Sæla í segulómun

Margir fara í líkamsrækt, aðrir í ljós, einhverjir í sund en ég hef sérstakt dálæti á því að fara í segulómun. Huggulegri vistarverur en þennan þrönga sívalning sem manni er troðið inn í er vart hægt að hugsa sér. Sérstaklega er þetta notalegt eftir að hafa horft á fjölda sakamálamynda þar sem sífellt er verið að loka fólk inni í farangursgeymslum bifreiða, grafa það lifandi eða renna líkum inn og út um þar til gerð hólf í líkgeymslunum.

Svo skemmtilega vildi til að mér gafst kostur á því að skreppa í segulómun um daginn. Í ljósi fenginnar reynslu ákvað ég að hafa með mér disk til að hlusta á svo ég gæti notið þessarar sælustundar sem best. Ég var lagður til á rennibekk, leggur settur í handleginn og skuggaefni dælt inn, hendur þétt á brjósti og stóru heyrnartólin, sem þrýsta á hálsslagæðarnar, greypt um höfuð mér. Til frekari þæginda var blautur klútur lagður yfir augu mér. Tónlistin fór í gang. Þetta var diskur með Strawbs og David vinur minn Cousins byrjaði að kyrja: The jailor binds his hands and puts á blindfold to his eyes... Æ, það var ekkert svo þægilegt að vera með klútinn þannig að ég afþakkaði hann áður en mér var rennt inn í þröngan hólkinn. Það væri líka synd að skemma útsýnið.

Hægt og bítandi seig ég inn í sívalninginn. Upphandleggirnir rákust utan í þannig að ég varð að gera mig enn mjórri. Stóru heyrnartólin sigu lengra niður á hálsinn og þægileg köfnunartilfinning fór um mig. Ég gat mig hvergi hrært. Er ég opnaði augun blasti ekkert við nema hólkurinn, tommu frá augum mér. Síðan byrjaði segullinn að snúast með ærandi hávaða og Cousins öskraði sig hásan í heyrnartólunum: Forgive me God, we hang him in thy name!

Þannig mallaði segullinn í hálftíma og ég efast um að nokkuð hefði þýtt að hrópa á hjálp, ef ég hefði skyndilega orðið ær. Stjórnandi tækisins hafði einfaldlega rennt mér inn, kveikt á græjunum og forðað sér út. Sennilega hafði hann bara skroppið í kaffi á meðan. Að minnsta kosti var enginn í herberginu. Reyndar minnir mig að tónlistin hafi einu sinni verið rofin og einhver kallað og spurt hvort allt væri í lagi. Auðvitað var allt í himnalagi. Fráleit spurning. Þægindin voru slík að maður var farinn að dotta þrátt fyrir hávaðann.

Að vísu þótti mér einkennilegt að hávaðinn minnkaði ekkert eftir að mér var loks rennt út úr sívalningnum. Þá varð mér ljóst að þetta var hjartað sem sló svona harkalega. Það hljóta að hafa verið einhver frumstæð og ósjálfráð viðbrögð því eins og ég segi er fátt unaðslegra en að slaka á í segulómun. Ég hvet alla til að prófa. Ég hef sjálfur aldrei farið í ljós en get ímyndað mér að þetta sé enn þægilegra. Reyndar örlítið dýrara, hálftíminn losar ellefu þúsund kallinn nettó. En maður er nýr og betri maður eftir á. Alveg segulmagnaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband