27.4.2009 | 10:08
Fyrirmyndarkjördæmi
Ég er eiginlega dálítið stoltur af kjósendum í Norðausturkjördæmi og mér finnst notalegt að tilheyra samfélagi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er minnstur fjórflokkanna. Hér endurspeglast rödd almennings í lýðræðislegum kosningum. Fólki var misboðið og löngu orðið óglatt af þeirri græðgi, frjálshyggju, mannfyrirlitningu, spillingu og sérhagsmunagæslu sem endurspeglast hafði í ásjónu og stefnu flokksins með fallega nafnið.
Flokkurinn hefði mátt fá svipað fylgi á landsvísu og í Norðausturkjördæmi en til allrar hamingju fékk hann þó ekki yfir fjórðung atkvæða því þá hefði ég þurft að flytja af landi brott, hefði ég staðið við tuldur mitt og muldur síðustu dagana fyrir kosningar. Skemmtilegt hefði verið að sjá Sjálfstæðisflokkinn minni en Vinstri græn en engu að síður er mesta fylgistap Íslandssögunnar staðreynd og er það verðskuldað í ljósi aðstæðna.
Svo vona ég bara að allir, já allir alþingismenn geri sitt besta í framhaldinu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.