10.1.2009 | 15:52
Gull
Ég er soddan gikkur að ég tími ekki að kaupa úlpu á 55 þúsund, gallabuxur á 23 þúsund eða skó á 21 þúsund. Sonur minn var á sama máli. Að vísu var 30% afsláttur af úlpunni og ég hefði því grætt heilan helling á því að kaupa gripinn. Við vorum eiginlega að leita að einhverju á drenginn í Kringlunni því hann hafði fengið fatapening í jólagjöf. Frúnni tókst betur upp en okkur feðgum en við fundum síðan ágætis skó á drenginn fyrir norðan á skikkanlegu verði.
Eflaust mætti rita argvítuga háðsádeilu um það sem fram fór þarna í Kringlunni í upphafi árs og nógu mikið fussaði ég og sveiaði yfir þessum tískuklæddu konum og stelputrippum sem æddu á milli verslana með sífellt fleiri poka af fötum sem þær höfðu enga sérstaka þörf fyrir. En síðan fór ég að hugsa um þjóðarhag. Við lifum jú hvert á öðru og þessi gullgröftur í Kringlunni er eflaust nauðsynlegur fyrir hagkerfið þannig að ég tek bara ofan fyrir þeim ágætu konum sem láta þessi blessuðu hjól efnahagslífsins snúast.
Ég lauk við skáldsöguna Gull eftir Einar H. Kvaran og varð fyrir dálitlum vonbrigðum með það hvernig hún þróaðist. Raunsæisleg ádeilan leystist að mestu upp í andlega þanka, sem ku endurspegla þróun höfundarins. Ég get þó tekið undir eftirfarandi orð, sem túlka má sem niðurstöðu:
- Og þau fundu bæði, að í sól sálarfriðarins verður allt að gulli - líka reykjarsvæla mannlífsins... Og að alt annað gull er mannsálinni fánýtt til frambúðar. - (bls. 257)
Þetta afturhvarf frá íslenskum krimmum og öðrum jólabókunum til gamalla raunsæissagna í bókaskápnum heima spratt eiginlega af bókaþurrð. Nú er ég hins vegar að lesa Afleggjarann eftir Auði A. Ólafsdóttur og líst alveg ljómandi vel á. Virkilega heillandi stíll.
Annars stendur yfir próftíð í skólanum þannig að ég hef nóg að lesa en það er kærkomin hvíld frá misgóðum prófsvörum að smjatta á hnossgæti eða renna í gegnum spennandi reyfara. Þar má finna marga gullmola. Ég vil samt ekki gera lítið úr svörum nemenda minna. Það leynast líka mörg gullkornin!
Athugasemdir
Sko.
Ég fór í Herrahúsið Adam fyrir jólin og fann þessa fínu Júpíter úlpu úr míkrófíberefni - eiginlega alveg eins og gamla úlpan mín er. Þarna var meira að segja aftakanlegur leðurkragi og svolítið ullarvesti úrrennanlegt innan í úlpunni. Fyrirtaks flík og kostaði ekki nema 39.500 kall.
Ég var að hugsa um að skella mér á hana, en ákvað að ganga smáspöl fyrst til að taka úr mér hrollinn. 500 metrum neðar við Laugaveginn datt ég inn í Guðstein og þar hékk nákvæmlega eins úlpa, sami litur, sama númer, sama vörumerki - allt nákvæmlega eins nema verðið. Þarna kostaði þetta heldur betur skildinginn. 19.900 krónur. Og svo fékk ég einhvern smáfslátt af því að ég borgaði með debetkorti.
Mér fannst 20 þúsund króna munur í fatabúðum með 500 m millibili dálítið skondin staðreynd. En svona var þetta nú.
Sverrir Páll Erlendsson, 12.1.2009 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.