Ofurefli

Slúður hefur lengi verið þjóðaríþrótt hér á landi, ekki síst meðal kvenna, og lýsti Gestur Pálsson þessum fjára meistaralega í fyrirlestrinum Lífinu í Reykjavík. Sjálf Gróa á Leiti fæddist í fyrstu alvöru íslensku skáldsögunni, Pilti og stúlku, og hefur kerlingin sú lifað góðu lífi í meira en eina og hálfa öld. Gömlu raunsæiskarlarnir deildu mikið á slúðurbera og ég var einmitt að enda við skáldsöguna Ofurefli eftir Einar H. Kvaran en hún kom út árið 1908. Þar smýgur slúðrið með regninu inn í hvert hús í Reykjavík og blásaklaus dómkirkjuprestur missir hempuna. Hann má ekki við ofurefli almannaróms.

Almannarómurinn hefur náð nýjum hæðum í netheimum og þar er auðvelt að týna ærunni og sæta einelti og útskúfun. Sjálfsagt mun umræðan verða gáfulegri þegar fésbækur og bloggsíður hafa dafnað dálítið og höfundar og lesendur þroskast eitthvað. Sjálfur hef ég bloggað í ansi mörg ár á http://ss.hexia.net og um nýliðin áramót leit ég um öxl og aðgætti hvort ég hefði ausið skít yfir einhvern á árinu. Svo reyndist ekki vera. Mér leið betur á eftir.

Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna stjórnvöld, hestamenn, hundaeigendur, útrásarvíkinga, letingja, heimskingja og ýmsa aðra hópa eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Oftast hæðist ég frekar að breytni mannfólksins í stað þess að drulla yfir nafngreinda einstaklinga. Ég held ég megi segja að ég hafi ekki talað illa um nokkurn mann á blogginu mínu þótt einhvern tíma kunni ég að hafa nafngreint nokkra. Föstustu skotin eru yfirleitt á sjálfan mig og ýkjur og úrdráttur falla mér betur í geð en skammir, svívirðingar og nöldur. Fólk ætti að láta það eiga sig að blogga þegar heiftin skyggir á skynsemina og reyna frekar að fá útrás í lokaðri dagbók eða drífa sig í ræktina.

Nú er ég byrjaður á skáldsögu sem heitir Gull og er hún framhald Ofureflis, kom út 1911. Mér sýnist á öllu að ádeilan þar eigi ekki síður við í dag. Ríki kaupmaðurinn, sem gjarnan er skotspónninn í sögum raunsæismanna, fær veður af því að gull sé að finna í jörðu í Reykjavík og hann er hvattur til að tryggja sér sem flestar lóðir og húseignir á góðum kjörum áður en fréttirnar berast víðar. En almannarómur er fljótur að renna á hringlið í gullinu:

- Og innstreyminu fylgdi líka mikil atvinna. Smiðirnir höfðu ekki undan að koma upp húsum handa fólkinu. Viðskifti öll uxu svo, að undrum sætti. Og bankarnir sendu út frá sér skæðadrífu af seðlum og hlóðu hirzlur sínar fullar af alls konar skuldaviðurkenningum. - bls. 81

Þannig er því lýst þegar æðið hefst án þess að nokkurt gull hafi fundist. Hlutirnir eru kjaftaðir upp og höndlað er með skuldaviðurkenningar og gróðavonir sem byggja ekki á neinum áþreifanlegum verðmætum. Afskaplega hljómar þetta kunnuglega. Ég hlakka til að lesa áfram.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband