce vita burlesque.

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.5.2009 kl. 12:19

2 identicon

Þetta er allt satt og rétt, engin sundrung eða málþóf í gangi á Alþingi, allir í sátt og samlyndi að vinna að endurreisninni, menntakerfið þarf ekkert að óttast, og svo framvegis.

Snilldarfærsla!

Ingibjörg (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband