13.4.2009 | 21:21
Ellibelgir á hrukkudýrasafni
Mér var bent á auglýsingu í dagskrársnepli. Einhverjir gamlingjar ætluðu að hittast í diskóstuði að kveldi föstudagsins langa á skemmtistað sem heitir víst Vélsmiðjan en gengur undir ýmsum nöfnum eins og Endurvinnslan, Hrukkudýrasafnið, Gránufélagið og Elliheimilið. Þangað hef ég sennilega aldrei komið en hef heyrt hinar ferlegustu sögur af því sem þarna fer fram enda nokkuð ljóst að áfengi og eldgamalt fólk á varla samleið - nema í algjöru hófi (sérrístaup á laugardögum eða koníakssjúss fyrir svefninn).
Sumum finnst voðalega sniðugt að hóa saman einhverjum árgangi og halda upp á... eitthvað. Stundum kallað reunion. Æ, mér fannst þetta frekar sveitt og hallærislegt og sá fyrir mér sparslaðar kerlingar í þreföldum aðhaldsbrókum skjögra um dansgólfið í ímyndaðri diskósveiflu meðan snarsköllóttir fituhjassar eða markeraðar beinagrindur með gráar hárlufsur hér og þar um líkamann slefuðu yfir barborðið og heimtuðu meiri bjór og viskí. Svo færu allir að tala um gömlu og góðu dagana, stríðsárin, skömmtunarseðla, frostavetur eða einhvern fjandann; jafnvel rifja upp hetjudáðir í samskiptum við hitt kynið meðan enn kraumaði eldur í þessum úrsérgengnu líkömum.
Ég gat ekki annað en glott út í annað þegar ég sá ósköpin fyrir mér og prísaði mig sælan yfir því að tilheyra ekki svona söfnuði. Síðan gleymdi ég þessu í nokkra daga eða allt þar til jafnaldra mín rakst á mig á förnum vegi og spurði mig hvers vegna ég hefði ekki mætt í Vélsmiðjuna á föstudaginn langa.
Ég? Ehemm. Já, þetta hafði víst verið minn árgangur að blása til gleðinnar. Aldrei hefur pína Krists verið mér hugstæðari en einmitt þarna þegar rann upp fyrir mér ljós.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.