Hverjir mega pissa bak við hurð?

Í ágætu dægurlagi segir að það megi hvorki pissa bak við hurð né henda ketti ofan í skurð. En er þetta algilt? Mig grunar að sumir komist upp með slíkt athæfi við vissar aðstæður og jafnvel að yfirvöld horfi í gegnum fingur sér þegar svo ber undir, enda eru þetta bara reglur úr dægurlagatexta en ekki lög samþykkt á Alþingi. Svo virðist það líka vera eðli laga og reglna að hljóta mismunandi vægi og túlkun og stundum er nóg að telja einhver lög vera lítt gáfuleg til að leyfa sér að brjóta þau.

Útvarpið hafði samband við mig út af bloggi mínu um meint aðgerðarleysi sýslumannsembættisins hér á Akureyri í málefnum öldurhúsa sem glenna sig upp á gátt fyrir villuráfandi unglingum og dæla í þá áfengi og það jafnvel ókeypis. Þarna er verið að brjóta ýmis lög, sem af einhverjum ástæðum virðast ekki þykja nógu fín til að framfylgja. Jú, lögreglan hefur vissulega skilað skýrslum og athugasemdum til sýslumanns og það býsna mörgum í sambandi við nokkur öldurhús. En hvað svo? ZZZ

Sem almennum borgara og uppalanda þætti mér hentugt að fá að vita hvaða lög eru marklaus, hvaða lög eru hlægileg og hvaða lög er nánast skylda að brjóta. Ég veit að það má sekta mig um tugi þúsunda fyrir að missa bílinn á 50-60 km hraða niður Eyrarlandsveg þar sem hámarkshraðinn er 30. Ég reyni að fara eftir umferðarlögum en mörgum finnst það ástæðulaust. Sumir telja það jafn eftirsóknarverða íþrótt að brjóta umferðarlögin eins og að svíkja undan skatti. Nú, ekki má ég stela úr verslunum heldur mega þær bara stela af mér, ekki er löglegt að berja leiðinlega menn og sennilega er illa séð að afhausa kött nágrannans.

Ég hef hins vegar á tilfinningunni að í eftirtöldum tilvikum sé það undir hælinn lagt hvort nokkuð sé gert með brot á lögum og reglum: Að hleypa ungmennum undir 18 ára inn á vínveitingastað, að selja ungmenni undir 20 ára áfengi, að hafa undir höndum fölsuð skilríki, að vera ölvaður á almannafæri, að vera með lítilræði af hassi á sér, að raska næturró í fjölbýlishúsi og yfirhöfuð að haga sér eins og íslensk ungmenni hafa gert undanfarna áratugi.

Þarna grunar mig að merg málsins sé að finna. Ráðamenn hafa sjálfir alist upp við hið íslenska stjórnleysi, taumleysi og agaleysi. Það var manndómsmerki að detta í það eftir fermingu og auðvitað frábært ef maður komst í Ríkið eða Sjallann 16 ára. Götufyllerí 14-16 ára barna voru ekki óalgeng og hvað með það þótt einhverjir menntskælingar væru að fikta við hassreykingar? Já, þeir sem komust nokkuð klakklaust í gegnum þetta fara nú með völd í þjóðfélaginu og sjá ekkert athugavert þótt næstu kynslóðir gangi í gegnum það sama. Ég er bara ekki alveg sammála þessu viðhorfi því það sem mín kynslóð iðkaði á unglingsárum var bara alls ekkert sniðugt á köflum eða til eftirbreytni. Nær væri að Íslendingar lærðu af reynslunni og þroskuðust og reyndu að líkjast meira suðrænum menningarþjóðum eða að minnsta kosti að tileinka sér meiri aga og skynsemi.

Ég hélt að lög og reglur væru ákveðin agastjórnunartæki en verð sennilega að endurskoða afstöðu mína. Í þeirri stöðugu lífsleikni, forvarnafræðslu og umræðu um siðerðileg álitamál sem fléttast inn í alla kennslu væri gott að fá skýrari línur frá yfirvöldum um það hverjir mega pissa bak við hurð og hvenær því það er aldrei að vita hvenær manni verður mál.

- Tekið af hinu blogginu mínu http://ss.hexia.net í tilraunaskyni - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sæll Stefán... langt síðan við höfum hist... Góður pistill... í upphafinu ætti náttúrulega að lækka áfengiskaupaldurinn í 18 ár til samræmis við að 18 ára einstaklingur má bjóða sig fram til þings... gifta sig ala upp börn og svo framvegis. En síðan á líka að fara eftir löggjöfinni. Það segir einhversstaðar "Með lögum skal land byggja og ólögum eyða" ef ég man rétt. Og þessi vitund landans um ólög er þess eðlis að ef lögin eru ósanngjörn þá er tilhneyging til að fara ekki eftir þeim. Og þessi vitund verður einnig til þess að yfirvöld beita sér ekki að fullu við að halda þeim uppi.

Þetta er ekkert voðalega flókið... Ef til þess væri pólítískur vilji þá væru ekki hundruð ungmenna vafrandi, dauðadrukkin, um göturnar um helgar. Fyrst hægt er að halda slíku frá Central Bronx ætti það að vera jafnauðvelt hér. Hér er bara því miður enginn alvöru áhugi fyrir slíku.

Svo er eitt sem yfirvöld hafa einnig á sinni samvisku og það er tvískinnungurinn sem er t.d að mínu viti helsta ástæða þess hve dópneysla unglinga er algeng í dag.  Með tvískinnungi á ég við að yfirvöld senda misvísandi skilaboð.

Dæmi. Þú mátt ekki djúsa fyrr en þú verður 20. en þú þarft ekkert að fara eftir því...

Þú mátt ekki nota dóp - Og þú átt sko að fara eftir því.. Yeah right...

Meðan svona bull er í gangi er orustan töpuð  - Sorry. Kv.Steini

Þorsteinn Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband