Ung, gröð og rík

Ung, gröð og rík. Ég veit ekki af hverju þessi dægurlagatexti rifjaðist upp fyrir mér. Kannski þegar ég sá enn eina auglýsinguna frá ónefndum tölvuskóla á næstöftustu síðu Fréttablaðsins í gær. Þar er æsku- og útlitsdýrkunin sannarlega í öndvegi. Sextán einstaklingar glenna sig þvert yfir efsta hluta heilsíðunnar. Þeir virðast eiga það sammerkt að vera í kringum tvítugt, fjallmyndarlegt fólk af báðum kynjum, 170-185 sentimetrar á hæð og allir eru þessir einstaklingar í kjörþyngd eða rétt undir henni. Það er engu líkara en rjóminn úr víðfrægum, erlendum stúlkna- og drengjahljómsveitum sé þarna gleiðbrosandi samankominn enda skín víða í bert hold og sexý sveigjur.

Nú veit ég ekki hvort þessir nemendur eiga að vera að hefja nám eða ljúka námi við skólann. Í fyrra tilvikinu gætu skilaboðin verið þau að aðeins ungt og fallegt fólk í kjörþyngd fái inngöngu í skólann en í seinna tilvikinu er málið flóknara. Er hugsanlegt að með því að ganga í þennan skóla verði allir grannir og myndarlegir? Er þetta svona fyrir-eftir dæmi? Kannski hófu sumir nám sem bólugrafnar fitubollur en útskrifast með fyrirsætuútlit. Eða heltast hinir ómyndarlegu úr lestinni vegna þess að aðeins fólk af viðurkenndum fegurðarstaðli er fært um að komast í gegnum krefjandi tölvunám?

Bitur? Nei, nei. Þótt ég sé hvorki ungur né myndarlegur þá er þetta ekkert persónulegt. Mér finnst auglýsingin bara argasta tímaskekkja og skilaboðin röng. Lengi vel hefur ekki verið hægt að auglýsa bíla, ferðalög, mat eða nokkurn skapaðan hlut án þess að flagga ungu og myndarlegu fólki, helst fáklæddu kvenfólki. Ég hélt að neytendur væru löngu búnir að sjá í gegnum svona skrum og æsku- og útlitsdýrkun væri á undanhaldi, nú þegar rík þörf er fyrir skynsemi og gagnrýna hugsun, borgaravitund og samstöðu.

Í ljósi þessa finnst mér það falleg tilhugsun að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra þjóðarinnar.

Þá vona ég svo sannarlega að pólitískur rétttrúnaður, sem mér finnst jafn vondur og bókstafstrú og ámóta öfgar, spilli ekki björgunaraðgerðum stjórnvalda. Menn verða að hafa þroska til að hverfa frá svarthvíta veruleikanum og leika saman á litróf samfélagsins. Sættast við þjóðina og fylkja henni á bak við sig. Ekki ásaka, spilla, baktala, öfunda, svekkja sig og einblína á þrönga flokkshagsmuni.

En gott og vel, ég ætla ekki að fjasa um pólitík frekar en fyrri daginn. Í sambandi við aldurinn get ég hins vegar sagt, án nokkurrar beiskju þó, að það kom mér á óvart að uppgötva að í vinnuhópi sem skipaður var um nýjan og betri skóla er ég aldursforsetinn. Já, gamla brýnið, refurinn, reynsluboltinn, afi gamli. Jahérna. Mér finnst svo stutt síðan ég var einn af ungu kennurunum í skólanum en sjálfsagt er liðinn áratugur eða meira síðan það var. Ég er fyllilega sáttur við þetta en varð bara dálítið hissa. Alltaf gaman þegar eitthvað kemur manni þægilega á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm, PS & Co, pétur Stefáns fjöllistamaður og blúsari gerði þetta svo gríðarvinsælt um árið með Dóra Braga og fleirum góðum sér til fullþingis.

Og svo var hún ekki bara "Ung, gröð og rík", heldur líka "með fullt af seðlum", sem undirstrikar nú líklega hví þér datt textin í hug haha!?

Magnús Geir Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband