Í Ævintýralandi

Allir vildu fá að stjórna í Ævintýralandi, landi hinna glötuðu tækifæra þar sem frelsið og manndáðin voru mest og fiskurinn borinn fram í álpappír. Rauðgræni og Sammi krull fengu nú að prófa að stjórna saman eftir að Bláskeggur skipstjóri hafði verið leystur tímabundið frá störfum vegna rannsóknar á skipsskaða. Maddaman úr sveitinni gekk hins vegar í endurnýjun lífdaga, flutti á mölina og veitti Rauðgræna og Samma móralskan stuðning til góðra verka. Samt var hún dálítið tvístígandi, eiginlega opin í báða enda.

Nú var það að Rauðgræni fékk einróma stuðning frá sínu fólki til að halda áfram. Hann hafði ekki gert neitt af sér í Ævintýralandi og þurfti því ekki að biðjast fyrirgefningar enda hafði hann aldrei fengið að ráða neinu, bara verið messagutti á skipinu. Kannski eins gott því þá hefði tuttugu og fimm höfða skrímslið örugglega ekki fengið bankana á silfurfati og mergsogið þjóðina og helstu vini okkar erlendis. Þá værum við bara á einhverjum lygnum sjó og ekkert fjör í ævintýrinu en til að fá nýtt skip þarf auðvitað að sökkva hinu gamla eins og Bláskeggur vissi svo vel. Maður þarf að taka áhættu og komast á botninn til að geta spyrnt sér upp.

Já, Bláskeggur karlinn. Hann var eitthvað að biðjast afsökunar á því að hafa sökkt þjóðarskútu Ævintýralandsins en aðallega fannst mér hann þó vera fúll yfir því að hafa hlustað á Maddömuna. Sennilega var það Maddaman og lánagleði hennar sem sökkti skútunni; það fengu of margir að koma um borð og mistök Bláskeggs voru þau að halda ekki sínum kúrsi og láta Maddömuna róa. En það var eiginlega með Samma krull sem Bláskeggur maskaði skipið og ég heyrði Samma krull lýsa því um helgina að sennilega hefðu það verið mistök að stjórna með Bláskeggi og baðst Sammi afsökunar á því. Afsakanir Bláskeggs og Samma krull eru þannig í því fólgnar að benda á aðra, sem er hugsanlega gild aðferð til að iðrast. Svo má auðvitað geta þess að guð er í liði með Bláskeggi og munar um minna.

Rauðgræni og Bláskeggur vilja halda í fullveldi Ævintýralandsins en vilja samt leyfa þjóðinni að kjósa um samkrull með öðrum þjóðum ef því er að skipta. Sammi krull vill auðvitað samkrull og sennilega Maddaman líka, þessi endurnýjaða sko, og þó, það fer sennilega eftir því með hverjum hún kemst í stjórn. En Rauðgræni vill ekki stjórna með Bláskeggi og Sammi krull er frekar á móti því líka og vill frekar vera með Rauðgræna þótt Rauðgræni sé lítið fyrir samkrull og Maddaman verður að bíða við landganginn eins og vanalega, brosa til hægri og vinstri, og allir þessir litlu er ekkert með frekar en fyrri daginn, enda algjörar aukapersónur.

Við fáum svo auðvitað að ráða þessu öllu þegar þar að kemur. Fólkið fær að kjósa. Eða fær fólkið kannski ekki að kjósa um neitt nema Rauðgræna, Samma krull, Bláskegg og Maddömu? Jæja, þetta hlýtur þó að enda vel eins og alltaf í Ævintýralandi. Allir hafa iðrast, endurnýjast, breyst og batnað og hamingjan mun hellast yfir þjóðina - eina og sér eða í samkrulli með öðrum. Alvaldur blessi Ævintýraland.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband