23.1.2009 | 11:41
Mjöðr ok slátr
Sjálfstæðið, þjóðtungan, samskipti kynjanna, hófsemi, sanngirni, frelsi og fleira hefur mér oft verið hugleikið. Ég rakst á smáleikrit sem ég samdi fyrir átta árum og fjallar það um pör á fjórum mismunandi skeiðum Íslandssögunnar. Það væri gaman að bera saman málfarið hjá þeim sem ég kalla nútímaparið 2001 og málfarið í dag. Kannski er nútímamálið gjörbreytt. Ég skoða það við tækifæri.
Þetta örleikrit er að finna á eftirfarandi slóð http://old.ma.is/kenn/stefan/leikrit2.htm en hér kemur smá bútur með samtali elsta parsins. Mér finnst upplagt að birta þetta á bóndadegi. Say no more. Gefum Hræreki og Járngerði orðið:
Hrærekur (hvass): Hvárt ertu ær orðin ok örvita, Járngerður Örgumleiðadóttir? Ek em maðr hungraðr ok þorstlátr. Í Óðins nafni, ek vil snimmhendis fá mjöð ok slátr.
Járngerður (auðmjúk): Hrærekur minn góðr. Slátrið er uppetið ok mjöðr sá es í keri folginn vas hefr ok drukkinn verit.
Hrærekur (vígalegur): Heiti ek á Þór til hefnda. Hjer hefr oss enum göruga drukk ok slátri öllu stolið verit. Hvar es vargur sá es þetta hefr gjört? Skal ek hann sundr slíta.
Járngerður (vandræðaleg): Sjáumk öngvan varg í húsum várum en hitt veit ek at húsbóndi minn góðr drakk upp allan mjöðinn undr aftan í gær. Hina sömu leið fór allr matr ok heiti ek nú á Freyju at fylla hér aska og ker öll.
Hrærekur: Kerling! Segir þú at sökin sé mín? Ert þú hið mesta forað og mun ek eigi vilja deila rekkju meðr þér lengr - nema í mjök bráðu hallæri.
Járngerður (snúðugt): Far þú þá til frillu þinnar svá sem þú ert vanr en svá segir mér hugr at hún taki þér eigi örmum mjök opnum.
Hrærekur (snýr sér að salnum og fórnar höndum): Harabanar! Svá sýnisk mér at í óefni sé komit ok sannask at köld eru kvenna ráð. Allnóg mun af kvinnum hjer í heimi ok nefni ek Frey til vættis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.