6.6.2007 | 21:21
Saurinn burt!
Eins og ég hef áður sagt er ég hættur við að blogga hér með hálfri þjóðinni og held bara áfram á http://ss.hexia.net. Þar er nýjasta færslan svona:
Fátt veit ég aumkunarverðara um þessar mundir en íslenska knattspyrnulandsliðið nema ef vera skyldu hross og áhangendur þeirra. Hvenær ætlar þjóðin að skilja að hross eru burðardýr og búfénaður og eiga að vera í sveitinni til slíks brúks en ekki sem gæludýr í þéttbýli? Mér finnst að þetta eigi að gilda um ferfætlinga almennt. Í þéttbýli eiga þessar skepnur ekki að sjást nema þá hlutaðar sundur og vakúmpakkaðar í kjörbúðum.
Lítum bara á ástandið hér á Akureyri. Þetta er fallegur bær, umhverfið kjörið til útivistar, veðurblíða oft allnokkur eins og síðustu daga. Þá er gaman að ganga um í útjaðri bæjarins. Kjarnaskógur, Gömlu brýrnar, Naustaborgir, svæðið í kringum golfvöllinn, Lögmannshlíð o.s.frv. Um daginn fór ég upp í Naustaborgir sem oftar og veðrið var dásamlegt. Því miður gat ég lítið notið útsýnis og umhverfis því ég þurfti stöðugt að stara niður á stíginn til að vaða ekki í hrossaskít. Í dag fór ég síðan upp fyrir golfvöllinn og þar var ég í stórhættu því trylltir hestar voru þar á flenniskeiði. Og alls staðar var skítur. Fleiri dæmi mætti nefna en í stuttu máli sagt þá eru nánast allar útivistarperlur Akureyringa undirlagðar af hestamönnum og úrgangi.
Félagi minn sagði mér frá því um daginn að hann væri hættur að fara í Hrísalund í hádeginu. Þar væri allt löðrandi í klepróttu og illa þefjandi hestaliði sem strunsaði þarna inn í heita matinn svo verslunin fylltist af ólykt. Hvað er eiginlega í gangi? Ég meina, þetta er fólk sem hefur náið samneyti við skítugar skepnur, við erum að tala um graddasvita, merarhland, saur, úrgang, flugur og ógeð. Hvernig vogar það sér að vaða inn í matvöruverslun með stækan hrossadauninn sem mengunarský í kringum sig?
Nú, ef maður sleppur við hross, eins og í Kjarnaskógi, þá er varla þverfótað fyrir glefsandi hundum og hundaskít. Sömuleiðis innanbæjar. Það er hending að mæta hundlausri manneskju á gangi eða hjóli. Og heima í görðunum skíta kettirnir sem aldregi fyrr, enda hefur þeim fjölgað óþyrmilega. Fyrr má nú sakna sveitarinnar og skepnuhalds en að flytja þetta í þéttbýlið.
Æ, getum við ekki hreinsað Akureyri og nánasta umhverfi af þessum ósóma? Skepnur eiga heima í sveitinni með allan sinn úrgang, sem getur nýst þar sem áburður. Malbik og malarstígar eru ekki rétti vettvangurinn fyrir skít. Hættum að liggja flöt fyrir hestamönnum. Ég meina, er ekki búið að skipta um bæjarstjóra? Saurinn burt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.