Sóðalegur konudagur

Tveir sóðasneplar eru bornir í hús á Akureyri á miðvikudögum og eru þeir kenndir við dagskrár enda má einhvers staðar í þeim finna sjónvarpsdagskrá ef grannt er skoðað. Ekkert sóðalegt við það svo sem. Fyrst og fremst eru þetta auglýsingarit og allt gott og blessað að vekja þannig athygli neytenda. Sóðaskapurinn felst hins vegar í málfari, stafsetningu og greinarmerkjasetningu sem iðulega hefur verið fyrir neðan allar hellur í þessum ritum og uppsetning og útlitshönnun æði misjöfn líka.

Ritin sem þröngvað var inn um lúguna hjá mér í dag voru löðrandi í konudagstilboðum og ekki voru þau öll falleg. Okurbúllur sem kenna sig við snyrtivörur og heilsulind öskra á mann með hástafaauglýsingu: GEFU (sic!) ELSKUNNI ÞINNI ÞAÐ SEM ALLAR KONUR ÞRÁ, GÓÐAN ILM. Aha, hljómar ekki svo illa. Ég ætti að geta framkallað góðan ilm handa henni án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar. En sjálfsagt er verið að tala um einhver rándýr ilmvötn en ekki karlmannlega angan!

Síðar er orðrétt sagt að "VORLOOKIN" séu komin í hús. Ha? Allt í lagi að sletta en vor er engin sletta. Og er ekki dálítið vafasamt að segja að lúkkin séu komin í hús? Svo er talað um guðdómlegan ilm sem allar konur verði að eignast. Tískudagar eru auglýstir 19-22 febrúar, að sjálfsögðu ekki með punktum til að tákna raðtölurnar 19. og 22. febrúar. Að lokum er boðið upp á fría förðun FÖS- OG LAUGARDAG MILLI KL 15 - 16. Aldrei hef ég heyrt talað um fösdag. Skammstafanir eins og kl. eiga að vera með punkti og hér er ekki verið að tala um 15 til 16 og því á að nota og en ekki bandstrik í milli kl. 15 og 16.

Þetta er bara örlítið dæmi af hinum vikulega sóðaskap en eitt er víst að auglýsingar af þessu tagi örva mig ekki til að kaupa konudagsglaðning hjá þeim fyrirtækjum sem bera slíkt á borð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín M.

Ég held það sé mikið að gera hjá þér. Það hlýtur að vera mikið að gera hjá þér! Því þegar það er mikið að gera hjá mér, eins og þegar ég er í prófum, þá lengjast alltaf kaffipásurnar mínar því ég þarf að fara yfir stafsetningu og málfræði í svona sorpritum.

Af hverju þarf konan góðan ilm? eru þeir að segja að konan þín lykti illa?

Katrín M., 19.2.2009 kl. 10:39

2 Smámynd: TARA

Æ,æ, til hvers að eyða tímanum í að ergja sig yfir lélegri stafsetningu og villum í svona sneplum ? 

Fórstu og keyptir blóm eða ilmvatn eða what ever  handa konunni þinni ?

TARA, 22.2.2009 kl. 21:20

3 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Það er rétt, best að vera ekkert að ergja sig. Reyndar fór ég og keypti blóm og konfekt handa frúnni og fékk einhverja afsláttarmiða út að borða og á snyrtistofu. Þannig að þetta varð alls ekkert sóðalegur konudagur!

Stefán Þór Sæmundsson, 23.2.2009 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband