18.1.2009 | 13:57
Lottó lífsafkomunnar
Félagi minn keypti bíl fyrir rúmu ári og tók lán upp á 2 milljónir. Afborganir voru viðráðanlegar í heimilisbókhaldinu og svo sem ekkert bogið við þetta ferli sem fjölmargir landsmenn tóku þátt í. Nú stendur lánið hins vegar í 3,7 milljónum og síhækkandi afborganir fara í það að greiða... tja, út í tómið. Félaginn er ekki beinlínis að greiða af bílnum enda er virði hans mun nær upphaflegri lánsfjárhæð en núverandi stöðu og raunar botna ég ekki alveg í því hvert peningarnir renna eða hvers vegna dæmið lítur svona skuggalega út en mér skilst að þetta heiti myntkörfulán.
Sjálfur tók ég svipað bílalán fyrir rúmur tveimur árum en það hefur þó lækkað örlítið enda venjulegt lán í íslenskum krónum. Afborganir hafa á hinn bóginn hækkað grimmt og greiði ég nú talsvert meira af farartækinu í mánuði hverjum en af húsnæðisláninu. Nógu þykir manni það blóðugt en hitt er ótrúlegt að það skuli vera einhvers konar happdrætti eða lottó lífsafkomunnar að fjármagna jafn hversdagslegan hlut og venjulegan fjölskyldubíl. Ég hef reyndar aldrei skilið þessi æðri fjármál.
Það er ekki eins og maður hafi sífellt verið að spenna bogann í bílakaupum og ekið um á drossíum. Þetta var í annað sinn á ævinni sem ég keypti nýjan bíl. Hið fyrra var haustið 1986 þegar ég keypti rauða Lödu, glænýja úr kassanum með láni frá Alþýðubankanum. Það var sannkölluð gleðistund í lífi fjölskyldunnar og mér fannst Ladan fegurst fararskjóta á gjörvallri Akureyri. Mig minnir að hún hafi kostað 197 þúsund krónur og 9 árum síðar seldi ég hana fyrir 50 þúsund kall og tvo lambskrokka. Var þá búinn að eiga hana skuldlaust í mörg herrans ár.
Reynslan af notuðum bílum næstu ár var misjöfn og eftir að hafa lent í ærnum viðgerðarkostnaði var ráðist í kaup á nýjum og traustum fólksbíl síðsumars 2006 og það er vissulega gott að aka um á bilanafríum bíl og ég er ánægður með gripinn. Mér finnst samt út í hött hve stór hluti af tekjum fjölskyldunnar fer í það að greiða af bílaláninu og reka blessaðan bílinn.
Íslendingar eru náttúrulega heimsmeistarar í bílasukki eins og annarri óráðsíu og magn bíla og tegundafjöldi með eindæmum í þessu litla landi. Ég viðraði þá skoðun fyrir mörgum árum að við ættum að setja okkur mörk en á slíkt mátti ekki minnast í allri frelsisumræðunni. Þá var ég að tala um að nóg væri fyrir Íslendinga að vera með umboð fyrir Toyota, Subaru, Ford, Volkswagen og Benz (eða Volvo) og kannski eina ódýrari tegund á borð við Hyundai. Þar með fengju allir eitthvað við sitt hæfi í fólksbílum og jeppum og stórfé sparaðist við magnkaup og afmarkaðri varahlutalager. Þeir sem endilega vildu aka um á svörtum BMW eða silfurgráum Range Rover eða öllum hinum tegundum gæti flutt slíka bíla inn sjálfir. Jafnframt vildi ég efla almenningssamgöngur en þær þóttu hallærislegar og helst fyrir börn og gamalmenni.
Sennilega er viðhorfið að breytast núna og æ fleiri ganga, hjóla eða taka strætó. Fleiri bílar eru fluttir út en inn og það er sannarlega tímabært að losa okkur við eitthvað af þessum umframbílum og spara stórfé þegar fram í sækir. Eflaust lærum við eitthvað af þessari lexíu allri en eftir standa þó bílalánin og hjá mörgum er þetta hið mesta ólán.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.