Skál í boðinu!

Kæru gestir, við skulum skála fyrir brúðhjónunum, hinum 19 ára gamla brúðguma og 18 ára brúði hans. Þau mega reyndar ekki skála í kampavíni með okkur því samkvæmt lögum má ekki selja, afhenda eða veita ungmennum undir 20 ára áfengi. Brúðguminn hefur valið að skála í sykurlausum kóladrykk en brúðurin er með gulrótarsafa. Skál!

Þessi ímyndaða uppákoma er gjarnan notuð sem rök fyrir því að lækka áfengiskaupaaldur hér á landi úr 20 árum í 18. Ég hef verið nokkuð fylgjandi slíkri lækkun, með öðrum rökum þó. Allir vita að 20 ára markið heldur ekki. Margir komast í ríkið fyrir tvítugt, 18 ára og jafnvel yngri fara inn á suma skemmtistaði og kaupa sér athugasemdalaust áfengi á barnum, foreldrar samþykkja langflestir áfengisneyslu 18 ára ungmenna og þannig mætti áfram telja. Þegar yfirvöld dómsmála, lögreglan, foreldrar og almenningur gefur skít í lög þá hljóta þau að vera gagnslaus. Mér fannst því freistandi að kaupa þau rök að betra væri að hafa reglur sem sátt ríkti um og að samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs yrði farið í þjóðarátak gegn barna- og unglingadrykkju og að Íslendingar myndu sameinast um að standa við 18 ára markið.

Edrú til 18. Þetta hefur verið undirliggjandi kjörorð hjá mér, bæði sem foreldri og forvarnafulltrúa. Að komast vímulaus gegnum viðkvæmt félagsmótunarskeið og leyfa heilanum að ná meiri þroska er afar mikilvægt upp á velferð og framtíð einstaklingsins. Já, 18 er ágæt tala. Bílprófið í höfn, sjálfræðið, gifting möguleg; viðkomandi er fullorðinn og barnaskapur að banna honum að meðhöndla áfengi. Eða hvað? Undanfarið hafa verið að renna á mig tvær grímur. Þessari þjóð er nefnilega ekki treystandi.

Ég treysti Íslendingum ekki til þess að leggja aukna rækt við forvarnir samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs. Þessi lög verða sett í nafni frelsis með undirliggjandi gróðahyggju. Afskiptaleysi foreldra mun ekkert minnka. Mörkin færast neðar og auðveldara verður fyrir 14-15 ára krakka að redda sér búsi því þeir þekkja 18 ára ungmenni, líkt og nú þegar 16-17 ára krakkar fá tvítugt fólk til að fara í ríkið fyrir sig. Reynslan frá ýmsum ríkjum Bandaríkjanna er á þessa lund. Neyslan mun aukast, 18-20 ára ungmenni verða virkari neytendur en ella og neyslan mun einnig færast neðar. Æska okkar má ekki við frekari skakkaföllum. Unglingur af tættri tölvuleikjakynslóð plús áfengi er ávísun á geðraskanir, önnur vímuefni, afbrot og óhamingju.

Nei, ég get því miður ekki treyst þessari þjóð. Þar af leiðandi gæti ég heldur ekki greitt því atkvæði að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum því þar snýst allt um markaðshyggju. Gott hillupláss, tilboð, flöskur í hrönnum við kassann; allt til þess að ná hinni eftirsóttu söluaukningu. Sumir kaupmenn myndu kinnroðalaust hækka verðið á einhverjum nauðsynjavörum, sem fólk kaupir hvort eð er alltaf, til þess að lækka verðið á bjórkippunni í grimmilegri samkeppni við aðra kaupmenn.

Já, ég er að snúast. Ég held að lækkun áfengiskaupaaldurs hafi ekkert með raunverulegt frelsi að gera, hvað þá skynsemi. Þetta er frekar einskær markaðshyggja í bland við eftirlátssemi og uppgjöf. Það mun taka einhverja mannsaldra gegnum félagslegar og jafnvel genetískar breytingar að bæta drykkjusiði Íslendinga. Allt tal um að lækkun áfengiskaupaaldurs, verðlækkun og afnám ríkiseinkasölu muni skapa hér andrúmsloft suðrænnar menningarþjóðar er marklaus fagurgali. Vissulega væri þægilegt fyrir 18 ára sælkera að geta keypt sér ódýrt og gott rauðvín í Bónus um leið og læri á tilboðsverði en staðreyndin er sú að ákaflega fá ungmenni drekka léttvín og enn drekka flestir til að verða fullir.

Tillaga mín er sú að í stað þess að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum í 18 þá skulum við hækka giftingaraldur úr 18 árum í 20. Þá geta blessuð brúðhjónin skálað kinnroðalaust í kampavíni. Að auki er fólk löngu hætt að gifta sig svona ungt þannig að rökin hér í byrjun eru hjóm eitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill. Það er eins og mig minni að rökin fyrir því að leyfa sölu bjórs á sínum tíma hafi verið þau að drykkjumenning myndi batna. Þó að ég hafi ekki verið á móti bjórnum þá fannst mér þessi rök alltaf fáránleg og ef ég man rétt hefur drykkjumenning ekki breyst en bjórinn hefur hjálpað unglingum að réttlæta fyrir sjálfum sér áfengisneyslu undir lögaldri. Það var jú BARA bjór! Rannsóknir sýna að áfengisneysla hefur aukist eftir að bjórinn varð hluti af drykkjumynstrinu. Ég er harður andstæðingur þess að lækka áfengsikaupaaldurinn og fara að selja vín í matvörubúðum einfaldlega á sömu forsendum. Ungt fólk byrjar að drekka yngra, hópurinn sem drekkur stækkar og sá hópur drekkur einfaldlega meira eftir því sem aðgengið er auðveldara. Einfalt reikningsdæmi en boðberar frelsisins hafa nú ekki mikinn áhuga á slíkum reikningskúnstum eða hvað?

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband