15.2.2009 | 21:37
Bitið á jaxlinn
Engin furða þótt maður hafi verið þögull. Ég sá nefnilega fyrrverandi forsætisráðherra í Hardtalk, síðan heyrði ég Ingva Hrafn afneita honum og biðjast afsökunar á því að hafa kosið þennan foringja sinn í undarlegum sjónvarpsþætti sem átti víst að vera viðtal við Kristján Þór og þá sá ég hinn sama fyrrverandi forsætisráðherra leika sér með Sveppa og Audda. Einnig hef ég ekki komist hjá því að sjá glefsur úr bréfi Davíðs og greinar Agnesar og ummæli Ólafs Ragnars og nú síðast hótun Jóns Baldvins um endurkomu. Einnig mætti nefna hvalveiðivandræði Steingríms og orð og gjörðir ýmissa embættismanna en vegna þess að ég velti mér ekki upp úr pólitík og hef aldrei talað illa um nokkurn mann í bloggheimum og neitað að taka þátt í persónulegu skítkasti þá hef ég setið á mér. Mig langar samt að ítreka kröfu mína um samstöðu þjóðarinnar og að metorðagirnd og flokkshagsmunir fái hvíld. Og manni finnst það óneitanlega skjóta skökku við ef Davíð, Ólafur Ragnar og Jón Baldvin eru enn í aðalhlutverki á hinu pólitíska leiksviði. Hvenær stöðvaðist tilveran?
Jæja, eftir hverju er maður svo sem að bíða? Íslendingurinn er stoltur maður á miðjum aldri sem ryðst áfram með öllum ráðum og dáðum. Hann lætur engan segja sér fyrir verkum. Hann hugsar um eigin hag og sæmd sinna nánustu eins og persóna í Íslendingasögu. Samvinna er eitthvað sem honum finnst vera til trafala. Eitthvað svo sænskt og sósíalískt við það. Best að drífa bara í hlutunum og keyra yfir allt og alla eins og persóna í reyfara eftir Stefán Mána. Algjör óþarfi að hugsa um afleiðingarnar. Ef einhver situr eftir með sárt ennið er það honum sjálfum að kenna. Hann er bara aumingi. Íslendingurinn þarf vitaskuld ekki að biðjast afsökunar á einu eða neinu og ekki sýna auðmýkt eða lítillæti undir nokkrum kringumstæðum. Hann er harðduglegur og á skilið að uppskera vel og sletta svo rækilega úr klaufunum á milli vinnutarna eins og persóna í bók eftir Einar Kárason.
Já, svei mér þá, ég held að Íslendingurinn sé banvæn blanda af Badda í Djöflaeyjunni, Óðni í Ódáðahrauni, Gunnari á Hlíðarenda, Íkarosi í grísku goðafræðinni og öðrum ámóta persónum sem ryðjast áfram og fljúga hátt án þess endilega að sjást fyrir. Það er bara gallinn við reynsluna af þessu flugi öllu saman að á endanum kemur fallið. Þá er bara að bíta á jaxlinn og hefna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.