Tortryggni

Mér hættir til að trúa því besta upp á fólk. Það kallast víst að vera bláeygur, einfaldur, auðtrúa eða þaðan af verra. Hins vegar tortryggi ég oft fyrirtæki og stofnanir sem ég sé þá í líki gírugra véla með ómennskuna hvínandi í hverju horni. Sennilega er þetta vottur af ofsóknarkennd og vitaskuld frekar einkennileg árátta þar sem fyrirtækin eru jú fólkið sem í þeim starfar og ég kveðst yfirleitt treysta fólki. Með þessa þversögn í farteskinu fór ég í ónefnda matvöruverslun á dögunum, keypti helstu nauðsynjar í nokkra poka og greiddi fyrir upphæð sem ég hélt að tilheyrði bara jólainnkaupunum.

Ekki grunaði ég starfsfólkið um græsku en ég leit þó vandlega yfir arðmiðann (ætli það heiti ekki kassakvittun núna) þegar ég var kominn út í bíl. Rakst ég fljótt á vöru sem hafði verið stimpluð þrisvar inn en ég keypti aðeins eina pakkningu enda nægir hún í marga mánuði. Ég skundaði því aftur inn í verslunina og lyfti eilítið brúnum þegar ég sá að á öðrum hverjum kassa var frambjóðandi fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk í kjördæminu en svo hristi ég höfuðið og fékk lausn minna mála og allt í góðu. Endurgreiðslunni fylgdu brosviprur og óskir um bjarta framtíð. Ég trúi því að þetta hafi verið kerfismistök, ekki vísvitandi rán eða ill meðferð á viðskiptavini.

Hins vegar veit ég ekki alveg hverju ég á að trúa upp á ónefnt flugfélag. Ég átti í fórum mínum gjafabréf sem var að renna út fljótlega. Aðstæður höguðu því þannig að mér fannst upplagt að kaupa flugfar til norrænnar höfuðborgar á ákveðnum tíma. Var ég búinn að skoða tilteknar dagsetningar og leist nokkuð vel á verðið, svona miðað við það sem gengur og gerist hjá flugfélaginu. Best að demba sér bara á þetta og nota gjafabréfið. En viti menn, eftir að ég setti gjafabréfið inn og sló inn sömu dagsetningar þá hafði heimferðin hækkað um andvirði helmings gjafabréfsins og í raun étið það upp ef við ætluðum að ferðast tvö. Tja, hvað var nú að gerast? Átti að refsa mér fyrir að eiga gjafabréf? Var inneign mín einskis virði? Var félagið að snuða mig?

Sjálfsagt eru á þessu eðlilegar skýringar og þær líklegastar að skyndilega (einmitt þegar ég sló inn númer gjafabréfsins) hafi verið afar lítið sætaframboð á þessum tiltekna heimferðardegi og ódýrustu sætin klárast í einu vetfangi. Ég nennti að minnsta kosti ekki að æsa mig, ullaði bara framan í bókunarvélina og valdi aðra dagsetningu og fékk þannig ferðina á því verði sem ég óskaði. Ég harðneitaði að láta hafa mig að fífli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já! Það er rétt Stefán! Ekki láta kerfið sigra!

Siggeir (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 21:07

2 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Jamm, kúkum á kerfið. Betra slagorð hefur varla verið sett fram um dagana.

Stefán Þór Sæmundsson, 8.3.2009 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband