Með pípu og staf

Í einu vetfangi var mér kippt áratugi aftur í tímann en um leið eltist ég um mörg ár. Þessi þversögn er ekkert tengd því að ég skuli prófa moggabloggið á ný en vissulega gefur sú staðreynd tilefni til að efast um geðheilsu mína. Tímaflakk reynir líka ansi mikið á sálartetrið. Hugsanlega er ég einhver annar en ég er. Hver getur svo sem verið viss um að vera staddur á einum stað á ákveðnum tíma? Og hver þekkir sjálfan sig?

Nú, þetta gerðist allt saman á laugardaginn. Ég fann hvernig bak mitt bognaði, hnén gáfu eftir og allir liðir stirðnuðu. Ég dró fram gamlan staf til að geta staulast um. Mér óx grátt skegg og skyndilega var ég kominn í flókainniskó. Síðan var spurning hvort ég ætti reykja pípu eða taka í nefið. Ég valdi pípuna. Samt fannst mér nauðsynlegt að hafa vasaklút í brjóstvasanum á köflóttu skyrtunni. Þegar ég leitaði að Degi og Tímanum voru blöðin hvergi sjáanleg en ég kættist þegar ég sá að það voru svið í matinn og hræringur með súru slátri á eftir. Gott ef ég lumaði ekki á bolsíu í krukku uppi í skáp til að gefa litlu...

Já, ég breyttist sumsé í afa á laugardaginn og er það mér óskaplega hugleikið um þessar mundir og mætti jafnvel tala um hamskipti. Ég er auðvitað ekkert of ungur til að verða afi en samt er titillinn eitthvað svo bundinn gömlum minningum að ég hrekk ósjálfrátt í bakkgírinn.

Litla dótturdóttir mín er dúlla, bolla og krútt og spurning hvað maður á að kalla hana. Ég vona að fólk fari ekki að þvaðra um litlu prinsessuna því hún er ekki af kóngafólki komin og þetta er raunveruleiki en ekki ævintýri. Að sjálfsögðu verður spennandi þegar hún fær nafn. Ég er þegar kominn með þrjár uppástungur og eru það hljómfögur nöfn og stuðla við nafn föðurins.

Tillaga 1: Stella Blómkvist Styrmisdóttir. Rök: Stella Styrmis er töff nafn og ég gat ekki stillt mig um að hafa Blómkvist með.

Tillaga 2: Ívalda Storm Styrmisdóttir. Rök: Ívalda er nógu flott til að vera nútímalegt og Storm gæti verið tilbúið ættarnafn og stuðlar við Styrmi.

Tillaga 3: Stefanía Björg Styrmisdóttir. Rök: Hér þarf engin rök!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín M.

Ég styð Stella Blómkvist!

Katrín M., 6.1.2009 kl. 13:33

2 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Það kemur mér harla lítið á óvart að þú skulir styðja þessa nafngift. En já, þetta er mikil stund og verðskuldar eiginlega belgískt konfekt.

Stefán Þór Sæmundsson, 6.1.2009 kl. 22:05

3 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Ég er búinn að setja nokkrar myndir af litla krílinu undir Myndasafnið mitt (mínir tenglar) hér til vinstri.

Stefán Þór Sæmundsson, 7.1.2009 kl. 17:42

4 identicon

Falleg stúlka og efnileg, til hamingju með titilinn

Brynja (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 08:03

5 identicon

Ég er búin að liggja yfir síðunni hennar Auðar þinnar og berja þessa dásamlega fallegu stúlku augum aftur og aftur og fæ aldrei nóg. Hún er svo undursamlega falleg að það hálfa væri meira en nóg.

Svo má nú ekki gleyma í þessu sambandi að ég klikkaði ekki á kyninu frekar en fyrri daginn og hafði ég þó bara mynd að styðjast við í þetta skiptið.

Innilega til hamingju með afahlutverkið, dótturina og dótturdótturina.

Ég styð tillögu 3, liggur í augum uppi að hún er langbest

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband