Spennan magnast

Dagurinn nálgast. Spennan magnast. Ótti og angist. Yfirlið í mótun. Svitinn perlar. Jaxlar bruddir. Hroði í lungum. Dofi í fingrum. Höfuð klofið. Heilinn steiktur. Sálin tætt. Tryllt augnaráð. Tungan skorpin. Varir bólgnar. Dáðleysið algert. Helber kvíði. Einskær skelfing. Engin von. Örlítil von. Eygir von. Á von. Von og óvon. 

Von.

Tignarlegt orð. Von. Eins og Heinrich von Hettenfeld. Andstæðan er svo vonleysi eða vonbrigði. En það er nauðsynlegt að halda í vonina. Von.

Á sunnudaginn verður dótturdóttur minni gefið nafn. Ég vona að það verði ekki herfilegt, hvorki átakanlega gamaldags og stirt eða óhemju nýmóðins og vemmilegt. Með góðum vilja gæti ég skrifað langan lista yfir nöfn sem ég vona að krílið þurfi ekki að bera. Nefni bara nokkur dæmi.

Gæska Gjöll. Járngerður Efemína. Ljúfa Ljós. Snæhildur Snotra. Örgumleiða Æsberg. Ríta Lín. Dís Ester. Ósk Ýr. Lind Ýr. Sól Hlíf. Mist Eik. Bóthildur Brákasnót. Hortensía Hrollvekja. Vandalína Lýsistrata. Satanía Surg. Og svo framvegis.

Möguleikarnir eru svo óteljandi. Skiljanlega er maður kvíðinn. En innst inni treysti ég dóttur minni, þótt hún sé í íslenskunámi í HÍ. Ég man hvað mamma var áhyggjufull þegar hún stóð í sömu sporum. Þá var ég að hefja íslenskunám og til stóð að skíra dóttur mína, þá hina sömu og nú hyggst nefna dóttur sína. Mútta óttaðist að þetta yrði eitthvað frumlegt eða sótt í fornsögur. O, jæja. Ætli hún hafi ekki orðið sátt við niðurstöðuna og ég býst við að verða það líka núna. Það er samt vissara að óttast hið versta til að verða örugglega ánægður með það næstbesta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband