6.5.2009 | 11:21
Harðhausar klikka
Þegar maður þarf að hafa ofan af fyrir sjálfum sér getur verið gott að leita í hreinræktað afþreyingarefni. Þar má nefna kvikmyndir með harðahausum, gamlar B-hryllingsmyndir og vitlausar gamanmyndir. Harðhausarnir klikka sjaldnast. Ég hef t.d. horft á Bruce Willis, Clint Eastwood, Jean Claude van Damme og nú síðast Jason Statham mér til upplyftingar. En þá varð líka mælirinn fullur.
Transporter myndirnar með hinum eitursvala og massaða Jason Statham eru hraðar, flottar, fyndnar og töff á margan hátt. Flottast finnst mér kannski hvernig er hægt að búa til nákvæmlega sömu kvikmyndina þrisvar sinnum. Ertu ekki að grínast? stundi ég í þriðju myndinni þegar félaginn var enn og aftur mættur í bardagasenu umkringdur fjölda manns og notaði bardagatækni, nærtæk áhöld og fötin sín til að ráða niðurlögum óvinanna á sama hátt og í fyrri myndunum.
Jæja, þetta var þó hátíð miðað við það hræðilega fyrirbæri sem Crank nefnist, þar sem Statham er líka í aðalhlutverki. Við feðgarnir horfðum á fyrri myndina og hafi Transporter boðið upp á ólíkindasenur í teiknimyndastíl þá var Crank hálfu verri og vitlausari. Endirinn gat hugsanlega gefið fyrirheit um framhald en ég vildi ekkert af því vita enda stangaðist slíkt á við öll lögmál. Sonurinn nálgaðist samt myndina með niðurhali og ég reyndi að horfa með honum en gafst upp. Crank - High Voltage er sennilega lélegasta og ömurlegasta kvikmynd sem fyrir augu mín hefur borið og maður á ekki að láta bjóða sér upp á svona lagað. Þá er nú betra að leggjast og lesa bók.
Fyrst minnst er á bækur hef ég lesið þær allmargar að undanförnu. Síðast var það bókin Þar sem sólin skín eftir Lizu Marklund og hún hélt mér vel, sérstaklega fyrstu 400 blaðsíðurnar en svo fór þetta að verða dálítið hasarmyndalegt. Sögusviðið þekkja margir og maður var iðulega kominn til Costa del Sol í huganum. Fléttan er ansi margþætt og mögnuð og vísar í fyrri bækur höfundar, sem eru misgóðar. Oft hefur það farið í taugarnar á mér hvað bækur Lizu eru stirðlega þýddar og stafsetningarvillur algengar en sennilega voru ekki nema ca 10 dæmi núna sem ég kveinkaði mér yfir.
Athugasemdir
Statham er svo eitursvalur að það nær hreinlega ekki nokkurri átt. Tók einmitt góða tvennu með honum síðustu helgi, Death Race og svo Crank til að hita upp fyrir Crank 2, sem ég ætla að skella mér á þrátt fyrir varnarorð þín.
Siggeir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.