Litið út um ljóra

p1160006.jpg Ég leit út um stofugluggann síðastliðinn föstudagsmorgun og aldrei þessu vant var ég með myndavél í grennd við hægra augað og ýtti því á þar til gerðan takka. Útkomuna má kalla síðbúna jólamynd en það fór heldur lítið fyrir jólasnjónum eins og flestir vita. Nú er hins vegar norðlenskur vetur eins og hann gerist bestur og snjórinn fegrar allt og lýsir upp umhverfið. Meira að segja aspirnar í nágrenninu voru næstum fallegar svona hrímhvítar.

Yfirleitt er ég mótfallinn öspum í íbúðahverfum og get haft allt á hornum mér út af þessum reisulegu trjám. Þetta gildir ekki síst síðsumars þegar skrímslin skyggja mjög á sólina og á haustin þegar maður þarf að raka laufin. Sú ösp sem stendur næst minni lóð er rétt sunnan lóðarmarka og að sjálfsögðu fjúka öll laufin inn í garðinn hjá mér. Laufin falla víst aðallega í sunnan átt.

Við Akureyringar búum svo vel að geta á fimm mínútum skroppið upp í Hlíðarfjall og skellt okkur á skíði. Nægur er snjórinn. Drengurinn skemmti sér vel á bretti á laugardaginn. Helgina áður fórum við feðgar en þá var slæmt skyggni ég vissi aldrei hvort ég var að koma eða fara eða renna upp eða niður. Endaði þetta með tveimur byltum eða svo, sem er frekar sjaldgæft í seinni tíð eftir að maður hætti að mestu að eltast við hengjur og fara í loftköstum. Heljarstökk aftur fyrir mig hef ég t.a.m. ekki tekið viljandi í mörg herrans ár.

Þorrinn nálgast og allt lítur þetta vel út. Ég er að sjálfsögðu búinn að þjófstarta og hef verið að stelast í súrmetið. Eftirrétturinn í kvöld var hápunkturinn til þessa. Þá bauð ég upp á hræring með súru slátri og betri mat hef ég ekki fengið á þessu ári. Yfirleitt hef ég setið einn að kræsingunum en sonur minn lét slag standa og fékk sér slettu og var bara hrifinn. Hólmgeir heitinn langafi hefði aldeilis verið ánægður með drenginn en þennan ágæta spónamat borðaði ég oft með honum þegar ég var pjakkur. Það er varla til hollari matur en svona hræringur úr köldum hafragraut og skyri og ætti að markaðssetja þetta sem prótínbombu. Og ekki er slátrið heldur neitt slor, svona líka gallsúrt og mátulega hvítt af mör. Já, það eru sæludagar framundan í mat þótt reyndar hafi verið nóg af kræsingum í skólanum núna í próftíðinni en það hafa aðallega verið saumaklúbbstertur og annað sætmeti sem telst varla hollt til lengdar.

En mikið vorkenni ég ættingjum og vinum erlendis. Varla er mikið um súrt slátur hjá bróður mínum í Danmörku eða móðursystur minni í Svíþjóð eða Brynju og fjölskyldu. Og hvað með matargatið Arnar Má á Spáni? Nei, ekki vildi ég búa erlendis á þorranum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mikið rétt, lítið um súrmeti hér, hinsvegar vann ég vinning þegar ég uppgötvaði sænskt kesella sem er ekki ósvipað skyri og því get ég neytt hrærings upp á hvern dag, biti af lifrapylsu væri stundum vel þeginn,  Hræringur er ekki fallegur matur en réttur sem tengist fallegum minningum, minnir mig einmitt á ljúfar matarstundir með ömmu minni með rás eitt í bak.

Brynja (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:39

2 Smámynd: Eyrún Huld Haraldsdóttir

Hmmm - ég held mig við harðfiskinn og hákarlinn :) Ég er lélegur þorrablótsgestur...

Eyrún Huld Haraldsdóttir, 22.1.2009 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband