16.3.2009 | 21:51
Fótboltatrúin
Bókstafstrúin birtist víða og í boltanum er hún að verða frekar þreytandi. Menn eru dregnir í dilka eftir því hvaða liði þeir halda með í enska boltanum og átrúnaðurinn er svo heitur að þröngsýnin verður nánast hlægileg ef ekki sorgleg. Þannig hitti ég tvo karla á laugardagsvöldið og bað annar mig um að votta hinum samúð mína og varð mér ansi hverft við og klappaði gaurnum ósjálfrátt á öxlina en fljótlega kom í ljós að þarna var fylgismaður Liverpool að spila með aðdáanda Manchester United. Ekkert var hægt að ræða við þessa náunga því að liðin höfðu víst mæst fyrr um daginn og annað skipti ekki máli.
Þetta er svo sem ekkert í fyrsta sinn sem ég tala við karla með tuðru á heilanum. Raunar hitti ég svoleiðis hóp í alltaf hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum í þrektíma og þar byggist umræðan á yfirdrulli, einelti, háðsglósum og skotum í tengslum við trúfélögin þeirra. Sumir trúa á Liverpool, aðrir á Manchester United, fáeinir á Arsenal og Chelsea og jafnvel heyrist mér einhver tala um Tottenham. Menn erum með rörsýn á sitt lið, sjá aldrei ljósa punkta hjá öðrum liðum, bera ekki lof á aðra leikmenn, sigur andstæðinga er aldrei verðskuldaður og það er annað hvort grís eða dómarahneyksli ef liðið manns tapar.
Þetta hljómar óskaplega líkt íslenskri flokkspólitík, liðshollustan er algjör, bókstafstrúin yfirþyrmandi. Ekki þýðir að rökræða við svona trúarofstækismenn enda kasta menn óspart glósum og hnútum á milli sín og spyrða saman liðið og áhangendur þannig að sá sem heldur með tapliðinu er aumingi. Æ, þetta hljómar ekkert voðalega þroskað eða uppbyggilegt en sjálfur hef ég samt lengi haft gaman af fótbolta. Um eða upp úr 1970 ákvað ég að halda með Leeds, Wolves og West Ham (í þessari forgangsröð) og fljótlega fékk ég líka taugar til Manchester United. Verst líkaði mér við Liverpool, WBA og Birmingham ef ég man rétt.
Nú til dags horfi ég sjaldan á leiki en nýt þess að horfa á flottan bolta og spennandi viðureignir. Skiptir ekki öllu hvað liðin heita því þetta eru engin trúarbrögð fyrir mér. Auðvitað tekur hjartað smá kipp þegar gömlu liðin mín standa sig vel og ég viðurkenni að mér leiðist ekki þegar Liverpool tapar. Til allrar hamingju hef ég ekki aðgang að sjónvarpsstöðvum sem sýna alla þessa leiki því þá yrði kannski lítið úr helgunum. Ég kíki hins vegar stundum á gamla leiki á ESPN og í kvöld var t.d. leikur Leeds og AC Milan frá 1973 þar sem Leeds beið óverðskuldað lægri hlut í meistarakeppninni. Um daginn sá ég Leeds einmitt tapa fyrir Bayern Munchen í úrslitum UEFA keppninnar sama ár þótt mínir menn væru miklu betri. Peter Lorimer var uppáhaldið, alveg frábært að sjá hann. Norman Hunter, Johnny Giles, Allan Clarke, Eddie Gray og Joe Jordan voru líka svakalega góðir og fleiri mætti nefna. Fótboltinn var villtari og frjálslegri en í dag. Ekkert ofskipulag, ekkert gel, ekkert væl, engin ofurlaun. Bara karlmannleg átök og sannur íþróttaandi.
Athugasemdir
þú átt gott, þetta er stundum yfirþyrmandi.
Helga Kristjánsdóttir, 17.3.2009 kl. 04:16
Ekki má gleyma Billy Bremmer (Bremner?) Hann var seigur og fastur fyrir. Man þó að okkur þótti hann ljótur!
Þorsteinn (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 21:07
Já, ég gleymdi Billy Bremner eiginlega viljandi. Hann var nefnilega ekki bara lítill og ljótur eins og okkur minnti heldur líka grófur og skapvondur og bara skítlélegur, að minnsta kosti í þessum leik sem ég sá. Sennilega var hann baráttuhundur sem skilaði oft sínu, svona týpískur vinnuhestur. Annars loddi það lengi við mína menn að vera dálítið grófir á köflum og áhangendurnir þóttu líka vandræðagripir.
Stefán Þór Sæmundsson, 19.3.2009 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.