22.2.2009 | 20:57
Hroki og meðvirkni
Sumir nota (eða misnota) hass, amfetamín eða kókaín, aðrir gas, lím og þynni. Margir sötra á gömlu rauðvíni, viskíi eða koníaki, aðrir reyna að fá alkóhól úr rakspíra, skósvertu eða brennsluspritti. Einhverjir reykja tóbak og aðrir troða því í nef eða vör. Kaffi er þjóðardrykkur en til eru þeir sem vilja ekki koffín. Ýmsir nota fæðubótarefni en aðrir borða fjölbreytt fæði. Sumir eru feitir, aðrir mjóir. Sumir íhald, aðrir kommar. Sumir streit, aðrir hommar. Einhverjir halda með Liverpool en aðrir með Leeds. Hvað svo sem maður tekur sér fyrir hendur eða hvaða skoðanir sem maður hefur þá eru þetta ákveðnar upplýsingar um mann sjálfan. Fólk notar svo þessar upplýsingar til að meta mann eða dæma.
Fordómar eru auðvitað af hinu illa og slæmt þegar fólk stimplar einstaklinga og dæmir þá út frá misgáfulegum gjörðum. Við ættum t.d. ekki að úthúða reykingafólki þótt sjálfsagt sé að amast við þeim hvimleiða ávana að reykja. Hroki er annað áberandi þjóðareinkenni og oft er hann ekkert annað en útþanið einstaklingsfrelsi. Viðhorfið er það að gera það sem manni sýnist. Það kemur ekki öðrum við. Ég held samt að meðvirknin sé versta þjóðarmeinið.
Í meðvirkninni felast einnig afskiptaleysið og agaleysið sem svo mjög hefur grafið undan siðferðisvitund og samtakamætti þjóðarinnar. Löngum hefur verið svalt að svíkja undan skatti, ekki síst í hópi þeirra sem hafa mestu tekjurnar. Umferðarlög eru fyrir aumingja, áfengislöggjöfin grín. Það er töff að mæta til vinnu eða náms á mánudegi og hafa skemmt sér svo vel um helgina að maður man lítið eftir henni. Tónlistarmenn eiga að lifa hátt og hratt og nota dóp. Sjálfsagt er að stelpur noti líkama sinn sem aðgang inn í samkvæmi og klíkur. Ritgerð er best að skrifa með því að taka eitthvað beint af netinu og setja í eigið verk. Reki maður bílinn sinn utan í annan á bílastæði er best að forða sér. Og það er fyndið að birta myndir af illa drukknum eða áfengisdauðum vinum sínum á facebook eða öðrum opinberum netmiðli.
Meðvirknin með Pappírs-Pésunum (útrásarvíkingunum) varð okkur auðvitað til óbætanlegs tjóns og margir lifa enn í afneitun og sjálfsbekkingu og neita að taka fyrsta skrefið, að viðurkenna mistök sín, iðrast og reyna að bæta ráð sitt. Svo er alltaf spurning hvenær á að tala um mistök og hvenær ásetning eða fíkn. Það eru varla mistök þegar þjóðþekktur fíkniefnaneytandi verður einu sinni uppvís að neyslu eða viðskiptum. Mistökin eru væntanlega þau í hans augum að láta þetta komast upp. Ég hef lengi hrærst í heimi framhaldsskólanema og veit að ákveðnar hljómsveitir voru bannaðar á sumum skólaböllum vegna fíkniefnaneyslu hljómsveitarmeðlima en annars staðar og kannski víðar var meðvirknin í gangi og ekki fett fingur út í þennan lífsstíl. Fólk er ótrúlega lagið við að réttlæta, afneita, dansa með eða veigra sér við afskipti þegar áfengis- og fíknefnaneysla ungmenna og fyrirmynda barnanna okkar er annars vegar. Í raun ætti þessi þáttur að vera einfaldur: Skólaböll eiga að vera vímuefnalaus. Hljómsveitir sem spila á skólaböllum eiga að vera vímulausar. Það er nóg af vímutengdum skemmtunum annars staðar og nemendur eiga þá sjálfsögðu kröfu að fá að þroskast og skemmta sér í öruggu umhverfi.
Jæja, upphaflega ætlaði ég að tala um muninn á viðhorfi almennings til lítt þekkts ólánsfólks og fíkla sem misnota efni á borð við gas og rakspíra og svo fræga fólksins sem sniffar kók eða spítt. Einhvers staðar fór ég dálítið út af sporinu og læt þetta nægja að sinni.
Athugasemdir
Þetta er nú samt mjög góð grein hjá þér, þrátt fyrir að fara út af sporinu
Auðvitað erum við allt of meðvirk og látum ýmislegt sem vind um eyru þjóta í stað þess að gera eitthvað í málunum. En er ekki algengur hugsunarháttur að telja að ein menneskja skipti ekki sköpum í stórum málum og gleyma því að ''margt smátt gerir eitt stórt''.
TARA, 22.2.2009 kl. 21:25
Er þetta vímuefnabann ástæðan fyrir því að nemendur Menntaskólans neyðast til að hlusta á Jónsa í svörtum fötum ár eftir ár á öllum sínum stærri skemmtunum :) ?
Siggeir (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 12:35
Tja, hvað skal segja, Geiri minn? Það er engin neyð að fá þá ágætu gleðisveit Í svörtum fötum á 16. og 17. júní ár hvert. Jónsi og félagar mættu líka vera oftar 1. des. en mér skilst að Land og synir hafi verið hinir prúðustu. Ég ætla ekkert að minnast á verstu sveitirnar í bransanum. Sumar eru nú hættar og ég man ekki betur en annað hvort doktorinn eða misterinn í ónefndri gleðisveit hafi komið fram opinberlega og játað fíkniefnavanda sinn. Svo fannst mér alltaf góð saga af Pöpunum sem komu til að spila á árshátíð MA. Þeir voru að ganga frá daginn eftir og þá heyrðist einn tala um hvað það hefði verið gaman. Hann hefði meira að segja gleymt að drekka þessa tvo bjóra sem hann hafði með sér upp á svið því allir skemmtu sér svo vel edrú að hann þurfti ekkert að drekka sig í gírinn.
Stefán Þór Sæmundsson, 23.2.2009 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.