22.3.2009 | 11:47
Ratað í háska í Reykjavík
Alltaf sama sagan með þetta veður í Reykjavík. Litlu mátti muna að það yrði mér að fjörtjóni þegar vindhviða og brjálaður éljabakki steyptu sér yfir vélina í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli seinni partinn í gær og flugstjórinn varð að hætta við á síðustu stundu enda ekki alveg ljóst hvert vélin stefndi. Fyrr um daginn hafði verið ágætis veður, svo þegar ég gekk út á flugvöll var stórbrotin slydda sem gerði mig gegndrepa og síðan þessi ákafi éljagangur með ofsa og hviðum.
Best að taka saman í stuttu máli upplifun mína í vélinni. Kallað var út á réttum tíma en eitthvað þurfti að bíða eftir seinum farþega eins og stundum gerist. Síðan var hafist handa við afísingu vélarinnar og brottför dróst um tíu mínútur eða svo. Á brautarenda virtist sem flugstjórinn væri á báðum áttum. Hann gaf í og vélin hristist en fór ekki af stað. Dimm él voru úti. Ég leit glottandi á sessunaut minn og sagði að nú væri það tvísýnt og flugmaðurinn sæti sveittur við að reikna út lífslíkur okkar.
Skyndilega rauk vélin af stað. Vatnið frussaðist undan hjólunum og rétt áður en mesta hraða var náð reif vindhviða í vélina og svipti henni áþreifanlega til á blautri brautinni og flugstjórinn tók þá hárréttu ákvörðun að hemla og hætta við flugtak. Það var því bremsað með rykkjum og skrykkjum og öskrandi élin hristu allt og skóku. Ég leit á sessunaut minn og... hætti við að segja eitthvað sniðugt.
Allt gekk vel í annarri tilraun og flugið var fínt. Maður fékk svo yl í kaldan kroppinn þegar vélin steypti sér niður í Eyjafjörðinn og síðdegissólin tók brosandi á móti okkur og Akureyri að vanda fögur og kyrr sem aldregi fyrr. Heima er bezt.
Athugasemdir
Gamla góða Akureyrin! Ekki laust við að maður hugsi stundum til hennar þegar það er einhver bölvuð hundslappadrífa hérna í höfuðborginni. Ætli það fari ekkert að losna staða sögukennara við MA eftir tvö ár eða svo :)
Siggeir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 12:42
Eyjafjörðurinn er vinur minn, gott að þér varð ekki meint af háskaför
Brynja (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.