Víðsýni og samstaða

Mikið er nú alltaf traustvekjandi að lesa Moggann, heyra glefsur úr skoðanakönnunum, renna yfir vefmiðla og fá þannig innlit í þjóðarsálina. Ég hafði verið sleginn þeirri blindu að þjóðin vildi gefa þeim mönnum og flokkum frí sem hefðu verið í forsvari í hruninu mikla. Jafnvel setja flokkapólítík í salt. Talað var um aukið siðferði, nýja hugsun, önnur gildi, meiri samstöðu, endurmat á lýðræðinu og annað í þeim dúr en auðvitað var það bara stundarbrjálæði. Í þessum hamagangi fór fylgi einkavina- og frjálshyggjuflokksins aðeins niður í 20-25% en er til allrar hamingju komið aftur yfir 30%.

Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega fórnarlamb aðstæðna og alls ekki gerandi í því að framfylgja eftirlitslausum kapítalisma eða ábyrgur fyrir stöðu þjóðarinnar í dag. Hann hefur nánast ekkert verið við völd undanfarin ár - eða hvað? Samfylkingin var vond við hann og svo voru ytri aðstæður óheppilegar. Þjóðin skilur þetta og vitaskuld mun þriðjungur, ef ekki helmingur, landsmanna fylkja sér um flokk sem heitir svona fallegu nafni og hefur ávallt átt svo föðurlega foringja. Íslendingar eru skynsamir og láta ekki vinstri-eitthvað eða félagshyggju-eitthvað blekkja sig enda vill hver sinn hag sem mestan og bestan.

Hlutlaus blaðamennska, persónuleg bloggskrif, hatur á einstaka mönnum eða hópum, sleggjudómar og þröngir flokkshagsmunir munu að sjálfsögðu ekki blandast neitt í skrifum manna, sérstaklega ekki í Mogganum. Þar hefur frá upphafi verið tekið fagnandi í þá fórnarlund Flokksins að draga sig í hlé um stundarsakir til þess að sýna þjóðinni hvað allir hinir flokkarnir eru dæmalaust miklir kjánar og alveg foringjalausir. Víðsýnum og jákvæðum fyrirsögnum og pistlum hefur verið dembt yfir þjóðina og enginn hefur reynt að kenna öðrum um eitt eða neitt eða dregið umræðuna niður á plan bókstafstrúar, sérhyggju og eiginhagsmuna. Það er af og frá að reynt hafi verið að ýta undir ágreining eða niðurbrot af öðru tagi.

Til allrar hamingju ætla ráðamenn og þjóðin öll að standa saman, bera klæði á vopnin og vinna sig út úr vandanum. Landið er auðugt og tækifærin mýmörg. Við stöndum frammi fyrir tímabundnum vanda en með víðsýni og samstöðu tekst okkur að rétta úr kútnum. Þjóðin hefur þroskast og fer ekki að láta flokkapólitík eyðileggja uppbyggingarstarf. Svo eru þetta bara örfáir mánuðir - síðan getum við kosið Flokkinn okkar aftur og skriðið heim í öryggið og hlýjuna. Já, höldum nú áfram að svífa á vængjum umburðarlyndis og víðsýni, samstöðu og náungakærleiks. Sýnum alheiminum hvað við höfum lært mikið og þroskast. Áfram Ísland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér sýnist við vera að hugsa á svipuðum nótum í dag í blogghugleiðingum okkar.

Þess fyrir utan: Mikið áttu fallegt barnabarn. Var að skoða myndir og á varla orð til að lýsa hvað stúlkan er dásamleg!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 15:11

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Margblessaður Stebbi!

Góður og vel skrifaður pistill eins og þín var von og vísa, kaldhæðin tónninn sem lætur á sér kræla, skemmir heldur ekki fyrir!

En eins og ég var eitthvað að blaðra inni hjá frú Önnu í leyfisleysi, þá kennir reynslan okkur, að skoðanakannanir eru oftast bara mælistika á líðan þjóðarsálarinnar á ákveðnum tímapunkti, ekki heillagur sannleikur sem stendur sem stafur á bók, þó vissulega séu þessar tölur núna í ljósi tíðarandans og kreppunnar, umhugsunarverðar!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 00:29

3 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Hjartanlega er ég sammála þér, Anna. Stúlkutetrið er bráðfallegt og skýrt og hlakka ég mikið til að sjá þá stuttu aftur.

Ég þakka hlý orð, Magnús Geir. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og heilt flóð tónlistar streymt úr hátölurum síðan þú varst poppsérfræðingur minn í helgarblaði Dags. Það mátti sannarlega poppa aðeins upp í pólitíkinni.

Annars reyni ég að forðast pólitík og blogga helst ekki um hana. Fólk verður svo öfgafullt og reitt þegar eitthvað er sagt sem stangast á við skoðanir þess, sérstaklega ef sanntrúað og flokksbundið fólk á í hlut. Ég sé margt jákvætt við einstaklingsfrelsi og frumkvæði, einnig samhjálp og félagshyggju, mátulega forræðishyggju og þjóðerniskennd og þannig mætti lengi telja. Þess vegna rúmast ég ekki í neinum flokki.

Stefán Þór Sæmundsson, 2.2.2009 kl. 21:18

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm, ég þori nú varla að hugsa hve þetta er orðið langt síðan, en samt erum við bráðungir mnenn, þú reyndar örlítið eldri, en já hálf lýgilegt að þú sért orðin afi strákurinn!

ER sjálfur um margt "pólitískur vindhani" þó ég viðurkenni að hafa meira umburðarlyndi gagnvart sumum flokkum og sjónarmiðum en öðrum. En það er nú bara eins og gengur. Hins vegar er lífið allt svosem pólitik, hef til að mynda lent í jafn hatrömmum deilum um ágæti tónlistar eins og skoðunum á virkjunum eða Vaðlaheiðargöngum!

Annars er gaman að nefna það Stebbi, að þú ert þriðji gamli "Dagskrafturinn" sem ég finn hér á blogginu. ÉG og Auður litla Ingólfs höfum lengi verið bloggvinir og nú fyrir skömmu uppgötvaði ég að Stjáni Loga, fyrsti ljósmyndarinn sem vann fyrir mig ef mig misminnir ekki, er á blogginu líka. Lalli, tómas Lárus Vilbergsson, var þarna held ég líka á svipuðum tíma, en man það ekki alveg né hvort þú sjálfur hafir verið byrjaður þarna og hafir unnið með þessu fólki öllu!?)

Magnús Geir Guðmundsson, 5.2.2009 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband