Sjitt, maður

Tæma kúkableiur og leggja þær í bleyti. Þvo kúka- og pissubleiur. Líka ælubleiur. Hengja upp hreinar og blautar bleiur. Taka niður þurrar bleiur. Strauja bleiur. Brjóta saman bleiur. Ganga frá bleium. Þess á milli að skipta um bleiu á barninu. Og bleiuplast. Blessaðar taubleiurnar. Er virkilega svona langt síðan? Þá skrifaði maður líka bleyjur með ufsiloni og joði en það er svo annað mál. Íslenskt mál.

Nú þegar dóttir mín er sjálf búin að eignast dóttur hvarflar hugurinn ósjálfrátt aldarfjórðung aftur í tímann. Stórt orð, aldarfjórðungur. Segjum frekar 25 ár. Eða ríflega tuttugu ár. Hljómar betur. Mér finnst að minnsta kosti ekkert svo langt síðan ég var í þessum sporum í kjallaraholunni í Norðurmýrinni. Liðlega tvítugur verkamaður í byggingavinnu og væntanlegur íslenskunemi við HÍ. Unnustan á síðasta ári í Fósturskólanum. Lítil stúlka komin í heiminn snjóþyngsta vetur í manna minnum í höfuðborginni.

Fæðingarorlofið var samtals 3 mánuðir og nú var tekin upp sú nýlunda að faðirinn mátti taka einn mánuð af því. Ég nýtti mér það, mínum ágæta vinnuveitanda til mikillar furðu. Aldeilis breyttir tímar. Þessi mánuður var dýrmætur og gaf mér mikla innsýn í meðferð á taubleium. Vissulega voru komnar til sögunnar einnota bleiur en þær voru býsna dýrar og auk þess höfðum við ákveðið að halda í þetta gamla og góða. Ég gjörðist býsna lipur með straujárnið og hef varla sleppt því síðan. En stúlkan þurfti líka sína næringu og þá var brunað með hana í Fósturskólann til að móðirin gæti gefið brjóst. Allt þetta þætti sennilega talsvert umstang í dag.

Ekki minnist ég þess að talað hafi verið um kreppu 1983 eða næstu árin en mikið óskaplega var maður nú fátækur þarna og frumstæðir búskaparhættirnir. Um nokkurt skeið fórum við á milli húsa með þvottabala og heimasíma eignuðumst við ekki fyrstu árin. Lifur, slátur og kjötfars í matinn og fiskur þrisvar í viku eða oftar enda var hann frekar ódýr þá. Stundum sauð maður súpu eða graut úr nánast engu. Ég man eftir kindahálsbitum sem sunnudagssteik. Oft var skrapað saman tómum flöskum eða sparibaukar brotnir upp til að geta keypt mat. Við vorum í reikningi hjá kaupmanninum á horninu og erfitt var að standa í skilum. Stundum fékk ég fyrirframgreiðslu í vinnunni þegar við sáum fram á að svelta. Svo þegar ég byrjaði ég Háskólanum reyndi ég að vinna með námi, bæði í byggingavinnu og síðan við ræstingar á leikskóla. Það skerti svo námslánin sem voru þó hálfgerð hungurlús. Allt var nýtt og maður stagaði í sokkana og rimpaði saman rifnum buxum. Einhvern veginn blessaðist þetta fjögur mögur Reykjavíkurár og þótt skömm sé frá að segja fannst mér ég hættast kominn í einhverju verkfallinu á þessum árum þegar tóbak fékkst ekki lengur í búðum!

Þær eru svo sem gæfulegri aðstæðurnar sem blasa við dótturdóttur minni í Reykjavík í dag og ætti ekki að væsa um hana. Það er samt langt frá því að vera einfalt mál að lifa á námslánum í dýrtíðinni og reyna að stunda námið. Kröfur eru líka allt aðrar og meiri en í þá daga og gjörbreytt lífsgildi sem fólk hefur tamið sér. Grunnþarfirnar kosta sitt og eins og svo oft áður hér á landi kreppir helst að þeim sem litla tekjumöguleika hafa. En jæja, það hefur margt breyst til hins betra og nú þarf ekki lengur að þvo og strauja kúkableiur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef kíkt á bloggið þitt af og til í gegnum árin en aldrei mannað mig upp í að skilja eftir eins og eina setningu til þakkar, þær eru oft ferlega fyndnar færslurnar :) 

Here it comes then (er þetta óhætt á síðu íslenskukennara?) - Alltaf gaman að lesa bloggið þitt og takk fyrir mig ;)

Elín J. (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 19:02

2 identicon

Sæll afi! 

Þetta hljómar allt mjög kunnuglega, bleiustand, basl og blankheit, innbrot í sparibauka, selja gler fyrir mat, díla við kaupmanninn (Hagabúðin).  Ég fékk stundum að "geyma vísanótuna" hjá honum fram yfir 18.  Þetta var fyrir tíma rafrænna greiðslna.  Einu sinni varð hann pirraður og hélt ræðu yfir mér og sakaði mig um óráðssíu og fleira!  Þá gekk ég út og kom ekki aftur í þessa búð það sem eftir var af dvöl minni í Reykjavík.  Eftir því sem árin líða, þeim mun svakalegra var baslið á okkur og maður bætir í með hverju ári, en það var samt gaman á köflum!

Þorsteinn (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 23:24

3 identicon

skemmtileg færsla Stefán, ekki alveg jafn langt síðan;) en við Valur tókum einmitt slátur á þessum tíma í lífi okkar en splæstum samt í einnota bleyjur (ekki fullorðins). Líka með einsdæmum þægilegt að geta geymt vísanótur, kannast vel við það.  Spurði einu sinni í sænskri búð hvort það væri hægt en það var horft á mig sem viðrini, skyldu ekki spurninguna því ef það er eitthvað sem maður lærir hér í lagomlandinu þá er það það að safna fyrir keyptum hlutum, lexía sem ég vonandi get tamið mér.  Já og til hamingju með afatitilinn ef ég var ekki búin að óska þér þess.

Brynja (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 13:03

4 identicon

Til hamingju með barnabarnið, Stefán:) Ég tek undir með fyrsta ræðumanni, það er frábær skemmtun að lesa vefbókina þína:)

Sigrún Vala (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband