Sælir eru einfaldir

Skyldi sagan frá 1918 vera að endurtaka sig? Þá var þjóðin búin að þola kreppu vegna heimsstyrjaldar, inflúensan skæða sem kölluð var spænska veikin herjaði grimmt á landsmenn, það var eldgos í Kötlu og mitt í þessu öllu saman voru Íslendingar að bjástra við að verða fullvalda þjóð.

Núna má segja að kreppan hafi skollið á vegna heimsstyrjaldar á fjármálamörkuðum, svínaflensan er af svipuðum rótum og spænska veikin, eldgos er hafið í Eyjafjallajökli og gæti breiðst út í Kötlu og fullveldið er einnig í brennidepli og ekki ljóst hvort við höldum því eða verðum að beygja okkur undir AGS, ESB eða aðrar skammstafanir.

Þessi líkindi eða tengsl framkölluðu þó fyrst gæsahúð hjá mér þegar Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur birtist í sjónvarpinu. Þá fóru einhverjar bjöllur að hringja og ég hugsaði um skáldsöguna Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson. Sú bók gerist í skugga Kötlugoss og spænsku veikinnar 1918 og einn aðaldrifkrafturinn í sögunni heitir einmitt Páll Einarsson. Hann er kallaði Kölski og hlutverk hans er að eitra líf Gríms, læknisins sem berst við ofurefli spænsku veikinnar. Grímur Elliðagrímur er mikill græðari og ídealisti. Kannski er Steingrímur Joð holdgervingur hans í dag.

Ég ætla samt ekki jarðeðlisfræðingnum það hlutverk að reyna að hindra björgunarstörf Gríms og félaga eða leggja lífa hans í rúst á sex dögum eins og í bókinni. En hugsanlega er einhver annar Kölski þar á ferð, hver veit?

 


Línurnar í lag

Ástkæru eiginkonur og unnustur. Bóndadagurinn nálgast og nú ber ykkur að sinna frumþörfum makans eftir kúnstarinnar reglum. Það besta sem þið getið gefið bóndanum er að koma línunum í lag. Vinsamlegast kippið þessu í liðinn hið snarasta og lítið út eins og Salma Hayek þegar þorrinn gengur í garð. Þá munið þið uppskera ríkulega.

Ég er ekki að fara fram á geggjaða líkamsrækt eða gjörbreytt mataræði. Slíkt streð tæki líka of langan tíma. Nei, ég er að vísa í auglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem verslun ein hvetur konur til að fjárfesta í svokölluðum aðhaldsbolum undir slagorðinu Línurnar í lag fyrir bóndadag. Fyrirsætan í auglýsingunni klæðist slíkri flík og lítur bara ágætlega út.

Ágæta kvenþjóð. Þetta er sumsé sáraeinfalt. Kaupið aðhaldsbol, jafnvel aðhaldsbrók líka, aðhaldssokkabuxur ef þær fást og hugsanlega push-up brjóstahaldara. Þá er málið leyst og þið lítið vel út fyrir bóndann. Það þarf ekki meira til. Karlmenn hafa einfaldan smekk.

 


Vava

p1030052.jpg Afastelpan fagnaði eins árs afmæli sínu hjá okkur í Vanabyggðinni 3. janúar og var að sjálfsögðu hrifin af kræsingunum, eins og fleiri, svo og gjöfunum og gestunum. Silja Marín var hjá okkur öll jólin og naut þess að vera miðdepill athyglinnar. Eins gott að ekki voru teknar hreyfimyndir af afanum, virðulegum menntaskólakennara, skríðandi um öll gólf, bablandi og bullandi út í eitt. En mikið var þetta gaman og það sem eitt lítið kríli getur veitt mikla gleði.

Silja æfði sig óspart í því ganga með borðum og ýtti líka öllu lauslegu á undan sér og er nú farin að mynda sig við að taka nokkur skref út í óvissuna. Afinn og íslenskukennarinn fylgist að sjálfsögðu spenntur með málþroskanum og bíður eftir fleiri skiljanlegum orðum. Hann taldi þó næsta víst að Silja væri farin að segja afi, þegar greinilegt vava hraut af vörum hennar. Kannski ætlaði hún bara að segja Vanabyggð en hikstaði á fyrsta atkvæðinu. Nei, vava skal vera afi. Það verður látið á það reyna næst þegar við hittumst.

Í dag er hins vegar 11. janúar. Það er góður dagur í mínum huga og hélt ég upp á hann með því að kaupa mér Pipp. En svo... svo fer maður að taka sig á og innbyrða gulrætur, greipaldin, engiferrætur og söl og skola þessu niður með blávatni. Eða... tja, það er nú próftíð í MA og þá er alltaf góðgæti á borðum fyrir yfirsetufólk þannig að hugsanlega frestar maður þessu aðeins og æ... síðan kemur þorrinn með öllu súrmetinu sem er eftirlætið mitt og fljótlega verður dóttir mín BA í íslensku og þá verður veisla og einhver afmæli verða og síðan koma páskar og... Já, það má víst endalaust fresta hlutunum.

 


Skýjaglópar á Akureyri

P1090067 Skýjaglópar á Akureyri fengu eitthvað fyrir sinn snúð í dag og vonandi hafa ekki allir verið of niðurlútir eða uppteknir við að þræða útsölur með brjálæðisglampa í augum. Fegurð himinsins var nefnilega áþreifanleg. Þar var glampinn, birtan og vonin.

 

 

 

 

 

P1090069 Ætli þetta kallist ekki glitský á máli fræðimanna. Sjálfsagt talsvert kaldara þarna hátt uppi en niðri við jörðina þar sem hlákan vann á snjófjöllunum og þakið hreinsaði loks af sér jólaskrautið.

Ég rauk út og tók nokkrar myndir og kannski verður þetta til þess að ég fer að blogga á ný.


Djörfung og dugur á Mogganum

Nú er gósentíð hjá hýenum og hælbítum sem öfundast út í Morgunblaðið, máttarstólpa íslenskrar blaðamennsku, fyrir þá snjöllu og kjarkmiklu ákvörðun að ráða einn stórbrotnasta persónuleika þjóðarinnar sem ritstjóra blaðsins. Já, nú hefur Mogginn sannarlega sýnt djörfung og dug og tæki ég ofan hattinn ef ég ætti hann. Netheimar loga og símalínur blaðsins munu glóa en eftir stendur að brotið hefur verið blað með aðdáunarverðum hætti og mun ég sem tryggur áskrifandi fylgjast gagntekinn með framhaldinu.

Það var löngu orðið tímabært að grípa til róttækra og faglegra aðgerða á fjölmiðli sem margir hafa álitið steingerða stofnun. Burt með alla þessa gömlu og reyndu (þreyttu) blaðamenn, sem voru orðnir allt of dýrir í rekstri. Stundum þarf að lofta út og til allrar hamingju höfðu eigendur blaðsins áræði til þess. Ég sé ekki betur en að fylgt hafi verið faglegum sjónarmiðum í hvívetna og framtíð blaðsins sé nú bjartari en mörg undangengin ár. Nýi ritstjórinn skín sem perla á sorphaug íslenskrar blaðamennsku.

Ég var blaðamaður á smáblaðinu Degi í 8 ár og fór síðan í almennar fréttir á Morgunblaðinu eitt sumar og var síðan íþróttafréttaritari blaðsins á Akureyri næstu 12 árin eða svo. Líklegast hef ég verið áskrifandi að blaðinu í aldarfjórðung svo taugar mínar til þess eru sterkar. Það kæmi mér ekki á óvart þótt nýi ritstjórinn hefði samband við mig því aldrei hef ég mælt styggðaryrði um hann, öfugt við meginþorra þjóðarinnar. Að vísu gæti það háð mér að vera orðinn nokkuð roskinn og reyndur.

Ráðning ritstjórans er tvímælalaust öflugur leikur og sömuleiðis aðrar faglegar og ígrundaðar breytingar sem kynntar voru í dag. Ég verð samt að viðurkenna að það runnu á mig tvær grímur síðustu daga þegar bloggararnir hömuðust sem mest og um hríð var ég kominn á fremst hlunn með að segja skilið við blaðið. Þegar uppsláttarfrétt um að stjörnulögfræðingur, sem ég hef aldrei haft neinar mætur á, hefði ákveðið að segja blaðinu upp þá bakkaði ég, enda vildi ég ekki feta í fótspor hans. Svo kom reyndar fram í Kastljósinu í kvöld að umræddur lögfræðingur hefði ekki verið áskrifandi að blaðinu svo allt var þetta stormur í vatnsglasi.

Nei, ég mun halda áfram að kaupa Morgunblaðið. Það er blað sem hefur rödd og nú er hún orðin sterkari en áður. Fréttamennskan verður sjálfsagt traustari, faglegri og víðsýnni en nokkru sinn fyrr og ekki veitir af að hafa dagblað með skoðanir og áhrif, dagblað sem hefur völd. Á Fréttablaðinu hafa menn bara verið gjammandi hver í sínu horni meðan samhljómur, festa og óhlutdrægni hafa einkennt ásýnd Morgunblaðsins. Framtíð okkar er undir fréttamennsku Moggans komin og með Davíð Oddsson sem ritstjóra og Agnesi Bragadóttur þétt við hlið hans hlýtur framtíðin að vera björt. Þar eru samankomnir stórbrotnir hæfileikar, stílsnilld, áræði, víðsýni, heiðarleiki, umburðarlyndi, kurteisi, auðmýkt og ýmsar dygðir aðrar sem nýtast munu þjóðinni til að rétta úr kútnum.



Okur og aulatilboð

Er forsvaranlegt að greiða 2.000 krónur fyrir hamborgara á veitingastað? Eða 1.150 krónur fyrir eina sneið af skyrtertu? Þetta stóð mér til boða á ónefndu vertshúsi við höfnina á Húsavík. Til að vera fullkomlega heiðarlegur verð ég þó að taka fram að hægt var að fá svokallaðan kreppuborgara á 1.750 krónur. Af einhverjum ástæðum fúlsaði ég við þessum okri og þótti meira en nóg að greiða 990 krónur fyrir brimsalt súpugutl og sneið af snittubrauði.

Þetta með tertusneiðina þótti mér eiginlega hlægilegt. Við vorum í Mývatnssveit daginn áður og fengum okkur kaffi og kökusneið í nýlegum skúr við Dimmuborgir. Vissulega hafði ég óttast hefðbundna túristarányrkju þar en skyrtertan var þó á venjulegu verði, 650 eða 700 krónur, og ekki yfir neinu að kvarta þar. Þá fengum við ágætan mat á sanngjörnu verði á Sölku á Húsavík en okrið á ónefnda staðnum er fáheyrt.

Ég skrapp í búðina í dag og lét freistast eins og stundum. Hinn ágæti ostur sem kenndur er við höfðingja var merktur með grænum límmiða og á honum stóð tilboð. Við kassann var mér hins vegar gert að greiða 434 krónur fyrir þessa agnarsmáu öskju. Ég spurði hæðnislega hvað osturinn hefði eiginlega kostað hjá þeim fyrir tilboðið en fékk þá það svar að osturinn kæmi með þessum tilboðsmiða frá framleiðanda en verslunin væri ekki með neitt tilboð. Aha, þetta var sumsé bara ódýrt auglýsingatrikk. Maður hefur svo sem séð það áður. Áberandi miði með töfraorðinu tilboð - og maður aulast til að gleypa við þessu.

Í sömu verslun keypti ég flösku af kolsýrðu vatni án bragðefna. Fyrir hana bar mér að greiða 339 krónur. Æ, af hverju stendur maður í þessari vitleysu? Nú fer maður bara í kranavatnið, hestabrauðið, hakkaðar vambir, kjötfars og svið. Rop.

 


Sumarauki

P9120062 P9120004Hér er ég á Höfða við Mývatn á laugardaginn og frúin komin upp á Leirhnjúk. Við lékum okkur í góða veðrinu og þræddum m.a. allar gönguleiðirnar í Dimmuborgum áður en við fórum á Leirhnjúk. Gott var að komast í jarðböðin á eftir. 

Við gistum á Húsavík og skoðuðum fossa og fjörur á Tjörnesi á sunnudaginn, skutumst upp á Húsavíkurfjall og niður að Botnsvatni áður en við lögðumst í ber í Aðaldal og fórum loks að Barnafossi áður en við brunuðum heim. Sannarlega frábær sumarauki þessi helgi.

P9130094

                                                    


Er að?

Ég er að gera ráð fyrir... sagði veðurfréttakona á Stöð 2 tvívegis í kvöld. Ekki lét hún þar við sitja heldur sagði einnig: Ég er að reikna með...

Hvað er að?

Er að hvað?

Mér finnst fullgott að segja: Ég geri ráð fyrir góðu veðri eða ég reikna með góðu veðri. Þannig hafa Íslendingar komist að orði frá örófi alda. Þessu ER AÐ skrípi er gjörsamlega ofaukið. Svo má líka efast um tilgang þess að blanda sjálfum sér í spádóma Veðurstofunnar eins og tíðkast á Stöð 2 og kynna spána í fyrstu persónu. Það er svo annað mál.

Annað sem tengist veðri. Við hjónin vorum í Mývatnssveit og Þingeyjarsveit um helgina. Veðrið var yndislegt en viðvaranir um manndrápshita í dag gengu ekki eftir og skeikaði ansi miklu. Það var góðu lagi enda 14-17 stig bara gott í september.

 


Eldri

Sú var tíðin, reyndar eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan, að ég taldi mig ansi sprækan, nokkuð ungan enn og bara í fínu formi. Eitthvað er staðan breytt í dag. Sérstaklega í dag. Ég er eldri en í gær, feitari, slappari, gleymnari, móðari, argari, gargari, sargari...

O, jæja. Þetta líður hjá. Á morgun er kominn nýr dagur, eins og Brunaliðið söng. Maður getur heldur ekki alltaf verið sextán. Og ekki langar mig að upplifa 16 ára afmæli mitt aftur. Þá drakk ég heila brennivínsflösku, ældi í leigubíl og fór í bíó en mundi ekkert eftir myndinni, svo helstu afrek kvöldsins séu rakin.

Þannig að það stefnir bara í góðan afmælisdag. Konan ætlar að elda ofan í mig kræsingar og stjana við mig á allan hugsanlegan hátt. Það er hægt að hugsa sér margt verra en að eldast. Til dæmis yngjast.

 


Á tindinum

Tindur heitir vrh á slóvensku ef ég man rétt. En það er víðar hægt að ganga en í Slóveníu. Við hjónin notuðum sumaraukann um helgina ágætlega. Reyndar þurfti ég að sitja í Háskólanum fram eftir laugardeginum en síðan fórum við í góðan berjamó og þar á eftir í gönguferð í Naustaborgum í yndislegu veðri.

Á sunnudaginn ókum við upp í Hlíðarfjall og lögðum bílnum við stólalyftuna, Fjarkann. Gengum svo upp á topp og nutum kyrrðar og útsýnis. Kannski maður taki með sér þoturass næst og leiki sér í snjónum á Vindheimajökli. Þetta var fínasta ganga og eru nokkrar myndir komnar inn í myndasafnið.

hlidarfjall

 

 

 

 

 

 

 

Á toppi Hlíðarfjalls.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband