8.3.2009 | 21:53
Hommar í felum og fagrar konur
Þjóðfélagið er gegnsýrt græðgi og valdabaráttu. Samtrygging, heiður ættarinnar, heiður hússins. Hagsýnishjónabönd. Bullandi framhjáhald. Brotin sjálfsmynd. Útskúfun. Tannhvassar tengdamömmur og rýtingar í bak - og fyrir. Fagrar og grimmar konur. Slóttugar. Enda hlýtur eitthvað að vera bogið við konur sem geta vafið karlmönnum um fingur sér. Hommar í felum. Hetjur. Karlmenn. Við grátum ekki. Gírugir fóstrar og gustmiklar hjákonur. Faðirinn gerir upp á milli barnanna. Og þó. Kannski er það skynsemin sem ræður. Móðirin eggjar og hvetur til hefnda. Illmenni á kreiki. Níðvísur. Taðskegglingar. Hetjur hoppa yfir spjót eða grípa það á lofti. Flókin málaferli eru leyst með því að skora á hólm. Þjófnaður er verri en morð og vei þeim sem vænir annan um samkynhneigð. Rassgarnarendar merarinnar stangaðir úr tönnum. Bláum brókum kastað. Atgeirinn rekinn í gegn og mönnum kastað út í ána. Eldur kveiktur. Á að sjóða súpu? Útlimir fjúka og spakmælin hrjóta af vörum. Gott að losna við slæmar hendur. Og peningar eru sjaldnast til góða enda taldi höfuðið tíu þegar það fauk af bolnum. Svo má alltaf sættast, ekki síst þegar flott tsjellíng er í boði!
Njála er málið. Lesið hana. Aftur. Og aftur.
Athugasemdir
Hahaha! Ég kveikti ekki á perunni fyrr en þú kjaftaðir frá í lokin. Hélt fyrst að þessi pistill væri um fótboltaleikinn sem hommar léku um helgina á móti gagnkynhneigðum fyrirmennum, síðan var ég nokkuð viss um að þú værir að skrifa um Hilmi Snæ og bastarðinn sem hann mun brátt eignast.
Siggeir (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.