30.3.2009 | 20:53
Allir eru að gera það
Þrýstingurinn vex stöðugt og kemur úr ólíklegustu áttum. Allir eru að gera það gott - nema ég, eins og sagt var hér forðum. Já, allir hitt og allir þetta. Ef maður dansar ekki með verður maður útundan. En ég dansa ekki. Ég er þrjóskur og þver. Ég er ekki eins og allir. En það getur verið erfitt og vissulega væri gaman að vera með öllum hinum. Sögurnar eru margar hverjar dásamlegar og andi vináttu og endurfunda svífur yfir skjánum. Fólk fellur í sýndarfaðma og deilir sorgum og gleði. Myndir frá liðnum árum lifna við. Maður eignast nýja vini. Maður verður í hringiðu mannlífsins. Á skjánum. Í netheimum. Á vefnum. Í vefnum. Fastur. Fastur í einhverri fokkings facebook. Fésbók. Andlitsskruddu. Snoppuskjóðu. Urr. Ekki fyrir mig. En samt. Það er erfitt að standast þrýsting. Nei, fjandinn að maður fari að láta undan og elta hjörðina heilalaus með lafandi tungu og sljótt augnaráð. Og þó. Að vera eða vera ekki á facebook. Það er spursmálið.
Athugasemdir
Stórlega ofmetið og uppskrúfað drasl. Þar að auki hefur Facebook tekið við af vírusum sem helsta uppspretta meinsemda í tölvum.
Notendur viðurkenna að mestöll iðja sem þarna fari fram sé tímaeyðsla.
Þannig að ég held að þetta sé ekkert spursmál
Valur (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 07:56
En þó við vitum vel að þetta er tímaeyðsla, ráðum við ekki við okkur.
Katrín M., 31.3.2009 kl. 09:56
Ég hef einmitt oft velt því fyrir mér hvers vegna jafn nútíma- og tæknivæddur maður eins og þú ert ekki á facebook.
Siggeir (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 11:51
Já, sennilega óttast ég tímaeyðsluna sem fylgir feisbúkk. Og allir þeir hryðjuverkamöguleikar sem felast í fjöldasamfélaginu eru líka uggvænlegir. Ef ég væri að reyna að koma sjálfum mér á framfæri á einhvern hátt myndi ég auðvitað nota þetta tækifæri en þar sem ég er hógvær og hlédrægur býst ég við að halda bara áfram að blogga fyrir sjálfan mig og þessa fáu tryggu lesendur.
Stefán Þór Sæmundsson, 1.4.2009 kl. 12:22
Snjáldurskruddan er ofmetin hvort eð er.
Siggeir (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 20:10
þetta er hörð samkepnni sem við bloggarar etjum, ég er feisari og bloggari, enn finnst mér bloggið innihaldsríkara en feisið er þægilegt því það gefur manni kost á innihaldslausum samskiptum en oft skemmtilegum, sérstaklega við fólk sem maður hittir ekki oft. Láttu ekki svona Stefán, þú getur alveg verið feisari líka, þú gætir t.d sagt þar frá hvað þú borðaðir í morgunmat eða hvaða mynd þú horfðir á og myndir gera líf okkar innihaldsríkara;)
Brynja (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.