22.4.2009 | 14:09
Skattar og frelsi
Burtséð frá því hvort Sjálfstæðismenn eru með hræðsluáróður eða ekki og hvort þeir eru vísvitandi að snúa út úr orðum og stefnu ýmissa andstæðinga sinna þá finnst mér tónninn á bak við skattaumræðu þeirra kolrangur og algjör tímaskekkja. Á bak við þá orðræðu að slæmt sé að hækka skatta liggur sú grunnhugmynd að skattar séu áþján, höft á einstaklingsfrelsið. Enda eru skattar samneysla og hornsteinn samfélagsins, velferðarkerfisins.
Sumsé, ég skynja enn þann ömurlega hugsunarhátt tiltekinnar stjórnmálahreyfingar að skattar séu ekki fyrir hina útvöldu. Nei, þeir eiga að fá skattaskjól, niðurfellingar, minni skatt á hærri tekjur, undanskot með hjálp endurskoðenda, lítinn fjármagnstekjuskatt, lægri skatta á fyrirtæki, alls engan stóreignaskatt; altsvo, þeir sem hafa löngum grætt mest mega alls ekki borga eins mikla skatta og meðaljónarnir. Þetta er sú hugsun sem ég skynja hjá þeim sem enn prísa frjálshyggjuna og einstaklingsfrelsið. Kúnstin við það að komast hjá því að borga réttláta skatta virðist enn í hávegum höfð.
Í alvöru talað, sérgæsluflokkur á borð við Sjálfstæðisflokkinn ætti ekki að vera með nema 10% fylgi í mesta lagi. Þetta er flokkur auðmanna og valdaklíku. Það er margt gott í stefnu flokksins og hér áður fyrr var kannski skiljanlegt að venjulegar fjölskyldur, láglaunafólk og ellilífeyrisþegar fylgdu flokknum að málum en ég trúi ekki öðru en Sjálfstæðisflokkurinn fái frí núna. Auðvitað er grábölvað ef hækka þarf skatta, lækka laun og þar fram eftir götunum en einhver kom okkur í þessa stöðu og í þeim efnum getur áðurnefndur flokkur ekki hvítþvegið sig.
Þegar flokkurinn hefur stokkað upp hugsjónir sínar og sett fram hófstilltari stefnu; er t.d. reiðubúinn að styðja við einstaklingsframtak og frumkvæði sem bitnar ekki á öðrum, einstaklingsfrelsi sem skaðar ekki aðra, viðurkenna að frelsi fylgir ábyrgð og agi og sýna samstöðu og samhug í verki þá má fara að ræða málin. En núna verðum við að gefa flokknum frí. Þjóðin á það skilið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.