Færsluflokkur: Bloggar

Stórkostleg kjarabót

Það er gjörsamlega undravert hvað maður er alltaf að græða alveg viðurstyggilega mikið og veður bókstaflega í ómótstæðilegum tilboðum sem fráleitt er að láta fram hjá sér fara og því heillavænlegt að fylgjast glöggt með hverju andvarpi eða hvísli þar sem töfraorðin tilboð eða verðlækkun koma fyrir. Sem dæmi má nefna verðlækkanir á bensíni. Til allrar hamingju virðist lækkunin ætla að nema nokkrum krónum núna en mér var öllum lokið á dögunum þegar auglýst var að lítrinn hefði lækkað úr 144,4 krónum í 143,4 krónur og um þetta birtust fréttir á vef og prenti.

Hvað þýðir lækkun bensínlítrans um eina krónu fyrir meðaljón eins og mig? Jú, ég borga 45 krónum minna fyrir að fylla tankinn sem endist í 10-14 daga.

Já, 45 krónur græði ég. Kannski 90 krónur á mánuði. Er það frétt?

 


Hommar í felum og fagrar konur

Þjóðfélagið er gegnsýrt græðgi og valdabaráttu. Samtrygging, heiður ættarinnar, heiður hússins. Hagsýnishjónabönd. Bullandi framhjáhald. Brotin sjálfsmynd. Útskúfun. Tannhvassar tengdamömmur og rýtingar í bak - og fyrir. Fagrar og grimmar konur. Slóttugar. Enda hlýtur eitthvað að vera bogið við konur sem geta vafið karlmönnum um fingur sér. Hommar í felum. Hetjur. Karlmenn. Við grátum ekki. Gírugir fóstrar og gustmiklar hjákonur. Faðirinn gerir upp á milli barnanna. Og þó. Kannski er það skynsemin sem ræður. Móðirin eggjar og hvetur til hefnda. Illmenni á kreiki. Níðvísur. Taðskegglingar. Hetjur hoppa yfir spjót eða grípa það á lofti. Flókin málaferli eru leyst með því að skora á hólm. Þjófnaður er verri en morð og vei þeim sem vænir annan um samkynhneigð. Rassgarnarendar merarinnar stangaðir úr tönnum. Bláum brókum kastað. Atgeirinn rekinn í gegn og mönnum kastað út í ána. Eldur kveiktur. Á að sjóða súpu? Útlimir fjúka og spakmælin hrjóta af vörum. Gott að losna við slæmar hendur. Og peningar eru sjaldnast til góða enda taldi höfuðið tíu þegar það fauk af bolnum. Svo má alltaf sættast, ekki síst þegar flott tsjellíng er í boði!

Njála er málið. Lesið hana. Aftur. Og aftur.


Tortryggni

Mér hættir til að trúa því besta upp á fólk. Það kallast víst að vera bláeygur, einfaldur, auðtrúa eða þaðan af verra. Hins vegar tortryggi ég oft fyrirtæki og stofnanir sem ég sé þá í líki gírugra véla með ómennskuna hvínandi í hverju horni. Sennilega er þetta vottur af ofsóknarkennd og vitaskuld frekar einkennileg árátta þar sem fyrirtækin eru jú fólkið sem í þeim starfar og ég kveðst yfirleitt treysta fólki. Með þessa þversögn í farteskinu fór ég í ónefnda matvöruverslun á dögunum, keypti helstu nauðsynjar í nokkra poka og greiddi fyrir upphæð sem ég hélt að tilheyrði bara jólainnkaupunum.

Ekki grunaði ég starfsfólkið um græsku en ég leit þó vandlega yfir arðmiðann (ætli það heiti ekki kassakvittun núna) þegar ég var kominn út í bíl. Rakst ég fljótt á vöru sem hafði verið stimpluð þrisvar inn en ég keypti aðeins eina pakkningu enda nægir hún í marga mánuði. Ég skundaði því aftur inn í verslunina og lyfti eilítið brúnum þegar ég sá að á öðrum hverjum kassa var frambjóðandi fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk í kjördæminu en svo hristi ég höfuðið og fékk lausn minna mála og allt í góðu. Endurgreiðslunni fylgdu brosviprur og óskir um bjarta framtíð. Ég trúi því að þetta hafi verið kerfismistök, ekki vísvitandi rán eða ill meðferð á viðskiptavini.

Hins vegar veit ég ekki alveg hverju ég á að trúa upp á ónefnt flugfélag. Ég átti í fórum mínum gjafabréf sem var að renna út fljótlega. Aðstæður höguðu því þannig að mér fannst upplagt að kaupa flugfar til norrænnar höfuðborgar á ákveðnum tíma. Var ég búinn að skoða tilteknar dagsetningar og leist nokkuð vel á verðið, svona miðað við það sem gengur og gerist hjá flugfélaginu. Best að demba sér bara á þetta og nota gjafabréfið. En viti menn, eftir að ég setti gjafabréfið inn og sló inn sömu dagsetningar þá hafði heimferðin hækkað um andvirði helmings gjafabréfsins og í raun étið það upp ef við ætluðum að ferðast tvö. Tja, hvað var nú að gerast? Átti að refsa mér fyrir að eiga gjafabréf? Var inneign mín einskis virði? Var félagið að snuða mig?

Sjálfsagt eru á þessu eðlilegar skýringar og þær líklegastar að skyndilega (einmitt þegar ég sló inn númer gjafabréfsins) hafi verið afar lítið sætaframboð á þessum tiltekna heimferðardegi og ódýrustu sætin klárast í einu vetfangi. Ég nennti að minnsta kosti ekki að æsa mig, ullaði bara framan í bókunarvélina og valdi aðra dagsetningu og fékk þannig ferðina á því verði sem ég óskaði. Ég harðneitaði að láta hafa mig að fífli.


Kjóllinn

P3010035Silja Marín Styrmisdóttir í skírnarkjólnum úr móðurætt hennar, Grundarkjólnum gamla frá 1915. Flestir eða allir í minni fjölskyldu hafa verið skírðir í þessum kjól allar götur síðan og framan af var hann víst lánaður vítt um eyfirskar sveitir þannig að þau eru ófá börnin sem hafa mátað flíkina. Ef barn fæðist í fjölskyldunni 2015 og kjólinn verður enn í heilu lagi mætti segja mér að yrði mikið um dýrðir, Mogginn kallaður til og ekki verra ef skírt yrði í kirkju langalangafa, Grundarkirkju.

SMS

P3010025Þá er spennunni aflétt, dótturdóttir mín hefur fengið nafnið Silja Marín og ber það mjög vel. Við erum að sjálfsögðu afar sæl með þetta allt saman þótt erfitt verði að hætta að tala um krílið, dúlluna, krúttið, stelpuna, skottið og allt það. Nafnið hljómar vel og getur hentað lífeðlisfræðingi, fréttamanni, rithöfundi eða hagsýnni húsmóður, allt eftir behag og hvernig samfélagið verður í laginu. Silja Marín Styrmisdóttir fær svo þessa ágætu skammstöfun, SMS. Meðfylgjandi er mynd af tertunni, sem var bæði falleg og góð og veislan á sunnudaginn í heild fyrirtak.

Spennan magnast

Dagurinn nálgast. Spennan magnast. Ótti og angist. Yfirlið í mótun. Svitinn perlar. Jaxlar bruddir. Hroði í lungum. Dofi í fingrum. Höfuð klofið. Heilinn steiktur. Sálin tætt. Tryllt augnaráð. Tungan skorpin. Varir bólgnar. Dáðleysið algert. Helber kvíði. Einskær skelfing. Engin von. Örlítil von. Eygir von. Á von. Von og óvon. 

Von.

Tignarlegt orð. Von. Eins og Heinrich von Hettenfeld. Andstæðan er svo vonleysi eða vonbrigði. En það er nauðsynlegt að halda í vonina. Von.

Á sunnudaginn verður dótturdóttur minni gefið nafn. Ég vona að það verði ekki herfilegt, hvorki átakanlega gamaldags og stirt eða óhemju nýmóðins og vemmilegt. Með góðum vilja gæti ég skrifað langan lista yfir nöfn sem ég vona að krílið þurfi ekki að bera. Nefni bara nokkur dæmi.

Gæska Gjöll. Járngerður Efemína. Ljúfa Ljós. Snæhildur Snotra. Örgumleiða Æsberg. Ríta Lín. Dís Ester. Ósk Ýr. Lind Ýr. Sól Hlíf. Mist Eik. Bóthildur Brákasnót. Hortensía Hrollvekja. Vandalína Lýsistrata. Satanía Surg. Og svo framvegis.

Möguleikarnir eru svo óteljandi. Skiljanlega er maður kvíðinn. En innst inni treysti ég dóttur minni, þótt hún sé í íslenskunámi í HÍ. Ég man hvað mamma var áhyggjufull þegar hún stóð í sömu sporum. Þá var ég að hefja íslenskunám og til stóð að skíra dóttur mína, þá hina sömu og nú hyggst nefna dóttur sína. Mútta óttaðist að þetta yrði eitthvað frumlegt eða sótt í fornsögur. O, jæja. Ætli hún hafi ekki orðið sátt við niðurstöðuna og ég býst við að verða það líka núna. Það er samt vissara að óttast hið versta til að verða örugglega ánægður með það næstbesta.


Hroki og meðvirkni

Sumir nota (eða misnota) hass, amfetamín eða kókaín, aðrir gas, lím og þynni. Margir sötra á gömlu rauðvíni, viskíi eða koníaki, aðrir reyna að fá alkóhól úr rakspíra, skósvertu eða brennsluspritti. Einhverjir reykja tóbak og aðrir troða því í nef eða vör. Kaffi er þjóðardrykkur en til eru þeir sem vilja ekki koffín. Ýmsir nota fæðubótarefni en aðrir borða fjölbreytt fæði. Sumir eru feitir, aðrir mjóir. Sumir íhald, aðrir kommar. Sumir streit, aðrir hommar. Einhverjir halda með Liverpool en aðrir með Leeds. Hvað svo sem maður tekur sér fyrir hendur eða hvaða skoðanir sem maður hefur þá eru þetta ákveðnar upplýsingar um mann sjálfan. Fólk notar svo þessar upplýsingar til að meta mann eða dæma.

Fordómar eru auðvitað af hinu illa og slæmt þegar fólk stimplar einstaklinga og dæmir þá út frá misgáfulegum gjörðum. Við ættum t.d. ekki að úthúða reykingafólki þótt sjálfsagt sé að amast við þeim hvimleiða ávana að reykja. Hroki er annað áberandi þjóðareinkenni og oft er hann ekkert annað en útþanið einstaklingsfrelsi. Viðhorfið er það að gera það sem manni sýnist. Það kemur ekki öðrum við. Ég held samt að meðvirknin sé versta þjóðarmeinið.

Í meðvirkninni felast einnig afskiptaleysið og agaleysið sem svo mjög hefur grafið undan siðferðisvitund og samtakamætti þjóðarinnar. Löngum hefur verið svalt að svíkja undan skatti, ekki síst í hópi þeirra sem hafa mestu tekjurnar. Umferðarlög eru fyrir aumingja, áfengislöggjöfin grín. Það er töff að mæta til vinnu eða náms á mánudegi og hafa skemmt sér svo vel um helgina að maður man lítið eftir henni. Tónlistarmenn eiga að lifa hátt og hratt og nota dóp. Sjálfsagt er að stelpur noti líkama sinn sem aðgang inn í samkvæmi og klíkur. Ritgerð er best að skrifa með því að taka eitthvað beint af netinu og setja í eigið verk. Reki maður bílinn sinn utan í annan á bílastæði er best að forða sér. Og það er fyndið að birta myndir af illa drukknum eða áfengisdauðum vinum sínum á facebook eða öðrum opinberum netmiðli.

Meðvirknin með Pappírs-Pésunum (útrásarvíkingunum) varð okkur auðvitað til óbætanlegs tjóns og margir lifa enn í afneitun og sjálfsbekkingu og neita að taka fyrsta skrefið, að viðurkenna mistök sín, iðrast og reyna að bæta ráð sitt. Svo er alltaf spurning hvenær á að tala um mistök og hvenær ásetning eða fíkn. Það eru varla mistök þegar þjóðþekktur fíkniefnaneytandi verður einu sinni uppvís að neyslu eða viðskiptum. Mistökin eru væntanlega þau í hans augum að láta þetta komast upp. Ég hef lengi hrærst í heimi framhaldsskólanema og veit að ákveðnar hljómsveitir voru bannaðar á sumum skólaböllum vegna fíkniefnaneyslu hljómsveitarmeðlima en annars staðar og kannski víðar var meðvirknin í gangi og ekki fett fingur út í þennan lífsstíl. Fólk er ótrúlega lagið við að réttlæta, afneita, dansa með eða veigra sér við afskipti þegar áfengis- og fíknefnaneysla ungmenna og fyrirmynda barnanna okkar er annars vegar. Í raun ætti þessi þáttur að vera einfaldur: Skólaböll eiga að vera vímuefnalaus. Hljómsveitir sem spila á skólaböllum eiga að vera vímulausar. Það er nóg af vímutengdum skemmtunum annars staðar og nemendur eiga þá sjálfsögðu kröfu að fá að þroskast og skemmta sér í öruggu umhverfi.

Jæja, upphaflega ætlaði ég að tala um muninn á viðhorfi almennings til lítt þekkts ólánsfólks og fíkla sem misnota efni á borð við gas og rakspíra og svo fræga fólksins sem sniffar kók eða spítt. Einhvers staðar fór ég dálítið út af sporinu og læt þetta nægja að sinni.


Sóðalegur konudagur

Tveir sóðasneplar eru bornir í hús á Akureyri á miðvikudögum og eru þeir kenndir við dagskrár enda má einhvers staðar í þeim finna sjónvarpsdagskrá ef grannt er skoðað. Ekkert sóðalegt við það svo sem. Fyrst og fremst eru þetta auglýsingarit og allt gott og blessað að vekja þannig athygli neytenda. Sóðaskapurinn felst hins vegar í málfari, stafsetningu og greinarmerkjasetningu sem iðulega hefur verið fyrir neðan allar hellur í þessum ritum og uppsetning og útlitshönnun æði misjöfn líka.

Ritin sem þröngvað var inn um lúguna hjá mér í dag voru löðrandi í konudagstilboðum og ekki voru þau öll falleg. Okurbúllur sem kenna sig við snyrtivörur og heilsulind öskra á mann með hástafaauglýsingu: GEFU (sic!) ELSKUNNI ÞINNI ÞAÐ SEM ALLAR KONUR ÞRÁ, GÓÐAN ILM. Aha, hljómar ekki svo illa. Ég ætti að geta framkallað góðan ilm handa henni án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar. En sjálfsagt er verið að tala um einhver rándýr ilmvötn en ekki karlmannlega angan!

Síðar er orðrétt sagt að "VORLOOKIN" séu komin í hús. Ha? Allt í lagi að sletta en vor er engin sletta. Og er ekki dálítið vafasamt að segja að lúkkin séu komin í hús? Svo er talað um guðdómlegan ilm sem allar konur verði að eignast. Tískudagar eru auglýstir 19-22 febrúar, að sjálfsögðu ekki með punktum til að tákna raðtölurnar 19. og 22. febrúar. Að lokum er boðið upp á fría förðun FÖS- OG LAUGARDAG MILLI KL 15 - 16. Aldrei hef ég heyrt talað um fösdag. Skammstafanir eins og kl. eiga að vera með punkti og hér er ekki verið að tala um 15 til 16 og því á að nota og en ekki bandstrik í milli kl. 15 og 16.

Þetta er bara örlítið dæmi af hinum vikulega sóðaskap en eitt er víst að auglýsingar af þessu tagi örva mig ekki til að kaupa konudagsglaðning hjá þeim fyrirtækjum sem bera slíkt á borð.


Bitið á jaxlinn

Engin furða þótt maður hafi verið þögull. Ég sá nefnilega fyrrverandi forsætisráðherra í Hardtalk, síðan heyrði ég Ingva Hrafn afneita honum og biðjast afsökunar á því að hafa kosið þennan foringja sinn í undarlegum sjónvarpsþætti sem átti víst að vera viðtal við Kristján Þór og þá sá ég hinn sama fyrrverandi forsætisráðherra leika sér með Sveppa og Audda. Einnig hef ég ekki komist hjá því að sjá glefsur úr bréfi Davíðs og greinar Agnesar og ummæli Ólafs Ragnars og nú síðast hótun Jóns Baldvins um endurkomu. Einnig mætti nefna hvalveiðivandræði Steingríms og orð og gjörðir ýmissa embættismanna en vegna þess að ég velti mér ekki upp úr pólitík og hef aldrei talað illa um nokkurn mann í bloggheimum og neitað að taka þátt í persónulegu skítkasti þá hef ég setið á mér. Mig langar samt að ítreka kröfu mína um samstöðu þjóðarinnar og að metorðagirnd og flokkshagsmunir fái hvíld. Og manni finnst það óneitanlega skjóta skökku við ef Davíð, Ólafur Ragnar og Jón Baldvin eru enn í aðalhlutverki á hinu pólitíska leiksviði. Hvenær stöðvaðist tilveran?

Jæja, eftir hverju er maður svo sem að bíða? Íslendingurinn er stoltur maður á miðjum aldri sem ryðst áfram með öllum ráðum og dáðum. Hann lætur engan segja sér fyrir verkum. Hann hugsar um eigin hag og sæmd sinna nánustu eins og persóna í Íslendingasögu. Samvinna er eitthvað sem honum finnst vera til trafala. Eitthvað svo sænskt og sósíalískt við það. Best að drífa bara í hlutunum og keyra yfir allt og alla eins og persóna í reyfara eftir Stefán Mána. Algjör óþarfi að hugsa um afleiðingarnar. Ef einhver situr eftir með sárt ennið er það honum sjálfum að kenna. Hann er bara aumingi. Íslendingurinn þarf vitaskuld ekki að biðjast afsökunar á einu eða neinu og ekki sýna auðmýkt eða lítillæti undir nokkrum kringumstæðum. Hann er harðduglegur og á skilið að uppskera vel og sletta svo rækilega úr klaufunum á milli vinnutarna eins og persóna í bók eftir Einar Kárason.

Já, svei mér þá, ég held að Íslendingurinn sé banvæn blanda af Badda í Djöflaeyjunni, Óðni í Ódáðahrauni, Gunnari á Hlíðarenda, Íkarosi í grísku goðafræðinni og öðrum ámóta persónum sem ryðjast áfram og fljúga hátt án þess endilega að sjást fyrir. Það er bara gallinn við reynsluna af þessu flugi öllu saman að á endanum kemur fallið. Þá er bara að bíta á jaxlinn og hefna.

 


Heimsókn

Afinn og afakrílið Við skruppum suður til að heimsækja afa- og ömmukrílið og það var sannarlega yndislegt. Stúlkan er ríflega mánaðargömul og farin að brosa talsvert og geifla sig. Hér er hún að glotta við afa sínum eftir góðan göngutúr um Ægissíðuna í öflugum vagni með uppblásnum dekkjum. Algjört tryllitæki miðað við það sem maður var að ýta á undan sér hérna í gamla daga.

Heimsókn okkar gerði það að verkum að Auður og Styrmir komust í fyrsta sinn út úr húsi saman síðan telpan fæddist og afinn og amman og móðurbróðirinn tóku hlutverk sitt að sjálfsögðu mjög alvarlega en mér skilst að meginhlutverk okkar sé að ofdekra barnið. Alveg frábært hlutverk, skal ég segja ykkur. Ég hefði alveg viljað verða afi fyrr, svo skemmtilegt er það. Jæja, það líður svo ekki á löngu þar til við brennum suður aftur og auðvitað er ekkert mál að skjótast á milli þegar vel viðrar.

Um helgina stóð manni nákvæmlega á sama um allt Seðlabankakarp og annan grautargang hjá stjórnvöldum. Ég vona samt enn sem fyrr að þessum blessuðu stjórnmálamönnum og embættismönnum auðnist að vinna saman í þágu þjóðarinnar í stað þess að berast sífellt á pólitískum banaspjótum. Þetta er oft hreinasta lágkúra og ég nenni ekki að hlusta á vitleysuna dag eftir dag. Lífið hefur upp á svo margt skemmtilegra að bjóða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband