24.5.2009 | 16:41
Keppni í skrækjum eða fegurð?
Eftir að hafa horft á býsna skondna breska bíómynd í sjónvarpinu á föstudagskvöldið skipti ég snöggvast yfir á Skjá 1 og snarbrá í brún. Óhljóðin voru slík að ég taldi víst að þar væri verið að sýna hryllingsmynd um keðjusagarmorðingja í stúlknaskóla. Skrækir, vein, öskur og ýlfur ruddust með offorsi úr sjónvarpstækinu en á skjánum var ekkert blóðbað heldur brosandi stúlkur í hrönnum. Ég botnaði ekkert í þessu. Einhver kynnir nefndi kvenmannsnafn og þá byrjuðu skrækirnir aftur og þannig gekk þetta nokkrum sinnum þar til ég áttaði mig. Fegurðarsamkeppni. Alveg rétt. Fegurð stúlkna er víst mæld eftir því hversu hátt er öskrað þegar viðkomandi stúlka er kynnt. Ég heyrði aldrei klapp eða ámóta fagnaðarlæti, aðeins gól og vein og sumir í salnum virtust gjörsamlega standa á orginu allan tímann. Ekki voru það fögur hljóð en sjálfsagt hafa fljóðin verið fögur þótt keppni í fegurð hljóti að orka tvímælis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.